Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.11.2014, Blaðsíða 51
Margir eru hændir að hestum
og ekki óalgengt að fólk sem
leggur fyrir sig dýralækningar sé
með bakgrunn í hestamennsku.
Starfandi dýralæknar
Karlar Konur
1930 1940 1950 1960 1970 1980 1990 2000 2004
140
120
100
80
60
40
20
0
2014
0% 0% 11%
6%
16%
33%
40%
66%
5%
6%
Gæludýraeign er alltaf að
aukast í þéttbýli, sérstaklega
hefur hundum fjölgað.
Guðbjörg og Charlotta segja þetta ekk-
ert einsdæmi, þessi þróun sé alþjóðleg og
eigi raunar við um mun fleiri stéttir en
dýralækna. Erfitt sé að komast inn í
námið og stúlkur séu gjarnan með hærri
einkunnir en piltar á stúdentsprófi. Þegar
Charlotta hóf nám í dýralækningum í
Danmörku fyrir sautján árum voru aðeins
20 af 120 nemendum piltar.
Sumir tengja dýralækningar við lík-
amlegan styrk og auðvitað getur hann
komið sér vel, einkum þegar sinna þarf
stærri skepnum. Sá þáttur starfsins liggur
þó ekkert endilega betur fyrir körlum en
konum. „Starf dýralæknisins snýst miklu
frekar um lagni en styrk,“ upplýsir Guð-
björg.
Auka þarf hið akademíska líf
Fara þarf utan til að læra dýralækningar
og fyrir vikið er ekkert stúdentalíf kring-
um fagið hér heima. Charlotta segir vís-
indasamfélagið líka takmarkað. „Það er
aðallega Tilraunastöðin að Keldum og því
miður er vegið að henni,“ segir hún.
„Auka þarf þetta akademíska líf. Ungt
fólk, sem er að stíga sín fyrstu skref í
faginu, þarf að geta leitað til þeirra sem
eldri eru. Þetta er eitt af þeim verkefnum
sem félagið getur beitt sér fyrir.“
Dýralæknar vinna ekki bara að velferð
dýra. „Við erum einu læknarnir sem erum
menntaðir til að sinna bæði heilbrigði
manna og dýra,“ segir Guðbjörg en dýra-
læknar sjá meðal annars til þess að mat-
væli séu örugg til neyslu og koma í veg
fyrir að sjúkdómar í dýrum smitist yfir í
menn. Þetta má skilgreina sem eflingu
þjóðarhags enda gætu áföll af þessu tagi
kostað landbúnað og samfélagið allt gríð-
arlega fjármuni.
Guðbjörg og Charlotta benda á að
heilsa manna og dýra sé svo nátengd að
gjarnan sé talað um hana í einu lagi.
Þannig leggi heilbrigðisvísindi 21. aldar
mikla áherslu á samspil lýðheilsu manna,
hjarðheilsu dýra og umhverfis. Þær nefna
í þessu sambandi „One Health“, alþjóðlegt
átak sem ætlað er að stuðla að bættri
heilsu manna og dýra og betra umhverfi.
Ætlunin er að auka rannsóknir og sam-
vinnu milli samtaka lækna og dýralækna
um heim allan. „Þegar verkefnið verður
komið í gagnið mun það vernda og bjarga
milljónum lífa í nútíð og framtíð,“ segir á
heimasíðu „One Health“.
Hér hugsa menn greinilega stórt.
Charlotta nefnir sýklalyfjaónæmi sem
dæmi en það sé að verða stórt vandamál
á heimsvísu. „Menn þurfa að koma sér
saman um stefnu, kröfur til matvæla og
upplýsingagjöf til almennings. Í þessu
sambandi skipta matvælaeftirlit og fæðu-
öryggi mjög miklu máli og þar gegna
dýralæknar lykilhlutverki,“ segir hún.
Fjörutíu starfa í útlöndum
Athygli vekur að yfir fjörutíu íslenskir
dýralæknar starfa í útlöndum. Spurðar
hverju þetta sæti eru stöllurnar fljótar til
svars. „Að hluta til geta það verið launin.
