Morgunblaðið - 30.08.2013, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 30.08.2013, Blaðsíða 46
46 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. ÁGÚST 2013 Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Fyrsta kvikmynd leikstjórans Benedikts Erlingssonar, Hross í oss, verður frumsýnd í dag hér á landi og í næsta mánuði á al- þjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastian á Spáni sem hefst 20. september nk. Þar verður hún í keppnisflokki tileinkuðum nýjum leikstjórum, keppir við 15 aðrar kvikmyndir um Kutxa-New Direc- tors-verðlaunin. Hrossum í oss hefur verið lýst sem grimmri sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum, að í henni fléttist saman ást, kynlíf, hross og dauði með skelfilegum afleiðingum og örlaga- sögur sagðar af fólki í sveit frá sjónarhóli hestsins. Ekkert er gaman án alvöru „Það er aldrei neitt gaman nema það sé svolítið grátt gaman. Gaman án alvöru er ekkert gaman og al- vara án gamans er hundleiðinleg,“ svarar Benedikt, spurður að því hvort flokka megi Hross í oss sem gamanmynd. „Ég myndi segja að þetta væri mjög skemmtileg og mjög dramatísk mynd eða mjög dramatísk gamanmynd, gaman- drama.“ – Dramedía? „Dramedía, já. Til forna eða á endurreisnartímanum höfðu menn bara eina skilgreiningu á því hvort hluturinn væri drama eða kómedía og réðst það af endinum. Það var í rauninni ekki stíllinn eða hvað það voru margir brand- arar eða trúðar í leikritinu heldur var það þannig að ef allir deyja í lokin þá er það drama en ef það eru farsæl endalok þá er það kómedía.“ – Við förum ekkert að ljóstra upp um það í þessu viðtali hvor endirinn á við um Hross í oss? „Nei, við skulum halda fólki æsi- spenntu.“ – Þú hefur sagt að myndin fjalli um ástir og örlög hrossa og manna, um hrossið í manninum og manninn í hrossinu. „Ég á voðalega erfitt með að gefa upp eða segja of mikið frá þessari mynd, ég bý til einhverja nýja og nýja skilgreiningu því mig langar að fólk komi að þessu með óskrifað blað í kollinum. En fyrir lesendur Morgunblaðsins, að þessu sinni, get ég uppljóstrað að í morg- un komst ég að því að þetta er kannski ástarsaga. Þetta er um ást milli manna og dýra, líka ást milli fólks og ég vona að þessi mynd andi af alls konar ást, til lands og þjóðar, náttúrunnar og alls þessa fólks sem er á Íslandi, af hvaða þjóðerni sem það er.“ Hestar eru eins og mótorhjól og bílar – Nú sér maður af stiklu mynd- arinnar að ástir hrossa koma einnig við sögu, í mjög svo grátbroslegu atriði þar sem Ingvar E. Sigurðs- son situr meri sem graðhestur fer upp á. „Já, sko, hesturinn er svolítið eins og mótorhjólið eða bíllinn, hann tengist ímynd manna og kvenna. Ef þú átt flottan hest þá finnst þér þú vera flottur sjálfur. Hesturinn bæði upphefur mann en um leið getur hann líka niðurlægt mann og það getur verið vafasamt að beisla náttúruna sér til upphafn- ingar, hún getur slegið mann.“ – Þetta er dálítið sérstök niður- læging, að lenda í því sem þessi til- tekna persóna lendir í, nokkuð sem hestamenn þekkja líklega einir manna? „Já, þetta er reyndar mjög þekkt innan hestamennskunnar, ég hef hitt menn sem hafa lent í þessu. Það hafa farið af þessu sögur og þetta byggist auðvitað á lítilli dæmisögu,“ segir Benedikt. Um tökur á umræddu atriði segir hann að aðeins hafi staðið til boða að taka það einu sinni, eins og gefur að skilja. „Við áttum bara eitt skot í byssunni, vorum með fimm mynda- vélar og það sem skipti öllu máli var að dýrin væru tilbúin og viljug. Þegar merin er tilbúin, lyktar rétt, þá getur eiginlega ekkert stoppað graddann ef hann hefur rétt sinn- islag og við þurftum bara skapgóð- an og djarfan hest, helst ungan, sem bæri ekki of mikla virðingu fyrir knapanum. Við fengum full- komna hesta í þetta sem höfðu ánægju af þátttökunni og fengu að endurtaka leikinn óáreitt strax eftir tökur,“ segir Benedikt kíminn. Ótrúlega mikil áhætta – Það hlýtur að vera erfitt að leikstýra hestum … „Hvaðan hefurðu það?