Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.11.2014, Qupperneq 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30.11. 2014
Menning
Gatan sem vinnustofa Sigurðar ÁrnaSigurðssonar stendur við býr ekkiað neinum húsnúmerum. Samt er
til þess að gera auðvelt að finna hana. Okk-
ur skolar raunar í hlað á sama augnablik-
inu á þessum rigningarmorgni. Myndlistar-
maðurinn kumpánlegur með bókakassa
undir hendinni, nýkominn úr áritunarlotu
með félögum sínum, Einari Fali Ingólfssyni,
ljósmyndara, rithöfundi og blaðamanni, og
Þorsteini J. dagskrárgerðarmanni en í sam-
einingu hafa þeir sent frá sér bókina
Vatnsdalsá – Sagan og veiðimennirnir.
Það var Pétur Pétursson, leigutaki árinn-
ar, sem ámálgaði skrifin við þremenningana
fyrir fjórum árum en allir hafa þeir veitt
mikið í Vatnsdalsá og sýnt ánni og dalnum
mikinn áhuga. Hugmyndin féll í frjóa jörð
og byrjuðu félagarnir strax að viða að sér
efni. Í upphafi einblíndu þeir á söguna frá
árinu 1997, þegar Pétur kom að málum
ásamt frönskum félaga sínum, en þá var
tekin sú djarfa ákvörðun að veiddum laxi
skyldi sleppt aftur í ána. Vatnsdalsá var
fyrsta íslenska laxveiðiáin þar sem þetta
fyrirkomulag var gert að skyldu. „Þetta var
umdeilt fyrst og eflaust hefur einhverjum
liðið eins og verið væri að breyta spilaregl-
unum. Í dag eru hins vegar allir sáttir við
fyrirkomulagið enda sýna rannsóknir að
fiskurinn lifir þetta af,“ segir Sigurður
Árni.
Nauðsynlegt að sleppa
Hann segir veitt og sleppt-fyrirkomulagið
raunar hafa verið nauðsynlegt. Álagið á ís-
lenskar laxveiðiár sé alltaf að verða meira,
með flinkari veiðimönnum og betri búnaði.
„Staða íslenska laxastofnsins væri klárlega
verri í dag hefðu menn ekki tekið upp
þetta fyrirkomulag.“
Veitt og sleppt var útgangspunkturinn en
þegar þríeykið fór að skoða málið betur
kom í ljós að saga Vatnsdalsár er í senn
stór og spennandi og rekja má hana allt til
upphafs Íslandsbyggðar. Þannig bendir Sig-
urður Árni á að ekki minni kappi en land-
námsmaðurinn Ingimundur gamli hafi verið
drepinn vegna ágreinings um veiðirétt.
„Enn er deilt um það hvar við ána hann
fékk spjótið í sig,“ segir hann.
Félagarnir tóku fyrir vikið snemma
ákvörðun um að færa verkefnið út. „Þetta
vatt upp á sig og bókin varð sífellt þykk-
ari,“ segir Sigurður Árni sem er Pétri
leigutaka, sem jafnframt gefur bókina út,
þakklátur fyrir að gefa þeim algjörlega
frjálsar hendur og setja ekki á þá minnstu
tímapressu. „Þetta er meira en bara veiði-
bók. Þetta er sagan í stóru samhengi og
veiðimennirnir sem farið hafa þarna í gegn.
Ótrúlegir menn margir hverjir. Af þeim er
fjöldi frásagna í bókinni.“
Sigurður Árni segir samstarfið við Einar
Fal og Þorstein hafa gengið eins og í sögu
enda standi vinátta þeirra á gömlum merg.
„Við komum hver úr sinni áttinni og bæt-
um hver annan upp,“ segir hann en þess
má geta að samhliða bókarskrifunum hefur
Þorsteinn unnið að heimildarmynd um
Vatnsdalsá.
Veiddi mikið sem polli
Sigurður Árni er enginn nýgræðingur í
stangveiði. Hann óx úr grasi á Akureyri og
veiddi mikið sem polli með föður sínum,
einkum á Skagaheiðinni, í Kelduhverfi og
Öxarfirði, þar sem hann var seinna í sveit á
sumrin. „Þetta voru yndislegir tímar, öll
fjölskyldan fór saman og gisti í tjaldi.“
Sigurður Árni leit alltaf á stangveiðina
sem tómstundagaman en sumarið 2001 at-
vikaðist það svo að hann gerðist leið-
sögumaður. Fyrst í Litluá í Kelduhverfi en
síðan Vatnsdalsá, að beiðni téðs Péturs Pét-
urssonar. „Ég þekkti Pétur ekki neitt þeg-
ar hann hringdi í mig og bað mig að
„gæda“ nokkra Frakka,“ segir Sigurður
Árni sem bjó og starfaði í Frakklandi á
þessum tíma. Hann var heima í sumarleyfi
og sló til. Síðan hefur hann gert þetta ann-
að veifið, mest í Vatnsdalsá.