Þau eru lægri hér en í samanburðarlönd-
unum. Svo dregur öflugt akademískt um-
hverfi líka að. Margir af þessum læknum
vilja örugglega starfa hér heima en hafa
það einfaldlega betra úti,“ segir Guðbjörg.
Á móti kemur að fjölmargir erlendir
dýralæknar starfa hér á landi, einkum
tímabundið í sláturhúsum landsins. „Þetta
eru einkum Austur-Evrópubúar og Spán-
verjar sem búa við mikið atvinnuleysi
heima fyrir og sætta sig þess vegna við
lægri laun“ segir Guðbjörg. „Vinnan í
sláturhúsunum er ekki sérlega vel borg-
uð.“
Komin er upp sú staða að erfitt er að
fá dýralækna til að sinna búfé einkum í
dreifðari byggðum landsins. Guðbjörg og
Charlotta segja þá vinnu bæði líkamlega
erfiðari en í þéttbýli og ekki eins fjöl-
skylduvæna. „Dýralæknar úti á landi
starfa gjarnan einir. Þeir geta verið kall-
aðir út á öllum tímum sólarhringsins og
jafnvel þurft að taka börnin með í fjósið
um miðja nótt. Það er líklega engin til-
viljun að börn dýralækna verða yfirleitt
ekki dýralæknar sjálf. Þau eru einfaldlega
búin að fá nóg,“ segir Charlotta brosandi.
Málsvarar málleysingjanna
Dýralæknar hlúa ekki aðeins að heilsu og
velferð dýra, þeir eru jafnframt málsvarar
þeirra. Hvort sem eiga í hlut villt dýr,
gæludýr eða búfénaður. Stutt er síðan ný
lög um velferð dýra voru samþykkt á Ís-
landi og segja Guðbjörg og Charlotta þau
með því besta sem þekkist í heiminum.
Nú má til dæmis ekki lengur gelda grísi
án deyfingar, svo sem frægt varð að en-
demum á sinni tíð. „Þetta eru sanngjörn
og góð lög,“ segir Guðbjörg, „en það var
barningur að koma þeim í gegn“.
Dýrahald er síst á undanhaldi í þétt-
býli, sérstaklega hefur hesta, hunda- og
kattaeign færst í aukana, að kanínunum
ógleymdum, en hundahald var sem kunn-
ugt er bannað í þéttbýli um tíma. Gælu-
dýrum hefur fjölgað jafnt og þétt hér á
landi á umliðnum árum og sama þróun á
við um flest önnur lönd.
Skuldbinding að vera með dýr
Tilfinning Guðbjargar og Charlottu er sú
að Íslendingar séu upp til hópa dýravinir
og fari vel með sínar skepnur. Auðvitað
verði alltaf til fólk sem ekki eigi að hafa
dýr, en taki þau eigi að síður að sér.
„Svo er líka til fólk sem meinar vel þeg-
ar það tekur að sér dýr en gerir sér
ekki grein fyrir því hvað það getur verið
mikil vinna. Það er skuldbinding að vera
með dýr, yfirleitt til lengri tíma. Þetta
ættu allir að hafa í huga áður en þeir fá
sér dýr,“ segir Guðbjörg.
Þær eru sammála um að slæm meðferð
dýra sé ekki stórt vandamál á Íslandi en
Charlotta bendir eigi að síður á að öll
ástæða sé til að hafa eftirlit með dýra-
velferð. Kenna og leiðbeina fólki eftir
þörfum hvernig annast á dýr og bera
virðingu fyrir þeim. „Samvistir við dýr
gefa okkur svo mikið. Dýrin veita okkur
ekki bara gleði, heldur geta þau líka
hæglega stuðlað að bættri líðan okkar og
heilsu og þannig sparað heilbrigðiskerfinu
peninga. Ekki veitir víst af.“
Morgunblaðið/Eggert
Morgunblaðið/Eggert
* Menn þurfa að koma sérsaman um stefnu, kröfur tilmatvæla og upplýsingagjöf til
almennings. Í þessu sambandi
skipta matvælaeftirlit og fæðu-
öryggi mjög miklu máli og þar
gegna dýralæknar lykilhlutverki.
30.11. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 51