Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.03.2013, Blaðsíða 17

Skinfaxi - 01.03.2013, Blaðsíða 17
 SKINFAXI – tímarit Ungmennafélags Íslands 17 Þórarinn Hannesson, íþróttakennari við Grunnskóla Fjallabyggðar og frjálsíþrótta- þjálfari hjá Ungmennafélaginu Glóa, segir krakkana vera mjög áhugasama og að þeir leggi mikið á sig til að ná árangri. Þórarinn er jafnframt formaður Glóa. Stofnuðum Glóa 1994 „Ég kom hingað til Siglufjarðar haustið 1993 og vorið eftir stofnuðum við nokkrir saman Ungmennafélagið Glóa. Við höfðum áhuga á því að auka fjölbreytnina í íþróttalífinu á Siglufirði og vorum þá aðallega með í huga körfubolta og frjálsar íþróttir. Við hófum frjálsíþróttaæfingar hér strax 1995, héldum út í nokkur ár en svo datt þetta niður um tíma. En við höfum haldið úti æfingum í frjálsum íþróttum óslitið frá 2004. Við höfum í gegnum tíðina gert töluvert að því að taka þátt í mótum, minna á sumrin, því að þá fara krakkarnir í fótboltann, en þess meira á vet- urna. Þátttaka í Stórmóti ÍR hefur verið fastur liður, Íslandsmótin og nokkur Unglingalands- mót UMFÍ. Það hittir þannig á að mikið er að gerast á Siglufirði um verslunarmannahelgar en við reynum eins og kostur er að fara á Unglingalandsmótin. Við förum líka mikið á mót hér í kringum okkur, inn á Akureyri, Sauðárkrók og á minni mót sem passar vel fyrir okkar hóp,“ sagði Þórarinn Hannesson. Nú eru krakkarnir lengur heima Aðspurður hvort krakkarnir haldi áfram frjálsíþróttaiðkun þegar þau þurfa að heim- an vegna náms sagði Þórarinn svo vera í ein- hverjum tilfella. Þórarinn sagði að nú væru krakkarnir lengur heima með tilkomu Menntaskólans á Tröllaskaga og það væri virkilega gaman. „Við ætlum í kjölfar þessa að fara að bæta við æfingum og koma þannig í meira mæli til móts við eldri iðkendur hjá okkur. Við höf- um fram að þessu verið með iðkendur í ein- um hóp en á næsta ári er markmiðið að tví- skipta þeim og fylgja þeim lengur en gert hefur verið til þessa. Það verður mjög spenn- andi,“ sagði Þórarinn. Mörg félög og margar greinar stundaðar – Hefur ekki alltaf verið mikill íþróttaáhugi á Siglufirði? „Jú, því er ekki að neita. Hér eru mörg félög og margar greinar stundaðar en knattspyrn- an hefur alltaf verið sterk. Skíðin voru það lengi, döluðu um tíma, en eru á uppleið aftur. Badmintonstarfið hefur alltaf verið gott og stundað mikið í gegnum tíðina. Það hefur alltaf verið sterk hefð fyrir badminton en öfl- ugir aðilar hér hafa búið vel um hnútana og hlúð vel að starfinu. Svo erum við með golf og hestaíþróttir. Í eldri flokknum erum við með öldungablak sem er mjög öflugt og mikið stundað.“ Ótrúlegir hlutir með nánast enga aðstöðu Hvað aðstöðuna áhrærir segir Þórarinn að á Siglufirði sé ágætt íþróttahús sem boltahús. Svo er minni íþróttasalur sem er góður til að kenna í og leiðbeina yngri börnunum. Þokka- legur knattspyrnuvöllur er í bænum en engin frjálsíþróttaaðstaða. „Unnið er að því að gera frjálsíþróttasvæði þar sem sett yrði upp almennileg langstökks- braut og betri kasthringir en annað er ekki í bígerð. Það má því segja að við séum að gera ótrúlega hluti í frjálsum íþróttum með nánast enga aðstöðu. Við notumst við inniaðstöðu og svo á túnum á sumrin en það er samt ekki allt unnið með góðri aðstöðu í öllum tilfell- um. Krakkarnir eru ótrúlega duglegir og eru að gera flotta hluti á mótum sem þau taka þátt í,“ sagði Þórarinn. Þórarinn sagði það mikið ævintýri fyrir krakkana að koma suður og keppa við jafn- aldra sína í Frjálsíþróttahöllinni. Hann segir óneitanlega langt að fara og að mikill tími fari í að undirbúa keppnisferðir. „Ég var afskaplega ánægður með frammi- stöðu þeirra á meistaramótinu 11–14 ára. Þau hafa alltaf staðið sig vel þegar maður hefur farið með þau í æfinga- og keppnis- ferðir. Flestallir krakkarnir æfa fleiri en eina grein svo að það er nóg að gera hjá þeim. Það þarf stundum að velja og hafna. Ég mjög stoltur af þeim,“ sagði Þórarinn. Aðspurður hvað sé fram undan sagði Þór- arinn á dagskránni að halda innanfélagsmót í mars og svo verði farið á mót inn á Akureyri í apríl. „Ég sé bara framtíðina bjarta í íþróttamál- um á Siglufirði. Það er loksins að verða við- snúningur hvað fólksfjölgun varðar en eftir henni erum við búin að bíða lengi. Það er heilmikil uppbygging í ferðaþjónustu og fjöl- breytnin í atvinnulífinu er að aukast þannig að mikið af ungu fólki snýr aftur. Krakkar, sem ég var að kenna fyrst eftir að ég kom hingað, eru nú að koma heim með börnin sín. Ég held því að óhætt sé að segja að bjart sé fram undan hjá okkur á Siglufirði. Við erum búin að fá Héðinsfjarðargöngin og Mennta- skólann á Tröllaskaga og mannlífið er gott,“ sagði Þórarinn Hannesson. Þórarinn Hannesson, frjálsíþróttaþjálfari hjá Ungmennafélaginu Glóa: Ég er stoltur af krökkunum Keppendur frá Ung- mennafélaginu Glóa á Siglufirði á Meist- aramóti Íslands 11–14 ára náðu frábærum árangri og komu heim með fern verðlaun, þrjú brons og eitt silfur. Mótið er ekki aðeins einstaklingskeppni heldur einnig stigakeppni milli félaga og varð Glói í 11. sæti af 20 félögum og héraðs- samböndum sem áttu keppendur á mótinu. Keppendur frá Glóa kepptu alls í 14 greinum og í níu þeirra höfnuðu þau meðal tíu efstu og komust á pall í fjórum þeirra. Ekki slæm tölfræði það. Björgvin Daði Sigurbergsson stóð sig sérstaklega vel á mótinu, keppti í sex greinum, vann til þriggja bronsverðlauna og bætti afrek sín í nokkrum greinum. Unnur Hrefna Elínardóttir kom skemmti- lega á óvart með því að kasta til silfur- verðlauna í kúluvarpi í flokki 11 ára stúlkna og Elín Helga náði best 6. sæti í kúluvarpi í sínum aldursflokki. Með tilkomu Menntaskólans á Tröllaskaga ætlum við að bæta við æfingum og koma þannig í meira mæli til móts við eldri iðkendur hjá okkur. Þórarinn Hannes- son, íþróttakennari við Grunnskóla Fjallabyggðar og frjálsíþróttaþjálf- ari hjá Ungmenna- félaginu Glóa.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.