Morgunblaðið - 19.03.2013, Síða 27
keypt sér varagloss á leiðinni og
setti hún hann á sig með reglulegu
millibili alla helgina og til að nýta
hann sem best kyssti hún okkur til
skiptis og sagði „2 fyrir 1“. Svona
var Björk, alltaf til í að gera að
gamni sínu og ekki að velta okkur
upp úr veikindum sínum heldur
bara hafa gaman.
Það var líka okkur hjónum mik-
ið tilhlökkunarefni ef við gátum
verið með Björk og Þresti í úti-
legum því þá vissi maður að það
yrði stanslaust fjör alla helgina.
En nú ertu orðin engill sjálf allt of
fljótt og er það sárara en nokkur
orð fá lýst, ég hugga mig við þá trú
að það hafi verið tekið vel á móti
þér þarna hinum megin af öllum
vinum og ættingjum sem eru farn-
ir.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Elsku Þröstur og fjölskylda.
Megi Guð blessa ykkur og styrkja
á þessum erfiðu tímum.
Fjóla Breiðfjörð Ægisdóttir
og fjölskylda.
Elsku Björk.
Fyrir hartnær fjórum áratug-
um lágu leiðir okkar saman, við
munum það báðar eins og gerst
hafi í gær og þér hefur aldrei
leiðst að minna mig á fyrstu kynn-
in vorið 1977. Samskipti okkar síð-
an hafa einkennst af væntum-
þykju, gleði og virðingu.
Veturinn 1977-78 bjuggu þið
Þröstur og Kristinn Andri á Þor-
finnsstöðum, meðan Þröstur
stundaði sjóinn og var dýrmætt að
fá að kynnast þér.
Má segja að ég hafi þá eignast
aðra systur. Ég held að fyrir þér
hafi þetta verið erfitt, stúlka úr
Vesturbænum komin vestur á
firði í einangrun þess tíma, meðan
kærastinn var löngum stundum
úti á sjó. En þá kom best í ljós
geðslag þitt; jákvæðni, bjartsýni,
kátína, hjálpsemi og dugnaður
sem einkenndi þig alla tíð. Þegar
þið Þröstur bjugguð á Flateyri
kom gæska þín enn betur í ljós. Þú
hugsaðir óskaplega vel um ömmu
og afa og þegar amma veiktist
varst þú við hlið hennar fram í
andlátið og eftir það hugsaðir þú
einstaklega vel um afa.
Mig langar til að þakka þér allt
sem þú gerðir fyrir mig og fjöl-
skyldu mína í orði og á borði öll
þessi ár. Það var sama hvaða við-
vik ég bað um, alltaf varst þú
reiðubúin að leysa öll mál og lið-
sinna mér og benda á jákvæðu
hliðarnar.
Ég heyri enn rödd þína og hlát-
ur, skynja hreyfingu þína og gleði
og ég ætla að halda fast í þær
minningar. Þú varst sannkölluð
Pollýana, sem alltaf sást ljósu og
spaugilegu hliðarnar á tilverunni.
Að því leyti kenndir þú mér margt
og reglulega kom ég í „endurhæf-
ingu“, því þegar langur tími leið á
milli þess sem við hittumst fann ég
hve gott var að hitta þig og muna
hve mikilvægt er að vera jákvæð-
ur og glaður. Ég á eftir að setjast
við mynd af þér, kveikja á kerti og
leita ráða hjá þér og veit að þú
kemur til með að hlusta.
Ég á eftir að sakna þess óum-
ræðanlega mikið að heyra þig
aldrei segja aftur við mig „Jæja,
Bauka mín, hvað segir þú gott?
Eða „Björgin mín“ eða „Nafna
mín“. Ég er bara alls ekki tilbúin
að kveðja þig, elsku Björkin mín.
Ég sá okkur fyrir mér gamlar og
lúnar rölta saman niður Lauga-
veginn, fá okkur kaffibolla og
kíkja í búðir eða fara með barna-
börnin í Húsdýragarðinn. Eða
taka á móti ykkur Þresti í Nes-
kaupstað og leyfa þér að þvo og
bóna bílana á heimilinu, eins og þú
gerðir gjarnan í heimsóknum þín-
um austur, því ekki gast þú setið
auðum höndum.
