Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.05.2014, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 4.5. 2014
Matur og drykkir
HAFRAGRAUTUR HLAUPARANS
1 b hafrar
3 b vatn
salt eftir smekk
lítil skyrdós
kanill, 1 tsk.
rúsínur, 1 hnefi
HAFRAGRAUTUR MEÐ MANGÓ
1 dl grófir hafrar
1 skeið hreint prótein (má sleppa)
60 g mangó (u.þ.b. 1⁄4 úr bolla)
1 tsk kanill
1 tsk múskat
½ tsk negull
vanilludropar
1½-2 dl vatn
Allt soðið í potti.
OFURGRAUTUR
1 b haframjöl
1 b mjólk (fjörmjólk, sojamjólk eða
önnur mjólk)
1 b vatn
smásjávarsalt
lítið eitt af fljótandi hunangi eða
agave-sírópi
SPARIGRAUTUR
1 b hafrar
2 b vatn
Soðið og fært yfir í skál.
Hálfur banani, saxaður
10 pekanhnetukjarnar
1-1½ msk hlynsíróp
SÚKKULAÐIGRAUTUR
50 g haframjöl
150 ml mjólk
5-6 dropar stevía
1 msk kakó
Á
Íslandi fór hafragrautur að tíðkast seint á 19. öld, þegar
innflutningur á höfrum til landsins jókst mikið, og var
hann mjög algengur morgunmatur alla 20. öld og er enn
þótt samkeppnin hafi harðnað, einkum við ýmsar tegundir
af morgunkorni.
Hafragrautur er ákaflega hollur matur sem getur hjálpað fólki að
léttast og bætt heilsu hjarta- og æðakerfis með því að lækka kólester-
ól. Hafragrautur inniheldur mikið af trefjum, en trefjar eru ekki melt-
ar eða frásogaðar heldur fara þær í gegnum meltingarkerfið og draga
í sig vökva. Þetta hefur þau áhrif að maður er saddur lengur og því
hentar hafragrautur mjög vel sem morgunmatur. Hafragrautur getur
líka minnkað líkurnar á sykursýki og bætt hjarta- og æðakerfi þar
sem hann er mjög hægmeltur og blóðsykurinn hækkar því hægt.
Gunnlaugur A. Júlíusson langhlaupari þarf eðli málsins samkvæmt
á mikilli orku að halda dags daglega og fyrir vikið kemur ekki á óvart
að hann skuli hafa alist upp á hafragraut frá blautu barnsbeini og
alltaf þótt hann ljómandi góður.
„Hafragrautur er fín undirstaða inn í daginn enda er engin máltíð
eins mikilvæg og morgunmaturinn. Það er ógnvekjandi tilhugsun að
sumir skuli hefja daginn á því að nærast á kaffi eða jafnvel engu,“
segir Gunnlaugur.
Hann kveðst hafa tekið mataræði sitt rækilega í gegn fyrir átta eða
níu árum þegar hann fór að leggja meira á skrokkinn gegnum lang-
hlaup. Í nokkur ár hljóp Gunnlaugur 5.000 kílómetra á ári, það er 15
kílómetra að meðaltali á dag, og meðan álagið var svo mikið kom ekk-
ert nema hafragrautur til greina í morgunmat.
Skyr, kanill og rúsínur
Eins og svo margir bætir Gunnlaugur hafragrautinn á ýmsan hátt.
Best þykir honum að hræra smáskyr saman við (sem í gamla daga
var kallað hræringur) og fá þannig góða blöndu af próteinum og kol-
vetnum. Þá bragðbætir hann grautinn gjarnan með rúsínum og kanil
og jafnvel grófum flögum sé þeim til að dreifa.
„Þessari uppskrift fylgdi ég í sex eða sjö ár og varð aldrei leiður á
henni. Hafði þess utan mjög gott af þessu. Ég man varla eftir að hafa
meiðst á þessum tíma, þrátt fyrir mikið álag, og hafragrauturinn
skiptir alveg örugglega máli í því sambandi.“
Þegar svona mikið er hlaupið er endurnýjunarþörf frumnanna í lík-
amanum að vonum mikil og því betur sem maður er nærður þeim
mun betur gengur sú endurnýjun fyrir sig. Í raun segir Gunnlaugur
einu gilda hvort álagið sé andlegt eða líkamlegt; góður hafragrautur
að morgni komi alltaf í góðar þarfir.
Fyrir þá sem aldrei hafa gætt sér á honum er hafragrautur oftast
gerður þannig að valsaðir hafrar (hafragrjón) eru settir út í vatn í
hlutföllunum 1:2 (1 bolli hafrar á móti 2 bollum af vatni), hitað að
suðu og grauturinn látinn sjóða við meðalhita í 1-2 mínútur en síðan
saltaður og tekinn af hitanum.
Morgunblaðið/Golli
HAFRAGRAUTURINN STENDUR FYRIR SÍNU
Árbítur meistarans
ÞRÁTT FYRIR AUKNA SAMKEPPNI FER ÞVÍ FJARRI AÐ GAMLI GÓÐI HAFRAGRAUTURINN SÉ HROKKINN FRAM AF
MORGUNVERÐARBORÐUM ÍSLENDINGA. SKYLDI ENGAN UNDRA, GRAUTURINN ER EKKI AÐEINS BRÁÐHOLLUR,
VANDFUNDIÐ ER BETRA ELDSNEYTI FYRIR DAGINN. ENDALAUST MÁ LÍKA BÆTA GÓÐGÆTI ÚT Á GRAUTINN.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Sem langhlaupari þarf Gunnlaugur A. Júlíusson að gæta vel að mataræð-
inu. Í hans huga jafnast fátt á við hafragraut. Hollur og góður í senn.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nokkrar
uppskriftir að
hafragraut