Skessuhorn - 19.12.2008, Blaðsíða 50
50 MIÐVIKUDAGUR 17. DESEMBER
„Já, þú getur alveg komið og
spjallað. Við tökum þá kannski
rúnt hérna í plássinu. Ég hef nægan
tíma til að spjalla núna þegar að ég
er hættur að kenna,“ sagði Skúli
Hlíðkvist Jóhannsson kennari með
meiru í Búðardal, þegar blaðamaður
Skessuhorns var að skipuleggja ferð
vestur í Dali á dögunum. Svo hittist
þannig á að þennan dag gekk yfir
norðaustan hríðarhret, þannig að
það hafði ósköp lítið upp á sig að
vera að keyra um í Búðardal og fá
beint í æð þær lýsingar sem Skúli
býr yfir af sínu næsta nágrenni.
Þegar blaðamaður var kominn
að húsinu við Sunnubraut númer
14 var ekkert annað að gera að
smeygja sér þar inn og eiga notalegt
spjall yfir kaffibolla í drjúga stund.
Það liggur beint við fyrir Skúla
að staðfesta það við blaðamann
að hann sé fæddur og uppalinn í
Búðardal.
Fékk þá ansi gott „pú“
„Það er nú bara hérna beint af
augum út um eldhúsgluggann,
húsið sem ég fæddist í og ólst upp
til 12 ára aldurs hér í Búðardal.
Það er fallega gula húsið þarna
neðst niður við sjávarbakkann,
Sunnuhvoll. Ég fæddist í kvistinum
að sunnanverðu. Eftir að ég byrjaði
í kennslu fór ég að rifja upp örnefni
sem faðir minn hafði kennt mér
um Búðardal. Ég valdi svo einn
góðviðrisdag gjarnan að haustinu,
fór með nemendur í göngutúr um
þorpið og sagði þeim öll helstu
örnefni sem ég kunni um Búðardal,
fjallahringinn og umhverfið. Þegar
við nálguðumst Sunnuhvol þá benti
ég þeim á húsið og sagði að þetta
væri nú frægasta húsið í bænum.
„Og af hverju?“ spurðu þau. Það
er vegna þess að þarna fæddist ég,
sagði ég og þá kom ansi gott pú frá
þeim.“
Skúli segir að ennþá séu „skarfar“
eins og hann orðar það, sem minni
sig á þessa útivistardaga þegar rölt
var um þorpið og nágrennið. „Faðir
minn, Jóhann Bjarnason, var mikill
áhugamaður um örnefni. Hann var
að ota þessu að mér með örnefnin,
en ég hafði þá engan áhuga á því,
var á þeim aldri þegar maður hefur
meiri áhuga á öðru. Þess vegna
fór ég ekki að sinna örnefnunum
fyrr en seinna og aðallega eftir
að ég fór í kennsluna. Studdist þá
við örnefnaskrár sem pabbi hafði
gert.“
Óttaðist að drepast
úr seddu
Skúli segir að til sé skemmtileg
saga frá þeim tíma sem faðir hans var
á fullu í því að safna örnefnum. „Það
var sænskur sérfræðingur, Gösta
einhver, sem fékk peningastyrk í
gegnum einhverja norræna stofnun
til að safna örnefnum af slóðum
Laxdælu. Þekkt var að pabbi hafði
helgað sig þessu áhugamáli, þannig
að það bar vel í veiði fyrir þann
sænska að fá að njóta afraksturs af
vinnu pabba. Það fylgdi vitaskuld
þessu verkefni að sá sænski þurfti
að koma hingað til lands og kynnast
viðkomandi svæði sem hann hafði
verið að rannsaka, þótt það væri
bara að nafninu til í þessu tilfelli.
Þeir fóru saman, pabbi og Gösta,
í kynnisför í Laxárdalinn. Fólk var
eitthvað búið að frétta af þessu og
það var því eins og við manninn
mælt að á fyrsta bæ í dalnum beið
dekkað veisluborð, enda erlendur
gestur ekki á ferð á hverjum degi
og íslenskri gestrisni viðbrugðið,
sérstaklega til sveita. Kræsingunum
var otað að þeim sænska, sem átti
einskis von. Pabbi vissi hins vegar
alveg hvað klukkan sló og spjallaði
við gestgjafa allan tímann sem
stoppað var ásamt því að dreypa á
kaffinu.