Þegar hér var komið sögu hafði Sigurður
Árni aldrei veitt í Vatnsdalsá. Það var ást
við fyrstu sýn. „Ætli það sé ekki fjölbreyti-
leikinn,“ svarar hann spurður hvað geri ána
svona merkilega. „Vatnsdalsá er allt frá
djúpum gljúfrum og erfiðum veiðistöðum
efst niður í þessar stóru lygnur. Og allt þar
á milli. Stærðin er mjög heppileg, það er
að segja vatnsmagnið. Vatnsdalsá er full-
komin fluguveiðiá. Og ekki spillir fallegur
dalurinn fyrir.“
Hann segir það skapa ánni ákveðna sér-
stöðu að þar sé að finna allar fimm teg-
undir ferskvatnsfiska á Íslandi, það er lax,
staðbundna og sjógengna bleikju og stað-
bundinn og sjógenginn urriða. „Það er mik-
ið ríkidæmi. Þarna eru stórkostlegir fiskar,“
segir Sigurður Árni en þess má geta að
ekki þarf að sleppa silungnum sem veiddur
er í ánni.
Náttúrurómantík
frekar en sköpun
Þekkt er að margir listamenn stunda
stangveiði. Fyrir sína parta tengir Sigurður
Árni það frekar náttúrurómantík en sköp-
uninni sem slíkri enda þótt veiði sé í eðli
sínu skapandi iðja. Veiðimaðurinn þarf sí-
fellt að bregðast við. „Ég er meiri náttúru-
unnandi en veiðimaður. Útivist hefur alltaf
heillað mig og er á endanum meira atriði
en veiðin. Þess vegna var ekkert mál fyrir
mig á sínum tíma að byrja að sleppa lax-
inum.“
Aðalatriðið í hans huga er að landa lax-
inum. „Það er einstakt að upplifa viðbrögð
fólks sem veiðir sinn fyrsta lax. Allt þarf
að ganga upp og laxinn í raun og veru að
gera mistök sjálfur til að hægt sé að landa
honum á flugu. Þessi glíma er engu lík.“
Hann segir ekki síður merkilegt að upp-
lifa með fólki þegar það sleppir laxinum
aftur og finnur hvernig hann endurheimtir
kraftinn þegar hann syndir út í hylinn.
„Maður gefur honum ákveðið líf.“
Sigurður Árni sækir ekki síst í veiðina og
útivistina til að hvíla hugann frá amstri
hversdagsins og hermt er að fátt jafnist á
við streymandi vatn í því sambandi. Hann
viðurkennir líka að hann fái margar af sín-
um bestu hugmyndum til listsköpunar á ár-
bakkanum. Ekki er hægt að útiloka að
vatnsniðurinn kalli það fram. „Ég er alltaf
með skissubókina með mér í veiðiferðum,“
segir hann.
Vatnslitamyndir af flugum
Og Sigurður Árni tengir með beinum hætti
við list sína í bókinni en hana prýðir fjöldi
vatnslitamynda sem hann hefur málað af
flugum. „Ég hafði leikið mér aðeins með að
gera ómögulegar flugur áður og okkur
fannst upplagt að ég gerði nokkrar myndir
af flugum sem þekktar eru í Vatnsdalnum í
stað ljósmynda. Þetta er persónulegri nálg-
un og gefur bókinni annan blæ.“
Spurður hvort áform séu um að sýna
þessar flugumyndir hristir Sigurður Árni
höfuðið. „Það er samt aldrei að vita nema
ég hafi sýningu í félagsheimilinu í Húna-
vatnssýslu síðar meir.“
Nema hvar?
Sigurður Árni Sigurðsson, t.v., með tveimur frönskum veiðimönnum við Vatnsdalsá, Gerard Bornet og Jean Deleplanque. Einu sinni brákaði Bornet
þessi, fyrir miðju, á sér ökklann í veiði en tók ekki í mál að hætta og sneri aftur á árbakkann eftir að hafa verið settur í gips. Það er með eftirminnilegri
augnablikum sem Sigurður Árni hefur upplifað í veiði þegar hann fylgdist með kappanum setja í risastóran lax og landa honum, hoppandi á öðrum fæti
með stöngina í annarri hendi og hækjuna í hinni. Jean Deleplanque var lögreglustjóri í París og notaði víst sömu aðferð við að þreyta laxa og pólitíkusa.
Morgunblaðið/Einar Falur
SÖGUR AF Á, FÓLKI OG FISKUM
Fullkomin fluguveiðiá
SIGURÐUR ÁRNI SIGURÐSSON, MYNDLISTAR-, ÚTIVISTAR- OG VEIÐIMAÐUR, SPARAR EKKI STÓRU ORÐIN ÞEGAR KEMUR AÐ VATNSDALSÁ ENDA HEFUR
HANN GERT HEILA BÓK UM ÞETTA DJÁSN Í NÁTTÚRU ÍSLANDS Í SAMSTARFI VIÐ FÉLAGA SÍNA EINAR FAL INGÓLFSSON OG ÞORSTEIN J.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Svört frances, eftir Sigurð Árna Sigurðsson.
Bókaormur, eftir Sigurð Árna Sigurðsson.