Morgunblaðið - 03.12.2013, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 03.12.2013, Blaðsíða 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. DESEMBER 2013 Það er ekki auð- velt að kveðja föður sinn. Þegar ég fæddist varst þú læknirinn sem tók á móti mér, og í gegnum lífið vissi ég alltaf að þú myndir taka á móti mér og styðja mig hvernig sem þú gætir. Þó ég leit- aði kannski til þín sjaldnar en til- efni var til leyfði innsæi þitt og næmni þér að smokra inn ómet- anlegum stuðningi og ráðum, jafnvel ef við bara mættumst ör- stutt í eldhúsinu eða ganginum heima. Þú þurftir heldur ekki að hafa orð á hlutunum til að koma þeim til skila. Það var jafnvel hægt að læra mest af því að bara fylgjast með þér, eins og þeirri einlægu en látlausu virðingu sem þú sýndir hverri einustu manneskju sem þú hittir. En orðin einlægni og látleysi finnst mér einmitt eiga svo vel við margt sem þú gerðir. Ég man að þegar við fjöl- skyldan ferðuðumst um landið áður fyrr tókstu með þér lækn- istösku með nóg af búnaði til að „taka á móti litlu flugslysi“ eins og þú sagðir í gríni, en sú hæfni sem þú bjóst yfir til að lækna og huga að sálarlífi fólks var ekki síðri. Þótt ég kveðji þig með sorg er þakklæti mér líka ofarlega í huga. Þakklæti fyrir allar stund- irnar sem við áttum saman, sam- ræðurnar sem voru alltaf gefandi og óþrjótandi þolinmæðina og umhyggjuna við uppeldið. Þú gafst mikið af þér, og því er að þér mikill missir. Þótt þú sért núna dáinn lifir þú áfram í fjölskyldu þinni og áhrifum þínum á þá sem um- gengust þig. Hvíl í friði, elsku pabbi minn, þín verður saknað. TF3FX yfir og út. Karl Birkir Flosason. Þegar ég hugsa um pabba þá kemur upp þessi mynd í koll- inum mínum af honum þar sem hann er þungt hugsi en glottir grallaralega og skallinn alveg að springa. Hann var uppspretta mikillar visku sem hann miðlaði til annarra í hógværð og með virðingu, hann vissi allt og kunni allt. Kærleiki var það sem maður fann þegar maður mætti honum. Það var ákveðið augnaráð sem hann hafði þegar hann horfði á okkur systkinin og hana mömmu okkar, það var stolt, hamingja og ást sem maður sá þar. Sem barn á heimilinu fann ég hvernig um- hyggja pabba í garð mömmu var óendanleg og gagnkvæm. Snæ- dís sú elsta í systkinahópnum talaði um að hún mundi svo vel eftir því þegar hún var yngri það að mamma sat í sófanum og prjónaði meðan pabbi nuddaði fætur hennar og las úr biblíunni, því hennar hendur voru upp- teknar. Og Karl minntist á þegar þeir pabbi voru á leið út dag einn um vetur, það hafði lagst hrím á glugga bílanna, pabbi tók upp sköfu og hóf að skafa bíl mömmu, svo næst skóf hann sinn. Hann vissi að mamma átti erindi út skömmu seinna. Ég er nýlega byrjuð að gera mér grein fyrir því að þessi umhyggja er ekki sjálfgefin og sjálfsagður hlutur á heimilum. Þetta fannst mér eðlilegt, því þetta var eðli- legt og gott á okkar heimili. Úti- legur, gæsaveiðar, sprengjugerð, tálgunarhnífar, talstöðvar, hesta- ferðir, kaðlaklifur í stofunni og Flosi Karlsson ✝ Flosi Karlssonfæddist í Reykjavík 26. mars 1960. Hann lést 15. október 2013. Útför Flosa fór fram frá Háteigs- kirkju 29. október 2013. Hann var jarðsettur í Mos- fellskirkjugarði. svo margt fleira eru hlutir sem við höfum fengið í uppeldi okk- ar, við systkinin. Heima, þar áttu allir að leika sér. Þar máttu vera læti. Pabbi var útsjónar- samur maður, hann kunni ráð við öllu. Svo lengi sem að pabbi var