Fréttablaðið - 30.08.2014, Síða 42
FÓLK|HELGIN
K jötsúpa er uppáhaldsmaturinn minn og þegar ég fermdist vildi ég helst hafa kjötsúpu á borðum
en það þótti ekki nógu fínt,“ segir Árný
Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynn-
ingarfulltrúi Rangárþings eystra.
Árný er uppalin á Hvolsvelli þar sem
haldin er dýrindis kjöt súpuhátíð með
tilheyrandi húllumhæi í dag.
„Íbúarnir byrjuðu á að skreyta bæinn
og svo lagði lokkandi kjötsúpuilm um
allan bæ í gærkvöldi þegar bæjarbúar
buðu gestum heim í eldhús til að
smakka á eigin kjötsúpugaldri og bænd-
ur í sveitarfélaginu buðu í fyrsta sinn
upp á kjötsúpu við Seljalandsfoss.“
Kjötsúpuhátíðin er bæjarhátíð Rang-
árþings eystra og nú haldin í tíunda
sinn.
„Hátíðin varð til í kringum árlega kjötsúpuveislu
Sláturfélags Suðurlands sem rekur stærstu kjötvinnslu
landsins á Hvolsvelli. Við búum enda í miklu land-
búnaðarhéraði og kunnum að gera vel við okkur í mat
og drykk. Því má segja að einkenni okkur samheldni
íbúanna, ægifögur náttúran, landbúnaðurinn og kjötið
og krásirnar úr náttúrunni.“
Kjötsúpuveisla SS stendur frá klukkan 15.30 til 16.30
í dag.
„Flestir gestanna koma héðan úr nærsveitum en
líka er mikið um brottflutta Hvolhreppinga og aðra
gesti víðar að. Hvolsvöllur er í 100 kílómetra fjarlægð
frá Reykjavík og því skottúr að bruna austur til að eiga
skemmtilegan dag og ylja sér á góðri kjötsúpu,“ segir
Árný kát.
Margt verður til gamans gert á Kjötsúpu hátíðinni í
dag; Sirkus Íslands og Ávaxtakarfan skemmta yngstu
kynslóðinni, farið verður í Bubble-
bolta, keppt í hreppahreysti og Magni
Ásgeirsson stýrir vallasöng við brenn-
una, ásamt því að bjóða upp á barna-
ball með Á móti sól í Hvoli síðdegis
og stíga á svið með hljómsveitinni á
kjötsúpuballinu í kvöld.“
Árný segir upplagt að mæta á Hvols-
völl upp úr klukkan 13 því þá hefjist
dagskrá á Miðbæjartúni og í Sveita-
markaðsbröggunum.
„Dagskráin verður öll á sama stað
svo fólk leggur bílnum, skemmtir sér á
sama svæði og nýtur fegurðar Rangár-
vallasýslu sem geymir jökla, eldfjöll,
Þórsmörk og landsfræga fossa í næsta
nágrenni.“
Árný segir kjötsúpu móður sinnar þá
bestu í heimi. Hér er uppskrifin:
■ 1 kg súpukjöt frá SS (að sjálfsögðu)
■ ½ msk. salt
■ ¼-½ pakki súpujurtir
■ 1 ½ dl hrísgrjón
■ kartöflur
■ gulrætur
■ rófur
Setjið kjötið í pott og fyllið af vatni þannig að fljóti
vel yfir. Sjóðið í hálfa klukkustund. Setjið þá annað
hráefni í pottinn og sjóðið áfram í 30 til 45 mínútur,
eftir stærð kjötbitanna. Þykkið með grjónum eða
haframjöli, ef vill.
Skoðið dagskrá Kjötsúpuhátíðarinnar á Fa-
cebook.
KJÖTSÚPA Í HVOLI
HELGIN Um helgina leggur kjötsúpuilm um Rangárþing eystra þegar gestum
og gangandi verður boðið upp á gómsæta kjötsúpu á Hvolsvelli.
RANGÆINGUR Árný Lára mennt-
aði sig í Reykjavík og Danmörku en
segir dásamlegt að koma aftur heim
á Hvolsvöll. Hún mælir heilshugar
með búsetu í Rangárþingi eystra.
ÍSLENSK KJÖTSÚPA Sláturfélag Suðurlands býður gestum og gangandi upp á dýrindis
kjötsúpu á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli í dag.