SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 35

SunnudagsMogginn - 03.06.2012, Blaðsíða 35
3. júní 2012 35 ingunni. „Nei, ekki þú væni minn,“ sagði hún, klappaði syni sínum á öxlina og heilsaði næsta manni. Ljósmyndari náði mynd af þessu atviki. Hin kulda- lega framkoma móðurinnar vakti at- hygli en sjálf sagði Elísabet: „Ég ólst upp við að sýna ekki tilfinningar mínar opinberlega.“ Karl prins hefur ekki leynt því að hann telji að foreldrar sínir hafi van- rækt hann. Í ævisögu sinni sem kom út fyrir allnokkrum árum lýsti hann móð- ur sinni sem tilfinningalega heftri konu sem hefði ekki sýnt honum næga ástúð. Eftir átta ára aldur minnist hann þess ekki að hún hafi kysst hann. Elísabet hefur ekki svarað þessari gagnrýni op- inberlega, enda ekki hennar háttur, en hefur lagt sig eftir því að hrósa elsta syni sínum í ræðum. Þó er vitað að henni þykir hann alltof eyðslusamur en sjálf er hún nýtin og sparsöm – af drottningu að vera. Um gagnrýni Karls prins á foreldra sína hefur Filippus sagt: „Við reyndum að gera okkar besta.“ Alkunna er að fáleikar eru á milli Karls prins og Filippusar, en honum þykir elsti sonur sinn veiklundaður og gerir stundum mikið grín að honum. Þegar Karl var sautján ára lék hann í skólasýningu á Macbeth. Þegar Filippus sá son sinn á sviði rak hann upp skelli- hlátur. Karl hefur lýst því sem skelfi- legri reynslu að standa á sviði í harm- leik og heyra föður sinn hlæja að frammistöðu hans. Dóttirin Anna er eftirlæti föður síns og þykir líkjast honum mjög, er ákveð- in og lætur engan vaða ofan í sig. „Hún er Filippus í kvenmannsfötum,“ sagði Díana prinsessa um Önnu. Hneyksli á hneyksli ofan Elísabet er afar vönd að virðingu sinni og hefur alla tíð verið í mun að gegna starfi sínu á þann hátt að enginn blettur falli á konungdæmið. Þar hefur hún staðið sig vel en hið sama verður ekki sagt um aðra fjölskyldumeðlimi. Systir hennar, hin lífsglaða Margrét, lifði ógætilega. Á unga aldri hugðist hún giftast fráskildum yfirhestaverði, Peter Townsend, en þá hefði hún jafnframt þurft að afsala sér ýmsum konung- legum réttindum. Prinsessan átti samúð almennings en ákvað loks að slíta sam- bandinu. Hún giftist ljósmyndaranum Antony Armstrong og þau lifðu villtu lífi sem slúðurblöð fylgdust með og stunduðu framhjáhald í gríð og erg þar til þau skildu loks. Margrét tók svo upp samband við glaumgosa sem var sautján árum yngri en hún og fögnuður slúð- urblaðanna var gríðarlegur, en fögn- uður drottningar því minni. Elísabet hafði vissulega áhyggjur af hegðun systur sinnar, en börn hennar áttu eftir að valda enn meiri vandræð- um. Af fjórum börnum drottningar hafa þrjú skilið. Anna prinsessa, sem kann ekki við sviðsljósið, skildi án láta og giftist á ný en gríðarlegur hávaði varð þegar ljóst varð að hjónaband Karls og Díönu væri dauðadæmt. Bæði áttu í ást- arsamböndum, ásakanir gengu þeirra á milli og drottning reyndi að róa son sinn og tengdadóttur án árangurs. Andrés prins, glaumgosinn í fjöl- skyldunni, átti í ástarsambandi við klámmyndaleikkonuna Koo Stark en giftist síðan Söru Ferguson sem þótti óhefluð og jafnvel klúr. Þau hjón voru óhemju eyðslusöm og söfnuðu skuld- um. Sara