Sama sagan endurtók sig á næsta
bæ, hlaðið kaffiborð og áfram var
brauðfötunum og kaffinu otað
að þeim sænska, sem hreint átti
ekki von á þessum konunglegu
móttökum, en þáði góðgerðirnar og
tók þátt í léttu spjalli með pabba við
heimilisfólkið. Eftir drykklangan
stans á bænum var komið á þann
þriðja um hádegisbil. Jú takk, það
beið þeirra steikt læri á borðum og
heilmikil matarveisla. Þá varð þeim
sænska ekki um sel, enda ekki vanist
slíku atlæti í sínum heimahögum í
Svíþjóð. Nú bar hann sig upp við
pabba með áhyggur sínar af því að
ef þetta héldi svona áfram þá yrði
hann líklega dauður úr „seddu“ um
miðjan dal. Hvað ætti eiginlega til
bragðs að taka til að forðast það?
Eitthvað borðaði sá sænski minna
af lærinu en hann hefði kosið,
eftir allt kaffibrauðið á bæjunum á
undan. En pabbi sá að nú yrði að
taka af skarið og til bragðs var að
hringja alltaf á undan sér og biðja
húsráðendur að hafa nú hemil á
gestrisninni og virða hinum sænska
það til vorkunnar að upp frá þessu
forbæði hann sér allar konunglegar
móttökur.“
Þegar flugvélin fórst
Skúli segir að í sambandi við sitt
sérstæða millinafn, Hlíðkvist, sé líka
lítil saga. Það sé þannig tilkomið að
þegar faðir hans var ungur maður,
hafi verið mikill menningarbragur
innan ungmennafélagsins Ólafs
Pá í Laxárdal. „Þá gáfu menn út
handskrifað blað, eða bók sem hét
Vetrarbrautin og var lesið upp úr
henni á ungmennafélagsfundum.
Menn skrifuðu í þetta blað, oftast
undir dulnefni og pabbi gerði það
undir dulnefninu Hlíðkvist. Það var
ástæðan fyrir því að við bræðurnir
fengum þetta millinafn en þegar
kom að skírn systur minnar hafnaði
presturinn nafninu, sagði að
Hlíðkvist væri karlmannsnafn, og
foreldrar mínir hlýddu, það var nú
þá.“
Aðspurður um minnisverða hluti
úr uppvextinum segir Skúli að
það standi algjörlega upp úr þegar
sjóflugvélin fórst. „Á þessum árum
var nokkuð um að hingað kæmu
sjóflugvélar með farþega og póst.
Þetta voru aðallega vélar af Katalínu
og Grumman gerð. Mig minnir að
það hafi verið Grumman sem kom
hingað 13. mars 1947. Það var
norðaustan kalsaveður, samt ekkert
slæmt vetrarveður. Vélinni gekk
erfiðlega að komast upp og það
fylgdust allir íbúar í þorpinu með
því hvernig vélinni reiddi af. Það var
í þriðju tilraun sem eitthvað gerðist
þegar vélin var að klifra og hún
skall í sjóinn hérna rétt við þorpið.
Þetta var hörmulegur atburður sem
líður engum úr minni sem var hér
á staðnum. Uppi varð fótur og fit
og mikil angist þegar reynt var að
bjarga fólkinu úr vélinni sem flaut
í skamma stund. Fjórir af átta sem í
henni voru fórust.“
Skúli segir að það hafi verið
frábært að alast upp í Búðardal,
hins vegar hafi á þessum tíma
verið mikil lægð í samfélaginu
atvinnulega. „Það var hreinlega
eins og það væri búið að ákveða
að Búðardalur myndi leggjast af
og íbúatalan í þorpinu var komin
niður í 70 manns á tímabili. Það
voru þó nokkuð margar fjölskyldur
sem fluttu héðan burtu, en sem
betur fer rættist úr þessu.“
Algjör rati í borginni
Skúli var 12 ára, næstyngstur
fjögurra systkina, þegar fjölskyldan
flutti í borgina. „Við eignuðumst
heimili vestur á Hringbraut 119, í
húsi Sambandsins, SÍS. Pabbi fékk
starf við húsvörslu í þessu húsi. Við
fengum litla íbúð á efstu hæð þess, en
þarna voru ýmis iðnaðarverkstæði
og skrifstofur. Það voru rosaleg
viðbrigði að koma í borgina. Ég var
eitthvað svo óskaplega ósjálfbjarga
fyrstu mánuðina að ég hlýt að hafa
verið hálf aumkunarverður. Ég var
svo mikill „rati“ í því að rata að ég
skammaðist mín oft fyrir það. En
svo lagaðist þetta.