nálægt, þá var allt í góðu. Ég er langyngst af okkur systkinunum, svo ég missti af stóru fjölskylduferðalögunum, ég fæ þó að hlæja með þeim að allri þeirri dellu og vitleysu sem var í gangi þar og líður því eins og ég hafi verið með á vissan hátt, en ég fékk öðruvísi tíma með pabba. Við pabbi vorum í hestamennskunni saman. Hann tók upp á því að sækja mig eftir ferðalag með Kór Öldutúnsskóla, á hesti alla leið niður í skóla, og var með minn hest í taumi svo ég hefði hest í bakaleiðinni. Pabbi keypti skútu, og henni var siglt. Við strekktum bönd og kaðla, svo við gætum setið fremst á bátnum og stýrt. Það var svaka flækja, en þetta virtist ekki vera neitt mál fyrir pabba. Við fórum líka út á haf og sváfum þar undir berum himni og töldum stjörnu- hröp, og út á haf var farið sama hvort sem það var skóli daginn eftir eða ekki. Pabbi var ekki bara pabbi minn, hann var hetjan mín, fyr- irmynd og besti vinur minn. Hann stóð með fólkinu sínu, hafði tröllatrú á börnunum sín- um, var með manni frá byrjun til enda, bjargaði lífum, hjálpaði fólki, gerði það sem gera þurfti, gaf öllum tíma, hann kenndi mér á lífið. Pabbi er fyrir mér eins og Esjan. Hann hefur alltaf verið þarna. Ég þakka pabba svo ótrú- lega mikið fyrir allt sem hann sagði og gerði með mér, og Guði fyrir þann tíma sem hann gaf mér með pabba. Að þér er mikill missir, elsku pabbi, ekki bara fyrir mig heldur fyrir svo ótrúlega marga aðra. Sakna þín. Þín dóttir, Bergey. „Það er svo mikilvægt fyrir börn að fá að spegla sig í for- eldrum sínum.“ Elsku pabbi, þessa setningu notaðir þú oft. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en nokkru seinna að þessi orð höfðu einkennt alla mína æsku og fullorðinsár. Þú varst uppspretta enda- lausra ævintýra og ég er viss um að markmið þeirra voru stærri en ævintýrin sjálf. Útilega fjöl- skyldunnar á eyðieyju í Breiða- firði var eitt slíkt. Lítil trilla ferj- aði okkur sex, þig og mömmu okkur systkinin sem þá vorum fjögur, út í eyjuna ásamt öllu okkar hafurtaski. Við bárum all- an farangur frá borði og svo sigldi trillan burt með kveðjunni „sjáumst eftir átta daga“ og við stóðum eftir með allan farang- urinn á endalausri þanghrúgu sem teygði sig langt yfir kletta og polla áður en sást glitta í grasbala þar sem slá mætti upp tjaldborg. Við klöngruðumst í sameiningu margar ferðir yfir þangbreiðuna með farangurinn, hér gilti ekkert annað en standa saman, ævintýrið var innan seil- ingar. Þú gafst þér tíma með mér, fórst með hvert og eitt okkar systkinanna í einkaútilegur. Þetta voru dýrmætar ferðir og ég man að ég hlakkaði til allan veturinn að komast í einkaútil- egu. Þegar við urðum eldri breyttust einkaútilegurnar í veiðiferðir. Ég gleymi aldrei minni fyrstu veiðiferð. Til að komast að skurðinum sem þú hafðir grafið þurftum við að fara yfir breiða á. Ég var of stutt í annan endann til að geta vaðið ána, enda bara níu ára, svo þú barst mig á bakinu. Áin beljaði undir fótum þínum og það var kalt og niðamyrkur, ég var samt ekki vitund hrædd því ég sat full- komlega örugg á bakinu á pabba, ekkert gat komið fyrir mig. Það voru ekki bara ævintýrin sem spegluðu þetta viðhorf þitt, þó að þau séu það sem auðveld- ast er að sjá. Þú varst svo óend- anlega stoltur af okkur öllum. Myndin sem ég sá í augum þín- um var alltaf sú að ég væri þér dýrmætust af öllu og þessa mynd sá ég líka þegar þú horfðir á systkini mín, mömmu og svo seinna barnabörnin. Þú