SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 47
3. júní 2012 47 Nýlega kom út geislaplatan Gömul skip þarsem Pálmi Gestsson les ljóð eftir Þorstein fráHamri. Við ljóðin samdi Hrólfur Vagnssontónlist sem hljómar undir lestrinum en sá tók einnig upp plötuna og hljóðblandaði. Blaðamaður hitti þá Þorstein, Pálma og Hrólf á heimili Þorsteins í Reykja- vík og spjallaði við þá um verkefnið og stöðu ljóðsins í dag. „Þetta varð þannig til að við Pálmi töluðum saman um hugmynd sem hafði lengi blundað í mér. Sú hugmynd var í rauninni að fá Pálma til að lesa ljóð, enda dásam- legur lesari. Hann er svo djúpur í orðsins fyllstu merk- ingu,“ segir Hrólfur og hlær. Þeir Pálmi þekkjast frá blautu barnsbeini en þeir ólust upp saman á Bolungarvík. Samspil ljóða og hljóða „Okkur fannst ekki skynsamlegt að hafa þetta einhvern samtíning af verkum nokkurra skálda heldur vildum við velja okkur eitt ákveðið skáld til að taka fyrir og þá var nú stutt í Þorstein,“ segir Pálmi um fyrstu drög verks- ins. Pálmi er afar hrifinn af ljóðum Þorsteins frá Hamri sem var boðinn og búinn að ljá þeim félögum ljóðin sín fyrir verkefnið. „Ég hef ekkert um það að segja annað en hversu innilega þakklátur ég er fyrir þetta verkefni,“ segir Þorsteinn sem hefur hingað til ekki verið hrifinn af þeirri hugmynd að flytja tónlist undir ljóðalestri. „Ég játa að lengst af var ég tortrygginn á tónlist- arflutning með ljóðum. Þetta hefur oft verið gert í fjöl- miðlum og þá hefur það stundum virkað á mig eins og menn vantreysti orðinu. Útkoman hjá Hrólfi og Pálma er hins vegar algjört samspil sem á ekkert skylt við það sem hafði farið í taugarnar á mér áður,“ segir Þorsteinn, Hrólfi til mikillar ánægju. „Það er auðvelt að fara fram af brúninni þegar tónlist er samin svona til að túlka ljóðin en mér þykir gaman að heyra að okkur hafi tekist vel til,“ segir Hrólfur. „Ég hlustaði á ljóðin lesin af Pálma og óneitanlega hafði það hvernig hann las þau mikil áhrif á þann hljóðheim sem ég skapaði við hvert ljóð. Myndin hefði líklega orðið öðruvísi ef annar hefði lesið þau. Ég vildi búa til hljóð- heim sem næði samkvæmt mínum skilningi ákveðinni tengingu við ljóðin,“ útskýrir Hrólfur sem notaði ýmsar aðferðir til að ná fram þeirri áferð sem hann hafði hugs- að sér fyrir verkið. Hljóðheimur án forms „Ég notaði flygilinn í tónlistarskólanum á Ísafirði og byrjaði til dæmis á að ná í öll þau eldhúsáhöld sem ég fann og setja þau inn í hann. Þá náði ég fram ákveðnum slagverksáhrifum,“ segir hann og bætir við að einnig hafi hann notað strengvafinn kassa til að skapa hljóð fyrir hljóðheiminn. „Ég vildi forðast að hafa hljóðheim- inn formfastan og í ákveðinni tóntegund sem ég vona að hafi tekist vel hjá mér. Svo notaði ég harmónikkuna sem kveikir yfirleitt í ákveðinni melankólíu hjá fólki,“ bend- ir Hrólfur á. „Harmonikkan er alltaf skemmtilegt hljóð- færi,“ bætir Þorsteinn við. „Ég veit ekki hvort þú hefur heyrt það, Hrólfur en fólk sem hefur hlustað á plötuna hefur sagt við mig að það sé einhver svona austur- evrópskur hljómur í þessu hjá okkur. Kannski er það harmonikkan,“ veltir Pálmi fyrir sér en Hrólfur segir það einnig geta