Morgunblaðið - 17.12.2013, Síða 17
FRÉTTIR 17Innlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. DESEMBER 2013
Halldór Gíslason arki-
tekt og prófessor í
hönnunarfræðum við
KunstHögskolen í Ósló
er látinn, 61 árs að aldri.
Hann lést 8. desember
eftir að hafa glímt við
krabbamein frá 2011.
Halldór lætur eftir sig
eiginkonu og þrjú börn.
Halldór fæddist í
Reykjavík 25. ágúst
1952. Foreldrar hans
voru Theodóra Thor-
oddsen bankaútibús-
stjóri og Gísli Hall-
dórsson leikari. Halldór
útskrifaðist með lokapróf í arkitektúr
1979 frá háskólanum í Portsmouth í
Englandi og stundaði nám í heim-
speki, listasögu og táknfræði við há-
skólann í Bologna á Ítalíu 1979-1980.
Hann nam heimspeki við Háskóla Ís-
lands 1980-1982. Halldór var sjálf-
stætt starfandi arkitekt í Reykjavík
til 1993 og stofnaði arkitekta-
vinnustofuna Glámu með félögum
sínum og rak hana allt þar til hann
flutti til Englands og starfaði sem
lektor í arkitektúr við Háskólann í
Portsmouth.
Halldór varð fyrsti deildarforseti
hönnunar- og arkitektúrdeildar
Listaháskóla Íslands árið 2001 en
hann hafði leitt undir-
búningsvinnu að stofn-
un hennar. Halldór
varð deildarforseti
hönnunardeildar Kuns-
högskolen í Ósló frá
2005 til 2010. Frá 2010
gegndi Halldór starfi
prófessors í hönn-
unarfræðum við sama
skóla, allt til dauða-
dags. Hann undirbjó og
mótaði með Sóleyju
Stefánsdóttur eig-
inkonu sinni uppbygg-
ingu hönnunarnáms á
háskólastigi í Mósam-
bík.
Saman skrifuðu Halldór og Sóley
ritið „Hönnun – auðlind til framtíðar“
en ritið greinir frá stöðu og þróun
hönnunar í nútímanum og bendir á
þá möguleika sem greinin býr yfir í
breyttum heimi einkum frá sjón-
arhóli sjálfbærni. Halldór var for-
maður Cirrus-samtakanna (samtök
hönnunarháskóla á Norður- og
Eystrasaltslöndunum) í sjö ár. Hann
var virkur í fjölda félagasamtaka,
m.a. Jöklarannsóknafélaginu og Bif-
reiðaíþróttaklúbbi Reykjavíkur.
Útför Halldórs fer fram frá Dóm-
kirkjunni fimmtudaginn 19. desem-
ber kl. 13.00.
Andlát
Halldór Gíslason
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Ég sat og var að velta því fyrir mér
hvort að ég gæti ekki gert eitthvað
til að hjálpa,“ segir Styrmir Barkar-
son, kennari í Reykjanesbæ, sem
hefur undanfarna daga staðið fyrir
söfnun til þess að gera jólasvein-
unum okkar kleift að gefa þeim
börnum, sem tilheyra fátækum fjöl-
skyldum, í skóinn.
Hann hefði hugsað mikið um hvað
hann gæti gert til að gera tilveru
þeirra sem eru í erfiðleikum eilítið
betri. „Og ég komst að því að þó að
ég gæti ekki gert allt, gæti ég þó
reynt að milda höggið, þannig að þó
að foreldrar barnanna væru að
glíma við fjárhagsvandræði og lífið
virtist vera grátt og erfitt, gætu þau
samt borið höfuðið hátt í skólanum,“
segir Styrmir.
Frábærar undirtektir
Fyrsta daginn sem Styrmir stóð
fyrir söfnuninni komu 15.000 krónur
í hús. „Það kom aðallega frá fólki
sem þekkir mig,“ segir Styrmir.
Hann varð mjög glaður við að sjá
það.
„Mér fannst ég hafa lagt það sem
ég gat af mörkum til samfélagsins,
og rauk beint í bæinn, keypti fimm
sett af pökkum og fór með þá í
Keflavíkurkirkju,“ segir Styrmir, en
kirkjan liðsinnir jólasveinunum í að
útdeila gjöfunum á rétta staði. „Svo
þegar ég kíkti aftur í heimabankann
minn daginn eftir hafði upphæðin tí-
faldast,“ segir Styrmir.
Styrmir áætlar að í heildina hafi
verið lagðar til 300.000 krónur í
söfnunina. Sú upphæð hefur meðal
annars dugað fyrir 79 pokum af
gjöfum, sem Styrmir hefur afhent
Keflavíkurkirkju. Í heildina eru það
um eitt þúsund litlar gjafir, og segir
Styrmir að hann hafi einnig fengið
gefins gjafir frá fólki auk peninga,
sem fari þá líka í söfnunina.