Ég kveð þig með orðum sem þú
sagðir gjarnan við mig: „Takk fyrir
að vera til“. Þó þú sért farin að
sinna öðrum störfum á öðrum til-
verustigum, með glaðværð þinni og
góðsemi, ert þú alltaf í hjarta mínu,
enda kenndir þú mér svo margt í líf-
inu og stóðst ávalt með mér.
Missir eiginmanns, barna og
barnabarna er þó mestur. Ég bið
góðan Guð að styðja og styrkja
Þröst, Kidda, Sollu, Dagnýju,
Gretar Þór, barnabörnin, systkini
þín og tengdamóður.
Far þú í friði, elsku nafna, ég
veit að þú tekur vel á móti mér
þegar minn tími kemur. Guð geymi
þig og hafðu þökk fyrir allt og allt.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Þín,
Björg.
Byr um gráð þig beri
bugþægur, flugnægur;
frói þér á flóa
fundur Ísagrundar.
Sjáðu land, er leiðir
ljós um bláa ósa
glöðust sól, og glæðir
Glámutind í vindum.
(Jónas Hallgrímsson)
Það er með söknuði og harm í
huga að þessar fátæklegu línur eru
settar á blað til minningar um
kæra vinkonu og vinnufélaga til
margra ára. Ekki hvarflaði það að
mér að það ætti fyrir mér að liggja
að standa yfir moldum Bjarkar
Kristinsdóttur. Það er heldur ekki
á mínu færi að rekja ævi Bjarkar,
en mig langar að minnast þeirra
stunda sem við urðum samferða.
Björk kom til starfa í Fyrir-
tækjapósthúsi Íslandspósts sumar-
ið 2001 og þar lágu leiðir okkar
Bjarkar saman þar til yfir lauk.
Það var gæfuskref að ég fékk
Björk til starfa með mér í Fyrir-
tækjapósthúsinu, en á þeim árum
gengum við hjá póstinum í gegnum
heilmikið rót og breytingar og fljót-
lega kom í ljós að Björk var einmitt
rétti aðilinn til að hafa sér við hlið í
því ölduróti.
Hún var dugnaðarforkur, ósér-
hlífin og kröfuhörð, stundum um of
að sumum fannst, en gerði alltaf
meiri kröfur á sjálfa sig en aðra.
Hún gat verð hvöss og stundum
óvægin, en þar undir var mikill öðl-
ingur og ef á bjátaði var hún fyrst
til að rétta fram hjálparhönd og öxl
til að gráta við.
Björk hafði yndi af ferðalögum
og útilegum og þar var hún hrókur
alls fagnaðar, en fyrir okkur Rúnu
voru það yndisstundir þegar þau
Þröstur gáfu sér tíma til að staldra
við í litla athvarfinu okkar fyrir
austan fjall sem var allt of sjaldan ,
kannski eru það þær stundir sem
okkur eru ljúfastar.
Það var því feikilegt áfall fyrir
mig og Rúnu þegar Björk sagði
mér, fyrir rúmu ári, að nú væri haf-
in glíma sem yrði erfiðari en flest
það sem áður hafði á dagana drifið
og var þó þar af ýmsu að taka.
Og þrátt fyrir æðruleysi Bjark-
ar og þrautseigju fór það svo að
glíman tapaðist, og nú eru bara
minningarnar eftir og þær eru góð-
ar.
Það væri ekki í anda Bjarkar að
dvelja við sorg og sút, en söknuður-
inn geymist í hjartanu.
Aðstandendum, þeim Þresti,
Kristni, Sólveigu og litlu ömmu-
börnunum, sendum við okkar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Far þú í friði Björk.
Hlýjan bústað býja
biðjum þér að liði
verða – þiggðu værðir
værar á grund kærri.
Elt svo hina! haltu
hugprúður til búða
Víkur – við þig leiki
völin á mölinni
(Jónas Hallgrímsson)
Þorgeir og Rúna.