verið vegna þeirra áhrifa sem John Cage hefur haft á sig sem tónskáld. Greinir ekki eigin verk Á plötunni má finna fjórtán ljóða Þorsteins og segist Pálmi stundum hafa verið óviss um nákvæma merkingu ljóðanna við lesturinn. „Það er oft svo mögnuð og skrít- in stemning í ljóðunum sem ég verð að viðurkenna að maður skilur einhverjum innri skilningi. Maður veit ekki endilega alveg hvað Þorsteinn er að yrkja um. Það nær bara til manns,“ segir hann um ljóð Þorsteins sem vill sjálfur ekki greina sín eigin ljóð um of. „ Oft er þetta bara einhver líðan,“ segir Þorsteinn og Pálmi kinkar kolli. „Ég reyni samt að forðast að greina þetta mikið sjálfur,“ segir Þorsteinn. Þau ljóð sem rötuðu á plötuna eru öll úr ljóðabók- unum Vetrarmyndin, Meira en mynd og grunur og Dyr að draumi sem komu út á árunum 2000-2005 en Pálmi segir hafa verið mjög erfitt að velja úr öllum þeim verk- um sem eftir Þorstein standa. „Það er mjög vel til fundið því þessar þrjár bækur eru allar mjög skyldar og hanga dálítið saman,“ segir Þorsteinn ánægður með val þeirra Pálma og Hrólfs. Ljóðið fer eftir öðrum leiðum „Mér finnst þetta áheyrilegt og verkið ætti að ná til allra,“ segir Pálmi um markhóp ljóðaútgáfu á borð við þessa. „Ljóðið hefur ekki átt eins erfitt uppdráttar og margur hyggur því menn fara gjarnan út í einhver markaðsviðhorf en það á ekki endilega við. Ljóð skila sér eftir öðrum leiðum og hafa alltaf gert,“ bendir Þorsteinn á og bætir við að á sínum uppvaxtarárum hafi fólkið ekki endilega keypt sér ljóðabækur heldur lagt ljóðin á minn- ið. „Ljóðið er samofnara lífi okkar en margir gera sér grein fyrir þó það hafi kannski ekki farið hátt í dæg- urmenningu hér á landi á undanförnum árum. Ég er viss um að áhugi fólks á ljóðum er meiri en það vill við- urkenna,“ segir Pálmi. Geti hann því vel hugsað sér að gera annað verkefni í líkingu við Gömul skip og þar er Hrólfur honum hjartanlega sammála. Lesa þyrfti fleiri ljóð „Við eigum ábyggilega eftir að prófa þetta form enn frekar enda var þetta alveg ofboðslega gaman. Það var gaman að setja þær hugmyndir sem kvikna við að heyra ljóðin í hljóðmynd. Þetta er ábyggilega það skemmtileg- asta sem ég hef gert,“ segir Hrólfur. „Mér hefur alltaf fundist of lítið til af lesnum ljóðum,“ segir Pálmi og bendir á vinsældir hljóðbóka í dag en skort á upptökum af upplestri á ljóðum sem líklega væri markaður fyrir. Blaðamaður tekur sem dæmi langhlaupara sem hlusta á heilu hljóðbækurnar við æfingar og segir Þorsteinn þá glettilega: „Ég myndi nú ekki lesa Halldór Laxness á hlaupum.“ Hægt er að nálgast Gömul skip í verslunum Eymunds- son eða með því að panta hana á vefsíðunni www.go- mulskip.is. Pálmi Gestsson hefur mikið dálæti á ljóðum Þorsteins frá Hamri og les ljóð hans á geislaplötunni Gömul skip sem er nýkomin út. Hrólfur Vagnsson samdi tónlist undir ljóðalesturinn. Morgunblaðið/RAX Hljóðheimur ljóðanna „Ljóðið er samofnara lífi okkar en margir gera sér grein fyrir,“ segir Pálmi Gestsson sem les ljóð Þorsteins frá Hamri við tónlist Hrólfs Vagns- sonar á plötunni Gömul skip sem kom út nýlega. Sigyn Jónsdóttir sigyn@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.