„Úr þessu gat ég útvegað gjafir í
skóinn, gjafir fyrir litlu jólin og líka
jólagjafir,“ segir Styrmir. „Það er
nefnilega mikið af börnum sem fá
engar jólagjafir, nema með aðstoð
okkar.“ Styrmir bætir við að sumar
af litlu gjöfunum verði þá hugsan-
lega jólagjafir. „Það er svo skemmti-
legt að fá að opna marga pakka, og
þó að það sé til dæmis bara litakrít
eða eitthvað smálegt, þá er það frá-
bær gjöf.“
Ekki bara gjafir í skóinn
Þar með er þó ekki öll sagan sögð,
því að söfnunin hefur einnig hjálpað
börnunum að koma með eitthvert
góðgæti þá daga sem frjálst nesti er
í skólanum. „Þetta er hlutur sem
okkur fullorðna fólkinu finnst ekkert
mál, en fyrir börnin er þetta stór-
mál,“ segir Styrmir.
Hann er þegar byrjaður að hugsa
næstu skref. „Allt frá því að ég var
barn hefur mér þótt fátt jólalegra en
mandarínur, en það hafa ekki allir
efni á þeim, þannig að ætli ég fari
ekki næst og reyni að útvega nokkra
kassa.“
Styrmir segir að nokkur fyrirtæki
hafi hjálpað til við söfnunina. Sam-
bíóin hafi til dæmis gefið bíómiða og
Forlagið hafi gefið kassa af bókum.
Þá hafi fleiri komið að málum, eins
og Penninn í Reykjanesbæ og Diplo
ehf. sem gaf þrjú hundruð gjafir í
söfnunina. „Það eru allir að hjálpast
að við þetta, það er það sem er svo
frábært.“
Enn hægt að taka þátt
„Ég er enn að safna fyrir jólagjöf-
um, þær skipta hundruðum sem
þarf,“ segir Styrmir og bætir við að
áhugasamir geti nálgast reiknings-
upplýsingar fyrir söfnunina á face-
book-síðu hans. Bókhaldið er opið,
svo að þeir velunnarar sem óska
geta fengið að sjá. „Ég tók það fram,
því að mér finnst það svo magnað að
fólk sem ég hef aldrei hitt á ævinni
treysti mér til þess að fara með pen-
ingana sína. Þannig að þetta er það
minnsta sem ég get gert á móti.“
– En getur þessi söfnun ekki talist
vera jólakraftaverk?
„Ég myndi ekki kalla þetta
kraftaverk, því að þetta er ekkert
yfirnáttúrulegt. Þetta er allt það
sem er svo mannlegt í okkur, að
hugsa um hvert annað. Þetta er því
falleg jólasaga um það hvað við er-
um öll yndisleg,“ segir Styrmir að
lokum.
Hlaupið undir bagga
með jólasveinunum
Um 300.000 krónur hafa safnast fyrir fátæk börn
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gefðu mér gott í skóinn Jólasveinarnir koma víða við á ferðum sínum.
Safnast hafa 300.000 kr. í Reykjanesbæ til að sveinarnir geti gefið öllum.
Fjölskipaður héraðsdómur hefur
komist að þeirri niðurstöðu að
Garðabæ beri að greiða eiganda
fasteignar í bænum 35 milljónir í
skaðabætur vegna skemmda á fast-
eigninni sem raktar eru til fram-
kvæmda bæjarins þar í grennd. Þá
var bænum gert að greiða rúmar
tvær milljónir króna í málskostnað.
Um er að ræða hús við Goðatún í
Garðabæ. Það var byggt árið 1955
á steyptri botnplötu og sökklum
sem ekki eru grundaðir niður á
klöpp, á þekktu mýrarsvæði í
Garðabæ. Í lok júní 2008 réðst
Garðabær í endurnýjun götunnar
Silfurtúns, sem liggur við Goðatún,
og var meðal annars grafið upp úr
götunni, lagnir endurnýjaðar og
komið fyrir gangstéttum. Var ráð-
ist í þessar framkvæmdir í kjölfar
lagningar nýs safnræsis í vest-
anverðu Silfurtúni.
Þrjár matsgerðir voru lagðar
fram og í þeirri sem dómendur
töldu grundvallargagn segir að við
framkvæmdirnar 2008 hafi tæplega
þriggja metra djúpur skurður verið
grafinn niður í mýrlendið um tíu
metra frá húsinu. Framkvæmdir
hafi óneitanlega haft áhrif á grunn-
vatnsstöðu næsta nágrennis og því
viðbúið að hús sem reist sé á sökkli,
sem flýtur á mýrlendi, taki að síga.
Dómurinn féllst á það með eig-
anda hússins að Garðabær hefði
ekki kannað ástand svæðisins nægi-
lega áður en ráðist var í fram-
kvæmdirnar. Upplýst og alkunna
hefði verið að hverfið væri byggt í
mýri og Garðabæ mátti því vera
ljóst að gæta þyrfti varúðar.
Garðabær greiði 35 milljónir í bætur
Skeifunni 10, Reykjavík
Hafnarstræti 91-93, Akureyri
Hafnarstræti 2, Ísafirði
Sími 540 2330
husgogn@penninn.is
www.penninn.isHúsgögn
DSW