Morgunblaðið - 30.10.2013, Blaðsíða 40
40
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. OKTÓBER 2013
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Biðin eftir nýrri plötu frá hljómsveit-
inni Mammút er loks á enda. Fimm
ár eru síðan síðasta platan, Karkari,
kom út en hún naut mikillar vel-
gengi. Arnar Pétursson, hljómsveit-
armeðlimur í Mammút, segir að þau
hafi viljað gefa sér góðan tíma til
þess að vinna að plötunni sem ber
heitið Komdu til mín svarta systir.
„Þetta var vissulega langt ferli en
okkur fannst við hafa það gott efni í
höndunum að við vildum vanda vel
til verksins,“ segir Arnar. Athygli
vekur að tveir upptökustjórar eru að
plötunni. „Við vorum ekki að vinna
með tveimur á sama tíma heldur
skiptum við þessu upptökuferli í tvo
hluta. Við tókum upp grunnana að
öllum lögunum með Axeli „Flex“
Árnasyni og hinn hluti vinnunnar fór
fram undir stjórn Magnúsar Øder.
Þetta fyrirkomulag hentaði okkur
vel auk þess sem það er mjög gaman
að geta unnið með mörgum að svona
stóru verkefni.“
Arnar segir erfitt að lýsa hljóm-
inum á plötunni með afgerandi
hætti. „Ég held að það sé erfitt fyrir
hljómsveitina sjálfa að lýsa tónlist-
inni enda er hún búin að hlusta svo
ótal oft á lögin. Við erum því kannski
orðin ónæm fyrir því hvers konar
tónlist þetta er. Eins höfum við ekki
tekið ákveðna tónlistarstefnu en ef
við miðum við Karkara þá er þessi ef
til vill þyngri en líka létt og ljúf á
köflum. Hún er minna poppuð en
Karkari og sum lögin eru ekki jafn-
auðmelt. Það mætti í raun segja að
þessi plata sé á margan hátt þró-
aðri.“ Nafnið á plötunni er fengið úr
ljóði eftir Davíð Stefánsson. „Þetta
var eitthvað sem okkur fannst passa
vel við plötuna. Þetta er þó ekki vís-
un í neina texta á plötunni en fangar
engu að síður vel anda plötunnar.“
Íslenskar sveitir í fyrirrúmi
Það hefur verið í nógu að snúast
hjá Mammút undanfarin ár. „Við er-
um öll í námi eða vinnu og vinnum að
tónlistinni samhliða því. Síðustu ár
höfum við verið að spila mjög mikið,
farið í tvær langar reisur um Evrópu
og gefið út tvö stök lög. Nú erum við
að spila á sex tónleikum á Airwaves
hátíðinni og helgina þar á eftir höld-
um við til London og spilum á Ja Ja
Ja tónlistarhátíðinni. Svo þarf nátt-
úrulega að huga að útgáfutónleik-
um.“
Þetta er níunda árið sem Mammút
spilar á Airwaves en sjálfur segist
Arnar leggja áherslu á að sjá aðrar
íslenskar hljómsveitir spila á hátíð-
inni. „Ég reyni fyrst og fremst að sjá
íslensku hljómsveitirnar sem spila
kannski ekki svo oft. Þær eru oftast
líka í sínu besta formi á Airwaves.
Ég er kannski ekki alveg nógu dug-
legur að kynna mér erlendu hljóm-
sveitirnar.“ Aðspurður um sína
uppáhaldshljómsveit íslenska nefnir
Arnar Kæluna miklu. „Það er ein-
hver skemmtileg orka í kringum þá
hljómsveit en ég held þó að hún sé
ekki að spila á Airwaves þetta árið,“
segir Arnar.
Mammút mun spila í Norðurljósa-
sal Hörpu í kvöld kl. 22.30 og á laug-
ardaginn í Iðnó kl. 22.30.