varst yf- ir þig stoltur af öllu sem við gerðum og hvattir okkur áfram af einlægum áhuga. Þú varst án efa stoltasti „nemandinn“ á svið- inu þegar þú tókst við verðlaun- um í stærðfræðikeppni fyrir mína hönd. Ég var 13 ára og gat ekki komið á verðlaunaafhend- inguna því ég var að vinna í loðnu, þú varst ekkert minna stoltur af því. Ég var sjálf ekkert minna stolt af þér, þú varst ósigrandi, vissir allt og gast allt. Þú varst læknir af lífi og sál og það var ósköp venjulegt á okkar heimili að á stofuborðinu væri verið að sauma skrámu á barni nágrann- ans. En svo varstu líka uppfinn- ingamaður og ævintýramaður. Þú lagaðir bílinn, smíðaðir húsið og hafðir alltaf tíma fyrir hvern þann sem leitaði til þín og þurfti á þér að halda. Þegar ég spurði þig sem barn hvert þú værir að fara var svarið ávallt að þú værir að fara að bjarga heiminum, og þannig var það. Elsku pabbi, þú varst okkur öllum svo mikilvægur og það er svo sárt að kveðja þig, við áttum svo mikið eftir. Ég mun halda áfram að spegla mig í minningu þinni og þakklæti fyrir allt sem þú varst mér. Þín dóttir, Snædís. Elsku pabbi. Þú gafst mér svo margt og varst mér svo mikilvægur. Ég er orðin fullorðin, með eigið heimili, þriggja barna móðir og útlærð. Ég fékk að eiga þig í 29 ár, en ég er samt of ung til að missa þig. Börnin mín eru of ung til að missa afa sinn. Uppáhaldsafann. Það var svo margt sem mig langaði að gera með þér, plön sem ég hafði gert í huganum mínum, sem hafa nú skyndilega verið rifin frá mér. Eftir stend ég með minningarnar einar til að ylja mér við. Minningar um ótrú- legasta pabba sem sögur fara af. Pabba sem kenndi virðingu með væntumþykju, metnað með leik og ást með góðum samtölum. Þú gafst mér mikilvægasta vega- nestið út í lífið. Trúna á sjálfa mig. Í þínum huga gat ég allt. Ég minnist þess að á meðan þú varst í Noregi og ég var að klára doktorsritgerðina mína, reyndirðu að prenta út allar greinarnar mínar og ritgerðina í prentaranum á spítalanum. Prentarinn réð ekki við það og fraus, en allt þurftirðu að eiga útprentað til þess að þekkja mín skrif. Ekki reiknaðirðu með að skilja það, en lesa skyldirðu og eiga til að sýna öðrum og bera vitnisburð um gæði dóttur þinn- ar. Þú varst alltaf svo stoltur. Þú varst alltaf til staðar, tilbú- inn að hjálpa, ef þinnar hjálpar var þörf. Með þinni aðstoð kenndirðu mér sjálfstæði, aldrei hjálpaðirðu fyrr en útséð var um að ég kæmist lengra án þín. Þeg- ar þú hjálpaðir léstu það svo líta út eins og ég hefði séð um allt sjálf. Þannig lækkaðir þú mig ekki fyrir að stranda og þiggja hjálp, heldur gafstu mér styrk og trú á eigin getu. Undanfarna daga hafa margir rætt um ævintýramanninn Flosa. Drifkraftinn og fram- kvæmdagleðina. Þú varst stund- um lasinn og hafðir ekki alltaf þennan kraft, en þú hélst í for- vitnina og áhugann. Ég met mik- ils allar stundirnar sem ég ílengdist í heimsókn hjá ykkur mömmu á spjalli um alla heima og geima. Símtöl við þig sem byrjuðu á stuttri læknisfræði- legri spurningu enduðu oft í vangaveltum um miklahvell eða efnafræði heilans. Elsku pabbi, á þínum erfiðu tímum miðlaðir þú gleði, ást og brennandi áhuga. Við systkinin græddum svo mik- ið á því að eiga þig sem föður. Afinn Flosi færði stoltið í nýj- ar víddir. Engin barnabörn voru jafn frábær og þín. Engin gátu gert jafn ótrúlega hluti og engin jafn gáfuð. Genin voru augljós- lega þau bestu, þessi börn gátu bara ekkert að því gert