Mikil hefur þörfin verið fyrir al-
vörugleði og engla utan mann-
heima, úr því að það þurfti að kalla
Björk til núna.
Það er mjög einkennileg tilfinn-
ing sem kemur yfir okkur vinkon-
urnar þegar við setjumst niður til
að festa á blað nokkur minning-
arorð fyrir hönd vinahópsins um
kæra vinkonu. Björk hefur kvatt
okkur öll, svo langt um aldur fram.
Okkur finnst það einkennilegur
tími, núna þegar ömmubörnunum
er að fjölga. Við höfum það fyrir
satt að eitt ömmubarnið hafi lýst
áhyggjum sínum af því „hvernig
afi ætti nú að geta passað fjögur
börn einn“! Það er von að barnið
spyrji, enda hefur Þröstur misst
mikið, kjölfestuna sína til nærri
fjörutíu ára.
Minningarnar sem við vinirnir
eigum um Björk eru allar á einn
veg, þær tengjast gleði. Því á það
við nú sem aldrei fyrr, það sem
segir í Spámanninum (K. Gibran):
„Þú grætur vegna þess sem var
gleði þín.“
Við vinahópurinn kynntumst
fyrst fyrir um fjörutíu árum þegar
við vorum öll við nám og störf í
Reykjavík, við áttum þá saman
dásamlega daga, höfðum nægan
tíma til að vera til og lífið var ljúft.
Eftir nokkra áratugi við barna-
uppeldi og annað „fullorðinslíf“,
búsett vítt og breitt, náðum við
sami hópur saman á ný, þá öll orð-
in ömmur og afar en ennþá ung í
anda og ekki árinu eldri en
sautján þegar við höfum undan-
farin sumur skellt okkur í Hólm-
inn á „Danska daga“, til þess m.a.
að rifja upp gamla takta. Þar var
Björkin okkar alltaf sú hressasta
og búin að undirbúa dagana á
ýmsan hátt, með fánum og öðru í
rauðu og hvítu, sem við skreyttum
híbýlin okkar með. Og að sjálf-
sögðu „blev der snakked dansk“.
Við upplifðum stundum að
Björk þyrfti heldur minna að sofa
en við hin í útilegunum, því þegar
við skriðum fram úr á morgnana
var hún gjarnan búin að þvo allt
upp, laga kaffi og framreiða morg-
unmat handa okkur hinum „ung-
lingunum“.
En þannig var Björk bara, um-
hyggjusöm og elskuleg, boðin og
búin að aðstoða alla í kringum sig.
Á göngu okkar um Hólminn heils-
aði Björk flestum sem við mætt-
um og ef maður spurði hver þetta
hefði verið vissi Björk það ekkert
endilega en „það mátti alltaf kynn-
ast fólki“, sagði hún.
Björk var greinilega mikil fjöl-
skyldukona og ófá símtölin átti
hún við börnin sín og systur á milli
atriða og umstangs á tjaldstæðinu
í Hólminum.
Það hefur stórt skarð verið
höggvið í okkar vinahóp við fráfall
Bjarkar, það skarð verður vart
fyllt og söknuðurinn er mikill.
Hugur okkar er þó hjá Þresti
vini okkar, Kristni, Sólveigu og
fjölskyldum þeirra á erfiðum tím-
um, missir ykkar er mikill og við
vonum að þið finnið frið. Kærleik-
ur og ljós veri með ykkur.
Nú er amma Björk komin til
hinna englanna sinna.
Fyrir hönd vinahópsins,
Anna Jóna, Sigrún Óladóttir
og María Kristjáns.
Elsku besta vinkonan okkur,
hún Björk, er látin langt um aldur
fram. Það var fyrir tæpum 30 ár-
um á Flateyri sem við hittum fyrst
vini okkar Björk og Þröst. Fyrsta
viðkynningin var upphaf að langri
og traustri vináttu sem við þökk-
um af alhug. Allir sem þekktu
Björk geta gert sér í hugarlund
hvernig þessi fyrstu kynni voru,
hún svo glettin og glaðleg að það
geislaði af henni.