Ég kunni ekki að meta það þá,
hugsaði ekkert út í það, en ég held
að það verði ekki annað sagt um
foreldra mína en þau hafi verið
hörkuduglegt fólk og algjörar
hetjur. Pabbi hafði verið gríðarlega
duglegur að afla sér menntunar á
sínum yngri árum, svo til eingöngu
með sjálfsnámi. Hann var af þeirri
kynslóð þegar það var mörgum
nautn að læra. Hann var mjög
góður málamaður, hafði ágæta
þekkingu á norðurlandamálunum
og ensku, auk þess að vera mikill
esperantisti.“
Ýtt inn í heim
fullorðinna
Skúli segir að svo hafi alvaran
komið til skjalanna og þá hafi sér
verið ýtt inn í heim fullorðinna á
svipstundu. „Alvarlegur atburður
átti sér stað þremur árum eftir að
við fluttum suður, þegar ég var
fimmtán ára. Við pabbi höfðum
verið að hita bón, ætluðum að fara
að bóna skrifstofurnar. Pabbi var
að fara að taka bónið þegar allt í
einu kviknaði í því. Logandi bónið
helltist framan á hann og í ofboði
mínu náði ég að hrinda honum
fram á snyrtinguna og í baðkarið
og tókst að slökkva eldinn. Þetta
varð hræðilegt sjokk og við mér
blasti sjón sem brenndi sig svo inn í
barnssálina að hún hefur búið með
mér síðan alla ævina. Sjúkrabíllinn,
eða réttara sagt lögreglubíllinn,
kom fljótlega og pabbi var fluttur
í skyndingu á slysavarðstofuna.
Honum var ekki hugað líf í fyrstu
og við vorum boðuð tvisvar sinnum
á sjúkrahúsið til að kveðja hann. En
það var seigt í þeim gamla og hann
hjarnaði við smám saman, en það
tók langan tíma að ná þeim bata
sem náðist.
Á þessum tíma hefði þurft að
vera til eitthvað sem kallað er
áfallahjálp, en var ekki einu sinni
til í orðabókum þá. Þetta er það
langversta sem ég hef lent í um
ævina. Næstu árin var pabbi að
drýgja tekjurnar við þýðingar og
kom tungumálakunnáttan sér þá
vel, og seinna fór hann að vinna hjá
Bréfaskóla SÍS. Þetta var líka mikið
efnahagslegt áfall fyrir fjölskylduna
og er samstaða foreldra minna
og þáttur mömmu í þessum
þrengingum sér kapítuli í mínu
minni.
Fyrstu árin á eftir þetta slys
urðum ég og bróðir minn að
fórna herberginu okkar í íbúðinni
fyrir húsverði sem ráðnir voru
tímabundið til að sinna eftirliti
í sambandshúsinu þar sem við
bjuggum. Þar á meðal var maður
sem var líka talsvert í þjónustu
Bakkusar. Sá maður hvarf og
meðan hans var leitað var herbergið
lokað. Okkur bræðrunum fannst
þetta ansi ónotalegt og skrítið að
herbergið hans sem átti að vera
herbergið okkar, væri lokað og læst.
Það liðu tvö eða þrjú ár þangað
til þessi horfni maður fannst þar
sem hann hafði borið beinin úti í
Vífilsstaðahrauni, en þá var fyrir
löngu búið að opna herbergið.“
Varla til betri skóli
„Ég nam í Gagnfræðaskóla
verknámsins. Þegar ég var að ganga
frá smíðisgrip, fallegu skrifborði
sem ég á enn, var ég að vandræðast
með forstykki á skúffurnar, hvar ég
fengi þau. Marteinn smíðakennari
sagði mér að fara í Víði til
Guðmundar blinda og reyna að fá
gefins afganga þar. „En reyndu að fá
fallegar mahóní spýtur,“ sagði hann
þegar ég fór. Þegar ég kom inn í
húsgagnagerðina Víði tók á móti
mér, hár, teinréttur maður með
dökk gleraugu, eins og sólgleraugu.
Ég sagði honum erindi mitt og hann
gekk rösklega með mig í eftirdragi
beint inn á verkstæðið, fór þar
öruggum skrefum í hávaðanum
á milli vélanna og gekk beint að
viðarstaflanum. Þegar hann stóð
Skúli Hlíðkvist Jóhannsson kennari í Búðardal tekur létta spretti á lífshlaupinu
Það voru rosaleg viðbrigði að koma í borgina
Skúli við eldhúsgluggann á Sunnubrautinni, við blasir bernskuheimilið Sunnuhvoll.
Það var hreinlega eins og
það væri búið að ákveða að
Búðardalur myndi leggjast af og
íbúatalan í þorpinu var komin
niður í 70 manns á tímabili. Það
voru þó nokkuð margar fjölskyldur
sem fluttu héðan burtu, en sem
betur fer rættist úr þessu.“