“ – Ég bara get mér þess til að það sé erfitt að leikstýra fólki en öllu erfiðara að leikstýra bæði fólki og hestum. „Þetta var ótrúlega mikil áhætta, í öllu þessu ferli, og það gat allt gerst. Ég var með stóð, hesta og graðhesta og merar, eltingaleiki, dýr sem þurftu að bregðast við, togara og alls konar hluti og allt ut- andyra. Við vorum upp á náð veð- ursins og dýrsins og allra þessara afla sem stjórna lífi okkar. Það verður að segjast eins og er að ég eiginlega skil ekki í dag hvernig þetta gekk, það var einhver galdur. Einn stærsti galdurinn var að hafa Bergstein Björgúlfsson sér við hlið. Það er engin tilviljun að hann skuli vera kallaður Besti. Hann og kvik- myndatökuliðið allt, með ótrúlegri fórnfýsi og fagmennsku, gerði þetta mögulegt. Þessi mynd vona ég að verði einhver vitnisburður um þessa kraftaverkakynslóð íslenskra kvikmyndagerðarmanna sem orðin er hér til og getur lagt heiminn að fótum sér ef hún verður ekki skorin niður heima á hlaði um það bil sem hún er að leggja af stað. Þetta er nú ekki einfaldasta kvik- mynd sem maður getur gert sem byrjandi. Ég veit eiginlega ekki hvernig er hægt að toppa þetta,“ segir Benedikt. – Kom eitthvað óvænt upp á, var þetta á einhverjum tímapunkti hættulegt? „Já, allan tímann. Þetta var hættulegt og við gerðum miklar öryggisráðstafanir, við ætluðum ekki að skaða neinn hest enda elska allir hesta sem standa að þessu. Við vorum með dýralækna alltaf ef við vorum að vinna með hesta, til ör- yggis og sem fordæmi,“ segir Bene- dikt. Eftir á að hyggja hefði verið betra að hafa líka mannalækna á staðnum, lækna sem gætu sinnt mennskum leikurum ef eitthvað hefði komið upp á. Stærstu mistök Gibsons – Nú varstu að lóðsa Mel Gibson um Ísland á hestbaki fyrir nokkr- um árum og sagðir honum frá myndinni. Hann kallaði þetta hesta- klám. „Ég var að reyna að fá hann til að leika í myndinni, ég hélt að það gæti hjálpað mér við fjármögn- unina. Ég byrjaði aðeins að segja honum frá myndinni og gerði þau mistök að segja honum frá fyrstu sögunni, var ekkert kominn að hans hlutverki, hetjuhlutverki ferða- manns sem verður eftirlegukind í hestaferð, verður næstum því úti og bjargar sér með fornum ráðum. Þannig að hann stoppaði mig mjög fljótt og sagði: „Nei, þetta gengur ekki, þetta er hestaklám.“ En hann er náttúrlega svo kaþólskur, eins og dæmin sanna. Við getum bara sagt að Gibson hafi þarna gert sín stærstu mistök á ferlinum.“ Benedikt segist feginn því í dag að Gibson vildi ekki vera með og hann hafi þess í stað skrifað hlut- verkið fyrir kólumbískan vin sinn, Juan Camillo Roman Estrada. Guð hafi gripið í taumana þar. – Hyggstu gera fleiri kvikmynd- ir? „Ef þessi tekst og fólki líkar hún þá fæ ég kannski að gera það.“ Upp á náð veðurs og dýra komin  „Ég vona að þessi mynd andi af alls konar ást,“ segir leikstjórinn Benedikt Erlingsson um fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Hross í oss  Mjög dramatísk gamanmynd um hross og menn Niðurlæging Ingvar E. Sigurðsson í grátbroslegu atriði í fyrstu kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss. Benedikt Erl- ingsson er handritshöfundur og leikstjóri Hrossa í oss, Friðrik Þór Friðriksson er framleiðandi myndarinnar og meðframleiðandi Þjóðverj- inn Christoph Thoke. Í aðalhlutverkum eru, auk hrossanna Jarps, Skjóna og Yrju, þau Ingvar E. Sigurðsson, Steinn Ármann Magnússon, Char- lotte Böving, Kristbjörg Kjeld, Helgi Björnsson og Juan Camillo Roman Estrada. Kvikmyndataka var í höndum Bergsteins Björg- úlfssonar, Davíð Þór Jónsson samdi tónlist og Davíð Alexander Corno sá um klippingu mynd- arinnar. HELSTU AÐSTANDENDUR HROSSA Í OSS Hestar og hestamenn Leikstjórinn Benedikt Erlingsson er þaulvanur hestamaður. Silkimjúkir fætur Loksins fáanlegt aftur! Þökkum frábærar viðtökur Fæst í apótekum um land allt

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.