Árin saman á Flateyri voru ljúf
og góð og fljót að líða, margt var
brallað og gleðin ávallt við völd,
börnin okkar, sem eru á svipuðum
aldri, tengdust vinarböndum og
samgangur var mikill, það hefur
alltaf verið gott að eiga þau að vin-
um.
Við hjónin eigum þeim og börn-
um þeirra margt að þakka, þau
treystu okkur meðal annars fyrir
því sem var þeim kærast, að gæta
barna sinna ef þau brugðu sér
bæjarleið, og var það bæði ljúft og
gaman.
Við Björk störfuðum sem sam-
herjar í hreppsnefnd Flateyrar-
hrepps í nokkur ár og treysti það
enn vináttuna. Það voru fleiri en
við sem nutu vináttu og tryggðar
frá okkar góðu Björk, hún var
vakin og sofin yfir velferð fjöl-
skyldu sinnar og vina. Eldra fólkið
á Flateyri naut þess sérstaklega
hversu heil og traust hún var, hún
taldi ekki eftir sér snúninga og
sendiferðir fyrir alla þá er aðstoð-
ar þörfnuðust.
Björk var heil og góð kona og
traustur vinur vina sinna. Það eru
margir sem sakna hennar.
Björk var alla tíð mikill gleði-
gjafi og smitandi með sinn hvella
og einlæga hlátur og kveðjan
hennar var alltaf þegar við hitt-
umst: „Sæll engill og þakka þér
fyrir að vera til.“ Þessi setning var
eitt af hennar einkennum og var
alltaf jafn gott og ljúft að heyra
það úr hennar munni.
Síðustu misserin hafa verið
Björk og hennar fjölskyldu erfið,
áföll og baráttan við sjúkdóminn
sem að lokum batt enda á líf henn-
ar. Björk átti mörgu ólokið, henn-
ar helsta og skemmtilegasta verk-
efni síðustu árin var að vera
samvistum við börn sín, tengda-
börn og barnabörn og gefa þeim
hlutdeild í góðmennsku sinni og
blíðu. Hún mun vaka yfir velferð
þeirra þótt úr öðrum heimi verði.
Björk var ekki ein á ferð, hún
átti Þröst sinn sem var hennar
stoð og stytta og blessuð börnin,
tengdabörnin og barnabörnin sem
veittu henni ómælda gleði og voru
stolt hennar og tilvera.
Við hjónin kveðjum í dag elsku-
lega vinkonu sem gaf okkur og
kenndi svo ótalmargt sem við
munum geyma í hjarta okkar og
ávallt minnast. Elsku Björk, takk
fyrir að vera til, þú verður það
ávallt í huga okkar og hjarta.
Elsku bestu vinir, Þröstur,
Kiddi, Dagný, Solla, Grétar og
fjölskyldan öll. Við sendum ykkur
okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur og vitum að minningin mun lifa
um góða konu sem verður alltaf
elskuð, aldrei gleymd.
Þinir vinir,
Ægir og Margrét.
Fallin er frá eftir erfið veikindi
kær vinkona okkar hjóna. Hún var
sannkallaður engill, alltaf á hrað-
ferð að hjálpa öllum og sérstak-
lega þeim sem minna máttu sín.
Leita réttar þeirra með sinni
röggsemi og hreinskilni og hætti
ekki fyrr en allt var komið á
hreint.
Hún var eins og vorboðinn þeg-
ar hún kom til Flateyrar, alltaf
kom hún við hjá okkur og fíflaðist í
Hjalla mínum. Þótt hann gæti
ekki svarað henni hafði hann gam-
an af þessum heimsóknum hennar
og við rifjuðum upp yndislegar
stundir sem við áttum á Kanarí
fyrir nokkrum árum með þeim
hjónum.
Elsku Björkin okkar, þökkum
allt það sem þú hefur gert og gefið
okkur í gegnum árin. Elsku fjöl-
skylda, megi Guð styrkja ykkur í
þessari sorg.
Guðbjörg K. Haraldsdóttir
og Hjálmar Sigurðsson.
Í dag kveðjum við Björk, okk-
ar góðu vinkonu. Það er þyngra
en tárum taki að setjast niður og
skrifa minningargrein um þessa
konu sem var okkur svo kær.