Mammút Katarína Mogensen, Arnar Pétursson, Ása Dýradóttir, Alexandra
Baldursdóttir og Andri Bjartur Jakobsen skipa hljómsveitina.
Þungt, létt og ljúft
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Tónlist hljómsveitarinnar Hjaltalín
við kvikmyndina Days of Gray, eftir
bandaríska leikstjórann Ani Simon-
Kennedy, kom út á plötu nú í byrjun
október og hljómsveitin lék auk
þess undir myndinni á fumsýningu
hennar á Alþjóðlegri kvikmynda-
hátíð í Reykjavík, RIFF, 4. október
sl. Myndin er án tals og í henni er
sögð saga úr fjarlægri framtíð, af
ungum dreng sem hittir stúlku sem
lifir við mikla einangrun með fjöl-
skyldu sinni. Þau óttast hvort annað
í fyrstu en svo myndast milli þeirra
óvenjuleg vinátta.
Hjaltalín hefur ekki spreytt sig
áður á kvikmyndatónlist og tónlist
hljómsveitarinnar við myndina er að
mestu án söngs, aðeins sungið í
þremur lögum af fjórtán á plötunni
og hún hefst á lokalagi breiðskífu
hljómsveitarinnar Enter 4,
„Ethereal“, sem kom út í fyrra. En
hvort kom fyrst, kvikmyndin eða
tónlistin?
„Við fengum eiginlega fullunnið
klipp af myndinni til að vinna eftir.
Það átti eftir að vinna aðeins í smá-
atriðum en við vorum með alla
myndina þegar við byrjuðum að
vinna almennilega í tónlistinni,“ seg-
ir Viktor Orri Árnason, fiðluleikari
og einn liðsmanna Hjaltalín, sem
átti stóran þátt í gerð plötunnar,
lagasmíðum og útsetningum.
Nokkur aðalstef
-Nú er upphafslag plötunnar
lokalag Enter 4. Varð þessi tónlist
til á undan tónlistinni á Enter 4?
„Nei, hún er eiginlega beint fram-
hald, þetta er svolítið skemmtilegt
af því að síðasta lagið á Enter 4 var
samið á fyrsta deginum í lotunni
sem við tókum þegar við vorum að
semja fyrir kvikmyndina. Þá varð
þetta eitt af aðalstefjunum í mynd-
inni, það er sífellt verið að nota það í
mismunandi útsetningum,“ segir
Viktor. Aðalstefin séu þrjú eða fjög-
ur í tónlistinni og önnur bætist svo
við. Stefið úr „Ethereal“ sé hins
vegar eitt þeirra mest ríkjandi. „Ég
myndi segja að þetta væri nokkurn
veginn beint framhald af því hvern-
ig við unnum Enter 4,“ segir Viktor
um sköpunarferlið á bak við tónlist-
ina við Days of Gray. Áður hafi þeir
Högni verið vanir því að semja lög,
skrifa nótur fyrir þau og aðrir í
hljómsveitinni hafi svo komið að
þeim og samið sína hluta, tromm-
arinn trommukaflann o.s.frv. „En
þetta var svona ferli þar sem farið
var inn í hljóðverið og allir áttu jafn-
mikið í öllum lögunum,“ segir Vikt-
or um vinnubrögðin fyrir Enter 4 og
Days of Gray. Sem dæmi nefnir
hann að Högni hafi átt stefið í
„Ethereal“, hljómsveitin unnið út
frá því og búið til aðrar útfærslur.
Viktor leggur áherslu á að við
gerð þessara tveggja platna hafi
verið mikil og góð samvinna í Hjal-
talín, allir hafi lagt sitt af mörkum.
„Það er nýi krafturinn í Hjaltalín,
það er kannski einhver sem leiðir
hugmyndina en allir eru stórir þátt-
takendur,“ segir Viktor.
Vildu ekki trufla með orðum
-Það er lítið um söng á plöt-
unni …
„Jú, í myndinni sjálfri er enginn
söngur fyrr en eftir myndina og það
er ekkert tal í henni. Við vildum
ekki trufla gang myndarinnar með
orðum,“ segir Viktor.
