Morgunblaðið - 22.03.2013, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 22.03.2013, Blaðsíða 27
27 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. MARS 2013 Útreiðartúr Vel hefur viðrað til útivistar á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga og útlit er fyrir að tilvalið verði að njóta náttúrunnar um helgina. Myndin var tekin við Rauðavatn. Kristinn Eitt sinn var ungur maður spurður: Hver er besti tveggja orða brandari sem þú þekkir? Svarið var svohljóðandi: „Við framsóknarmenn,“ að vísu úr barka Halldórs Ás- grímssonar. Gamansemi fram- sóknarmanna hefur löngum orðið íslenskri þjóð dýrkeypt. Fyrir kosningar árið 2003 bauð Framsóknarflokkurinn upp á 90% lán til húsnæðis- kaupa. 90% lán til kaupa á lít- illi íbúð er í sjálfu sér ekki hættulegt. Þetta toppuðu íslenskir bankar með 100% lánum, að vísu að litlu leyti á kostnað bankanna. Höfðingsskapurinn var á kostn- að Íbúðalánasjóðs, sem fjármagnaði bank- ana til þessara aðgerða. Þó var Kaupþing undanskilið, því sá banki ætlaði að ná markaðsyfirráðum á íbúðalánamarkaði. Lánveitingar hófust í eignabólu, þegar fasteignaverð hafði hækkað um 70% um- fram almennt verðlag. Afleiðingarnar urðu viðbótarhækkun um 60% ofan á fyrri hækkun. Þetta leiddi til risavaxinnar eignabólu sem sprakk árið 2007. Þetta var gert í boði framsóknarmanna, félagsmála- ráðherrans Árna Magnússonar og for- stjóra Íbúðalánasjóðs, Guðmundar Bjarna- sonar, fyrrverandi ráðherra. Allt var þetta gert utan laga og reglugerðaheimilda. Og þjóðin situr eftir með reikninginn, 80 millj- arða tap Íbúðalánasjóðs. Það er áhugavert að kynna sér hvernig þetta ferli fer af stað. Þarna fara misvitrir ráðamenn með annarra manna fé og nota það til að ná pólitískum markmiðum án þess að huga að afleiðingum. Hér getur að líta texta úr bréfi Íbúða- lánasjóðs til FME frá 2005, líklega ritað af Árna P. Árnasyni, hdl., lögfræðilegum ráðunauti forstjóra sjóðsins, en þá var ráðunauturinn í Framsóknarflokknum: „Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hef- ur um árabil verið ráðandi um lang- tímavaxtastig í landinu og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúða- bréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamynd- unar á markaði og gert sjóð- inn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmda- stjóra og óhugsandi út frá því hlutverki sem sjóðnum er að lögum falið.“ Skyldurnar eiga sér að vísu ekki lagastoð. Hér eru stórar játningar. Stjórnendur sjóðs- ins játa á sig að hafa möndlað með vexti á markaði, en slíkt er brot á 117. grein laga um verðbréfaviðskipti frá 2007. Hér varð fyndið kosningaloforð að harm- leik fyrir land og þjóð. Nú sitja kaupendur eftir með sínar íbúð- ir, sem hafa lækkað í verði eftir að eigna- bólan sprakk, og há lán. Allt í boði fram- sóknarmanna, sem telja eðlilegastan hlut í heimi og algerlega fyrirhafnarlausan, að lækka útlán án þess að það komi niður á öðrum, jú, með almennri skattahækkun um nokkur prósent í nokkur ár. Í hvert skipti sem framsóknarmenn tala um efnahagsmál, hvort heldur fjármál heimilanna eða þjóðarhag, er vá fyrir dyr- um. Með tillögum um almenna lækkun fasteignalána er lýðskrumið mikið og ein- hver borgar. Fyrstu fórnarlömb framsókn- armanna eru lífeyrisþegar. Og svo eru það skattborgarar. Loforð um skattahækkanir leiða til þess að skattadagurinn færist aft- ur. Er ekki nóg að vera skattborgari til 17. júní? Vilja menn framlengja tilvist skatt- borgarans til verslunarmannahelgar? Eftir Vilhjálm Bjarnason »Eitt sinn var ungur maður spurður: Hver er besti tveggja orða brandari sem þú þekkir? Svarið var svohljóðandi: „Við framsóknarmenn.“ Vilhjálmur Bjarnason Höfundur er frambjóðandi á lista Sjálfstæð- isflokksins í Suðvesturkjördæmi, Kraganum. Framsóknarmenn eru fyndnir á kostnað þjóðarinnar Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri heildarlöggjöf um dýra- velferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði samþykkt fyrir þinglok. Markmið laganna er að „stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hung- ur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt“ eins og segir í markmiðsgrein frum- varpsins. Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í at- vinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu. Gelding grísa og sumarbeit grasbíta Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagn- araðilum í meðförum málsins, var að frum- varpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þætt- inum „Borgen“ þar sem aðbúnaður á dönsk- um svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbít- ar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartímann, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tækni- fjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft. Skemmst er frá því að segja að atvinnu- veganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu í þessa veru. Nefndin leggst gegn lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð „beit á grónu landi á sumrin.“ Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé „við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé of- boðið“. Enn fremur verði ráð- herra skylt að setja nánari regl- ur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umferm- ingu, affermingu, hámarksflutn- ingstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir við aðhandsama dýr, vitja um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum. Tilkynningaskylda og nafnleynd Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barna- verndarlögum leggur nefndin til að sambæri- legt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heil- brigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siða- reglna um þagnarskyldu viðkomandi starfs- stétta. Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist. Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina. Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins við þau á að ein- kennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu. Eftir Ólínu Þorvarðardóttur »Ný sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórn- sýslu um dýravelferðina. Ólína Þorvarðardóttir Höfundur er alþingismaður og er framsögumaður atvinnuveganefndar um dýravelferð. Dýravelferð í siðvæddu samfélagi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.