Fyrir rúmlega 30 árum kynnt-
umst við hjónin Björk þegar hún
og Þröstur fluttu í Ólafstúnið á
Flateyri með börnin sín tvö,
Kristin Andra og Sólveigu. Milli
okkar myndaðist djúp og góð vin-
átta og þar sem börnin okkar
voru á sama reki urðu vinaböndin
líklega enn sterkari en ella.
Björk lét sér ekkert óviðkom-
andi. Hún var tilbúin að hjálpa
hverjum sem var og hvenær sem
var. Hún hafði svo hlýjan per-
sónuleika og einstakan hlátur.
Óhætt er að segja að Björk
hafi sinnt fjölskyldu sinni ein-
staklega vel og fengum við að
kynnast því þegar móðir mín,
Þuríður, flutti í íbúð sína að Ás-
vallagötu 49 þar sem æskuheimili
Bjarkar stóð. Björk og Andrea
móðir hennar ásamt Reyni tví-
burabróður tóku mömmu eins og
hún væri þeirra eigin fjölskylda
og fyrir það verðum við ævinlega
þakklát.
Elsku Björk okkar, takk fyrir
allar útilegurnar, ferðinar í
Reykjanesið, brúðkaupin hjá
börnunum okkar og allar ógleym-
anlegu stundirnar sem við áttum
saman.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Elsku Þröstur, Kiddi, Solla og
fjölskylda, við sendum ykkur okk-
ar innilegustu samúðarkveðjur.
Minning Bjarkar lifir ávallt í
hjörtum okkar.
Böðvar og María.
Björk var einstök. Hún kom
sem hlýr stormsveipur inn í líf
okkar Ástu heitinnar og
barnanna er hún réð sig sem „au-
pair“ til okkar í Danmörku fyrir
tæpum 40 árum.
Hún varð strax sem ein af fjöl-
skyldunni. Það var samt ekki
auðvelt verkefni sem beið henn-
ar. Foreldrarnir bæði í krefjandi
störfum og í vaktavinnu og mikið
fatlað barn á heimilinu. Við þurft-
um þó engar áhyggjur að hafa.
Björk tók yfir. Hún var sterk og
skipulögð og leysti öll störf af sér-
stakri alúð og dugnaði og það sem
mest var um vert: börnin elskuðu
hana og þau fundu að það var
gagnkvæmt.
Björk var heimakær og með
lítinn áhuga á svokölluðu
skemmtanalífi. Hún var þó ekki
mikið fyrir kyrrsetu og eftir
komu hennar fjárfestum við í
svartri eðalskellinöðru og á þeim
fararskjóta þeysti þessi glæsilega
stúlka með ljósu krullurnar um
götur Árósa og nágrennis og ekki
laust við að ungu mennirnir sneru
sér við á gangstéttunum. Björk
var mikil handboltakona og fljót-
lega var hún farin að æfa og spila
með Hjortshøj-Egå Idrætsforen-
ing þar sem þessi íslenska val-
kyrja vakti athygli fyrir framúr-
skarandi leik og óverjandi skot í
markið.
Það var aldrei lognmolla í
kringum Björk, hún var uppá-
tækjasöm og kímnin aldrei langt
undan. Hún var hjartahlý, hrein-
skiptin og hreinskilin, talaði tæpi-
tungulaust og var hnyttin í til-
svörum.
Björk var tryggðatröll. Það
höfum við fundið í gegnum árin.
Hennar verður sárt saknað.
Við sendum fjölskyldu hennar
okkar hlýjustu samúðarkveðjur.
Megi minningin um góða mann-
eskju verða þeim styrkur í sorg-
inni.
Ástráður B. Hreiðarsson,
Arnar, Ásdís Jenna
og Þorsteinn Hreiðar.
Sagt er um suma að þeir fari
eins og stormsveipur um allt og
þannig minnumst við hennar
Bjarkar okkar. Við vissum alltaf
þegar Björk var mætt til vinnu
því hún var lífleg, hress og það
heyrðist vel í henni þegar hún
bauð góðan daginn hér í vinnslu-
sal Póstmiðstöðvarinnar.