-Voruð þið búin að æfa ykkur fyr-
ir kvikmyndatónleikana?
„Já, áður en við héldum þá vorum
við búin að spila fyrir fjölskyldur
okkar og nánustu vini, vorum búin
að fá smá æfingu og tilfinningu fyrir
því að spila við myndina.“
-Nú eruð þið að fara að spila á
Airwaves, hvað eruð þið búin að
spila oft á hátíðinni?
„Ég held við höfum spilað á
hverju ári frá árinu 2007,“ svarar
Viktor. Hjaltalín er því orðinn fast-
ur liður á hátíðardagskránni. „Við
munum taka mest af Enter 4 og svo
væri gaman að taka þessi nýju söng-
lög af kvikmyndaplötunni,“ segir
Viktor, spurður að því hvað verði á
efnisskránni hjá Hjaltalín á Airwa-
ves í ár. „Það er aðeins erfiðara að
velja af eldri plötunum okkar þann-
ig að það passi inn í nýju stemn-
inguna,“ bætir hann við.
Hjaltalín heldur fyrstu tónleika
sína á Iceland Airwaves í kvöld kl.
23 í Hafnarhúsi og þá næstu annað
kvöld í Silfurbergi í Hörpu kl. 22.20.
Nýr kraftur í Hjaltalín
Tónlistin við Days of Gray beint framhald af vinnunni við
Enter 4 Allir í hljómsveitinni eiga jafnmikið í lögunum
Kraftmikil Hljómsveitin Hjaltalín, frá vinstri: Guðmundur Óskar, Rebekka
B. Björnsdóttir, Hjörtur Ingvi Jóhannsson, Högni Egilsson, Sigríður Thorla-
cius, Viktor Orri Árnason og Axel Haraldsson.
Ljósmynd/Héðinn Eiríksson
Undiraldan nefnist tónleikaröð sem
haldin er í Hörpu í samstarfi við
verslunina 12 tóna og verður sér-
stök dagskrá tengd henni á tónlist-
arhátíðinni Iceland Airwaves sem
hefst í dag og stendur fram á
sunnudag. Tónleikar verða haldnir
á þremur stöðum í Hörpu, fyrir
framan 12 tóna á jarðhæð, á Kola-
brautinni á fjórðu hæð og á föstu-
degi og laugardegi verður leikið í
sérstökum Undiröldubáti við höfn-
ina hjá Hörpu. Aðgangur að þess-
um utandagskrártónleikum er
ókeypis og meðal þeirra sem koma
fram hljómsveitirnar Apparat Org-
an Quartet, Ghostigital, Singapore
Sling, Oyama, Grísalappalísa,
Muck, Mr.Silla og Hudson Wayne.
Morgunblaðið/Ómar
Undiralda Mr. Silla leikur í Hörpu.
Undiröldubátur við
Hörpu á Airwaves
Norræna húsið býður upp á utan-
dagskrártónleikasyrpuna Akústik
Airwaves á Iceland Airwaves frá
og með deginum í dag til laugar-
dags. Dagskráin fer fram í sal húss-
ins sem er sérhannaður fyrir leik
kammersveita og hentar því vel
fyrir órafmagnaða tónleika en tón-
leikar Akústik Airwaves verða að
mestu órafmagnaðir, eins og heitið
gefur til kynna. Eftirtaldar hljóm-
sveitir og tónlistarmenn koma fram
á þeim: Anatomy of Frank, Vigri,
Adda, Árstíðir, Grúska babúska,
Kjurr, Útidúr, Sumie, Shiny
Darkly, Halleluwah, Marius Ziska,
Oléna, Eivör og Bellstopp.
Grúskað Grúska babúska heldur tón-
leika í Norræna húsinu á morgun kl. 13.
Rafmagnslaust í
Norræna húsinu