að vera fyrsta flokks! Alltaf sástu það besta í öllum og tókst það fram við fyrsta tækifæri. Þú hélst áfram að gefa til minna barna það sem þú gafst mér. Sterka sjálfsmynd, hugrekki og trú á eigin getu. Þú varst mér góð fyr- irmynd í uppeldi. Elsku pabbi, þú kenndir mér að bera virðingu fyrir sjálfri mér og öðrum, að hafa metnað án metings og að elska án þess að krefjast. Því mun ég aldrei gleyma. Minn hugur fyllist sorg og hjartans gleði í senn, er leitar hann til þín því minningin er mín. Tár mín af gleði syngja um ævintýrin öll, sem færðir þú til mín. Ég mun sakna þín. Þín dóttir, Helga. Elsku pabbi. Mig langar að þakka þér fyrir það hvernig pabbi þú varst. Þú sást mig svo vel fyrir það hver ég var, þekktir mig betur en ég sjálf alveg frá því ég man eftir mér. Vissir hvernig mér leið með því einu að horfa á mig eða heyra mig tala, og vildir hjálpa ef eitthvað bját- aði á en samgleðjast ef ég var ánægð. Þegar ég var þriggja ára og tók út sjálfstæðisbaráttuna með stæl, þá sástu það sem þroska og þú varst stoltur af mér og tókst á vandanum með yfir- vegun og umhyggju. Þú varst uppátækjasamur, allt var mögulegt og það mátti alltaf reyna, skoða og spekúlera. Þú hélst svo vel í barnið í sjálfum þér og hafðir svo gaman af leikj- um, varst sjálfur söguhetjan Leifturtá sem í leiðinni var svo mikill grínkarakter. Við vorum einnig hetjur í ævintýrum þín- um, þó með öðrum nöfnum en okkar svo allir gætu tengt við karakterinn. Það var svo áberandi í öllu sem þú gerðir hvað við fjölskyld- an vorum þér dýrmæt. Þú sást til þess að við systkinin tileinkuðum okkur hvernig best væri að læra undir próf. Við lærðum líka hugsunarhátt sem hjálpaði okk- ur í lífinu: Að vera með opinn huga, rannsaka, njóta lífsins og aldrei hætta að leika sér. Við fengum að taka þátt í þínu lífi ut- an fjölskyldunnar, með þér sem lækni og geðlækni og náttúru- unnanda. Ég hafði svo gaman af dáleiðslu og öllum þeim skemmtilegu tilraunum sem við gerðum. Að fá að vera aðstoð- arlæknir eina nótt, þótt það hafi næstum liðið yfir mig. Fara á veiðar og í útilegur. Þú varst mér svo dýrmætur og ert mér það enn. Mér finnst svo sárt að fá aldrei aftur að tala við þig um heimspekilegar vangaveltur, rannsóknir á öllu mögulegu, lífið, tilfinningalífið og tilveruna. Við þá tilhugsun á ég erfitt með að anda og mér verður hugsað til þess hve gott það væri að hafa þig í svona aðstæðum. Ég lærði svo ótrúlega margt af þér sem verður með mér alla ævi. Þín dóttir, Aðalheiður (Heiða). ✝ AðalsteinnValdimarsson fæddist í Hval- látrum á Breiða- firði 29. mars 1938. Hann lést á líkn- ardeild Landspít- alans í Kópavogi 24. nóvember 2013. Foreldrar hans voru hjónin Fjóla Borgfjörð, f. 2 júlí 1911 í Reykjavík, d. 6. október 1985, og Valdimar Ólafsson, f. 20. febrúar 1906 í Hvallátrum, d. 28. maí 1939. Systkini Aðalsteins eru Ólína Jó- hanna Valdimarsdóttir, f. 14. febrúar 1930, Sigurjón Magnús Valdimarsson, f. 3. janúar 1932, Ásta Sigurdís Valdimarsdóttir, f. 25. maí 1933, Kristján Guð- mundur Valdimarsson, f. 31. ágúst 1934, d. 27. júlí 1961, Ólaf- ur Valdimar Valdimarsson, f. 28. september 1935, Anna Valdi- marsdóttir, f. 16. nóvember 1936, og Valgerður Ásmunds- dóttir, f. 8. ágúst 1944. Að- alsteinn ólst upp í Hvallátrum hjá hjónunum Jóhönnu Sesselju Friðriksdóttur, f. 6. október 1899, d. 30. júní 1989, og Jóni Daníelsyni, f. 25. mars 1904, d. 20. ágúst 1988. Fóstursystkini Aðalsteins eru; Björg