Björk gekk glöð og ákveðin í
bragði til vinnu dag hvern og
smitaði út frá sér til okkar hinna
sem voru að mæta suma morgn-
ana ekki jafn glaðleg og kát, en þá
var hressandi að hitta hana. Ef
hún sá að maður var orðinn
þreyttur eða eitthvað leiður var
meðalið hennar að knúsa mann
og smella einum kossi á kinn.
Björk hóf vinnu hjá Pósti og
síma á Flateyri árið 1985 og starf-
aði þar við ýmis störf svo sem
ræstingu, bréfaútburð og af-
greiðslustörf fram til ársinns
1991. Eftir að Björk flutti til
Reykjavíkur hóf hún störf á eyðu-
blaðalager Pósts og síma og síðar
meir hjá eyðublaðalager Íslands-
pósts. Árið 2001 tók Björk að sér
fulltrúastarf í Fyrirtækjapóst-
húsi Póstmiðstöðvar og gegndi
því síðustu árin.
Björk var atorkusöm og gekk
rösklega til allra verka. Henni
þótti vænt um samstarfsfólk sitt
og því þótti vænt um hana. Alltaf
með góða skapið og umhyggju að
leiðarljósi og gafst ekki upp við að
leita bestu lausna í sínum verk-
um. Þegar nýir starfsmenn komu
til starfa í hennar deild tók hún
þá undir sinn væng og kenndi
þeim réttu handtökin. Henni var
annt um að sitt fólk ynni sín verk
vel og fljótt. Hennar handleiðsla
styrkti margan nýjan starfs-
manninn sem kom til starfa hvort
sem var til lengri eða skemmri
tíma.
Að biðja Björk um að taka að
sér verkefni sem þurfti að vinna
hratt og vel var auðvelt því maður
vissi að þá var verkefnið komið í
góðar hendur og það yrði klárað.
Björk sá t.d. um á hverju ári að
senda sumar- og jólagjafir til
allra starfsstöðva Póstsins um
land allt, nokkuð er hún gerði
með sínum daglegu störfum og
virkjaði þar samstarfsfólkið með
sér.
Skarð er höggvið í okkar hóp í
Póstmiðstöðinni og mikil eftirsjá
að góðum félaga.
Við vottum fjölskyldu Bjarkar
okkar dýpstu samúð og kveðjum
hana með miklum söknuði.
Fyrir hönd samstarfsfélaga
hjá Íslandspósti,
Kjartan Flosason.
Við kveðjum kæra samstarfs-
konu, hana Björk okkar, sem fall-
in er frá langt um aldur fram.
Hún var skemmtilega litríkur
persónuleiki og hrókur alls fagn-
aðar hvar sem hún kom. Alltaf
stutt í grín og glens og talaði hún
tæpitungulaust um hlutina. Það
var nú aldeilis ekki leiðinlegt að
vera með Björk hvort sem það
var í vinnunni, á árshátíðum,
haustferðum, þorrablótum, úti-
legum eða Tinu Turner-tónleik-
um í London.
Við erum svo heppin að Solla
dóttir hennar eða „Blíða mín“
eins og hún kallaði hana er í
deildinni okkar og fengum við
Björk því kannski aðeins oftar í
heimsókn en ella. Oft gall við í úti-
dyrunum: „Amma er komin, er
ekkert að gera hérna?“ Svo ark-
aði hún í bæinn með dásamlegu
krullurnar sínar, prakkarabrosið
á vör og smitandi hláturinn ómaði
um húsið.
Okkur langar að endingu að
kveðja hana Björk okkar með
hennar eigin orðum sem hún
sagði í hvert skipti sem hún
kvaddi okkur með knúsi og kossi:
„Guð geymi þig og takk fyrir að
vera til.“
Elsku Þröstur, Kiddi, Solla og
fjölskyldur, okkar innilegustu
samúðarkveðjur og megi Guð
styrkja ykkur öll.
Þínir vinir í launadeildinni,
Ásmundur, Valgerður,
Hrönn, Marín og Íris.
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. MARS 2013