komst svo rækilega í heims- fréttirnar þegar birtust myndir af henni og fjármálastjóra hennar þar sem þau voru fáklædd í sólbaði og hann var að sleikja tær hennar. Yngsti sonur drottningar, Játvarður, hafði svo nóg að gera við að neita því að hann væri samkynhneigður. Þegar hann svo loksins fékk sér kærustu, Sophie Rhys Jones, sem hann seinna kvæntist, var fullyrt að sambandið væri sviðsett. Þetta var ekki fréttaflutningur sem var til þess fallinn að styrkja konung- dæmið. Hin skyldurækna drottning sem var svo lítt gefin fyrir að ræða um til- finningar sínar lýsti í ræðu árinu 1992 sem annus horribilis en á því ári skildu þrjú barna hennar við maka sína. Ný kynslóð og breytt konungdæmi Vinsældir konungsfjölskyldunnar voru í lágmarki eftir hvert hneykslið á fætur öðru. Í tilraun til að breyta ímynd kon- ungdæmisins fór drottningin að borga skatta og opnaði Buckinghamhöll fyrir almenningi í tvo mánuði á ári. Drottningin hafði ávallt reynt að vinna verk sín vel en hún hafði fast- mótaðar hugmyndir um hlutverk sitt og gat illa breytt sér. Það var Díana prinsessa sem breytti konungdæminu. Díana, sem faðmaði fólk og sýndi til- finningar sínar, var hið nýja andlit konungdæmisins. Þegar hún dó svip- lega í bílslysi í París syrgði umheim- urinn hana meðan drottningin lokaði sig inni og neitaði að taka þátt í opin- berri sorg. Á þennan hátt hafði Elísabet alltaf unnið og hún ætlaði að halda því áfram. Í fyrsta sinn á valdatíma El- ísabetar skall andúð landsmanna á henni af fullum þunga. Hún þótti kald- lynd og hrokafull. Konungdæmið var í vanda. Það var forsætisráðherrann Tony Blair sem lagði drottningu nú til ráð og hún kom fram í sjónvarpi og talaði af hlýju um fyrrverandi tengdadóttur og sorg ungu prinsanna sem höfðu misst móður sína. Drottningin hafði sýnt sína mannlegu hlið, sem var einmitt það sem landsmenn höfðu beðið um. Hún varð aftur elskuð og dáð. Ekkert bendir til að drottningin muni afsala sér völdum til Karls sonar síns. Elísabet virðist heilsuhraust og gæti lif- að í mörg ár enn. Vinsældir Karls eru ekki sérlega miklar en sonur hans og Díönu, Vilhjálmur prins, er allra eft- irlæti, enda hjartahlýr. Eiginkona hans, Katrín Middleton, er sömuleiðis í mikl- um metum meðal almennings. Hin ungu hjón virðast samhent og ást- fangin, sem er góð tilbreyting frá þeim átökum í einkalífi sem hafa einkennt líf barna drottningar. Karl giftist Díönu en ekki leið á löngu þar til ljóst var að hjónabandið var dauðadæmt. Gagn- kvæm andúð þeirra leynir sér ekki á þessari frægu mynd. AFP Katrín Middleton, eiginkona Vilhjálms prins, er eftirlæti almennings og fjölmiðla. Hvert sem hún fer fylgja ljósmyndarar henni. Hin ungu hjón þykja afar alþýðleg og frjálsleg. AFP Elísabet og Filippus í hestvagni árið 2009 eftir að drottningin hafði ávarpað þingið. AFP ’ Barnfóstra henn- ar til margra ára sýndi athygl- isverða hlið á hinni ungu Elísabetu þegar hún sagði frá því í end- urminningum sínum að sem unglingur hefði El- ísabet verið þjökuð af skyldurækni og stund- um vaknað um miðjar nætur og stokkið upp úr rúminu til að hagræða skóm sínum og fötum.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.