Ólavía Sa- vage, f. 27. júní 1922, látin, Að- alsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson, f. 5. ágúst 1923, Ólína Jóhanna Jónsdóttir, f. 6. apríl 1933, Daní- el Jónsson, f. 2. desember 1934, látinn, María Theódóra Jóns- dóttir, f. 28. apríl 1938, Elín Ágústa Jónsdóttir, f. 7. júlí 1941, látin, og Valdimar Jónsson, f. 24. nóvember 1943. Aðalsteinn var kvæntur Guð- nýju Jónu Jónsdóttir, f. 13. des- ember 1939, þau skildu. Dóttir þeirra er Ásta Valdís Roth Að- alsteinsdóttir, f. 27. mars 1971, gift Andreas Rolf Roth, f. 16. október 1968, börn þeirra Ella Margret Roth, f. 11. sept- ember 2006, og Ian Arthur Roth, f. 16. febrúar 2009. Fóst- urdóttir Aðalsteins og Guðnýjar er Snædís Gíslín Heið- arsdóttir, f. 27. ágúst 1962, gift Ragnari Ólafi Guð- mundssyni, f. 4. mars 1959, börn þeirra eru Guðný Ösp Ragnarsdóttir, f. 17. mars 1983, Elín Björg Ragn- arsdóttir, f. 22. júlí 1989 og Guð- mundur Ragnarsson, f. 14. ágúst 1995. Aðalsteinn bjó í Búðardal í mörg ár með Auði Kristjáns- dóttur, f. 10. janúar 1948, sonur Auðar og stjúpsonur Aðalsteins er Jens Valdimarsson, f. 20. apr- íl 1971. Fyrir rúmun fjórum árum hitti Aðalsteinn æskuvinkonu sína Guðfinnu Vigfúsdóttur, f. 12. maí 1941, á ný og bjuggu þau saman þar til hann lést. Þegar Aðalsteinn var 16 ára flutti hann til Hafnarfjarðar og lærði skipasmíði hjá Bátalóni. Aðalsteinn vann sem sjómaður í nokkur ár en mestalla starfsævi sína vann hann við smíðar og meðal annars vann hann við að gera upp kirkjur. Aðalsteinn Valdimarsson var að- alhvatamaðurinn að stofnun Fé- lags áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar sem stofnað var 2006 á Reykhólum, hann var formaður þess fyrstu árin og vann hann við safnið meðan heilsan leyfði. Aðalsteinn hafði mikinn áhuga á heilbrigðu líf- erni, útivist, fjallgöngum og ís- lenskri náttúru. Útför Aðalsteins fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 3. desember 2013, kl. 13. Trútt mun Steina haga hönd himna reyna að bæta. Um æðri hleinar, önnur lönd, ennþá leynist glæta. Hann mun fáta ýmsu á, ærið státulegur. Hans mun bát og honum þá henta Látravegur. Þó í uppheim flýtir för frændi og svarabróðir, lentu við í Látravör og líttu á heimaslóðir. Jóhannes Geir Gíslason. Aðalsteinn Valdimarsson ✝ Þökkum auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og útför JÓNU HAFSTEINSDÓTTUR, Þrastarhöfða 24, Mosfellsbæ. Sérstakar þakkir fær starfsfólk dag- og hjúkrunardeildar fyrir einstaklinga með heila- bilun á Eir og starfsfólk Klörustofu á Hömrum, Mosfellsbæ, fyrir einstaka umönnun og hlýju. Kristján Tryggvason, Steinunn Sigurbjörnsdóttir, Steinunn L. Ólafsdóttir, Jeannot Tsirenge, Kristrún Kristjánsdóttir, Gunnar Fjalar Helgason, Hrannar B. Kristjánsson, Björg Eir Birgisdóttir, Thelma, Aron, Daníel, Oliver, Sara, Emelía, Alex og Gabríel. Að skrifa minningagrein Ekkert gjald er tekið fyrir birtingu minningagreina. Þær eru einnig birtar á www.mbl.is/minningar. Skilafrestur minningagreina er á hádegi tveimur virkum dögum fyrir útfarardag, en á föstudegi vegna greina til birtingar á mánudag og þriðjudag. Fjöldi greina í blaðinu á útfarardag ræðst af stærð blaðsins hverju sinni en leitast er við að birta allar greinar svo fljótt sem auðið er. Hámarkslengd minningagreina er 3.000 tölvuslög með bilum. Lengri greinar eru vistaðar á vefnum, þar sem þær eru öllum opnar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.