Helgafell - 01.01.1943, Page 76
62
HELGAFELL
í för með honum var Gísli póstur, gömul ferðahetja, hertur og stæltur í
langri baráttu við illviðri og ófærðir í byggðum og óbyggðum Austurlands.
Skáldið virti póstinn fyrir sér:
hreggbarinn háls
og herðarnar ólseigu, stinnu,
og niðurstaðan af hugleiðingum hans var sú, að hann sá í póstinum ,,ald-
anna samsuðustál“.
Þjóð vor hefur verið á afli þær tíu aldir, sem hún hefur búið í landinu, afli
erfiðrar lífsbaráttu í harðbýlu landi. Aldirnar hafa soðið henni stál á þeim
afli, þrek og þrautseigju, kjark og seiglu, í mannraunum og torfærum á sjó
og landi. Bárður Snæfellsás er tákn þessa samsuðustáls aldanna. Mörgum
íslendingi hefur gefizt vel að heita á hann, heita á stálið í sjálfum sér, þegar
í harðræði var komið. Nú er lífsbaráttan að vísu orðin léttari og auðveldari
hér á landi en nokkru sinni fyrr. En þjóðin er komin á annan afl, annars
eðlis en hinn fyrra og ekki síður viðsjárverðan. Hvað verður soðið á þeim afli ?
Verður það sori einn og gjall, eða verður það ný tegund af hörðu og stæltu
stáli ?
Ólafur Lárusson.