Skessuhorn


Skessuhorn - 19.11.2014, Blaðsíða 24

Skessuhorn - 19.11.2014, Blaðsíða 24
24 MIÐVIKUDAGUR 19. NÓVEMBER 2014 Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir næsta ár var nýverið tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Meðal forsenda fyrir áætluninni er að al- mennar þjónustugjaldskrár hækki samkvæmt áætluðum vísitölu- hækkunum um 3,4% um áramót- in. Bæjar ráð hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að yfirfara gjaldskrár Akraneskaupstaðar og þessi liður kann því að breytast fyr- ir síðari umræðu um fjárhagsáætl- un sem fram fer 9. desember nk. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir ráðstöfun 120 milljóna króna vegna ýmissa framkvæmda árið 2015. Meðal annars er um að ræða breyt- ingar á sambýlinu við Vesturgötu, gatnagerð á eldri götum bæjar- ins og húsfegrunarsjóð sem ætlað- ur er til uppbyggingar húsa í gamla miðbænum. Einnig er gert ráð fyrir greiðslu 128 milljóna vegna kaupa Akraneskaupstaðar á Dalbraut 6 sem ráðist var í fyrr á þessu ári. Þá er áætlað að varið verði 73 milljón- um vegna ýmissa framkvæmda við viðhald og rekstur gatna, göngu- stíga og opinna svæða og vegna skipulagsmála á Sementsreit árið 2015. Bæjarstjórn samþykkir sam- kvæmt frumvarpinu að ráðstafa tíu milljónum vegna reksturs íbúasam- býlis á Vesturgötu sem fyrirhugað er að taka í notkun árið 2015. Einn- ig að 3,8 milljónir fari til aukning- ar á stöðugildi talmeinfræðings úr 25% í 80% í leikskólum Akranes- kaupstaðar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að ráðstafa þrem- ur milljónum til stofnunar og starf- semi þróunarfélags um Grundar- tangasvæðið og tveimur milljón- um vegna vinnu starfshóps sem stofnaður var fyrr á árinu um Sem- entsreitinn. Ráðstafað verði tveim- ur milljónum króna vegna vinnu starfshóps um hafnarsvæðið og Breið sem einnig var stofnaður fyrr á þessu ári. Þá verði 64 milljónum króna varið til almenns viðhalds og húsumsjónar í eignasjóði og fast- eignafélagi Akraneskaupstaðar á árinu 2015. þá Sunnudaginn 9. nóvember síðaslið- inn var Lárus Ástmar Hannesson frá hestamannafélaginu Snæfellingi kjörinn nýr formaður Landssam- bands hestamannafélaga (LH) á aukalandsþingi LH sem haldið var í Reykjavík. Nú bar svo til að tveir hestamenn af Vesturlandi kepptu í kjöri um formannssæti LH. Lár- us hafði betur gegn Stefáni Ár- mannsyni frá Skipanesi í Hvalfjarð- arsveit sem er í Hestamannafélag- inu Dreyra. Hlaut Lárus 88 atkvæði en Stefán 62. Fjórir atkvæðaseðlar voru auðir. Kristinn Hugason sem hafði verið þriðji maður um hituna dró framboð sitt til baka áður en þingfulltrúar gengu til kosninga. „Ég tilkynnti ekki framboð mitt fyrr en að morgni fimmtudags- ins fyrir aukalandsþingið. Krist- inn Hugason hafði boðið sig fram fyrst og síðan Stefán Ármannsson. Ég var svo síðastur til að bjóða mig fram. Það var búið að leita til mín af ýmsum. Ég hafði bara beðið eft- ir að sjá hvað kæmi upp úr höttun- um varðandi þetta áður en ég sló til,“ segir Lárus Ástmar þar sem við hittum hann í heimabænum Stykk- ishólmi aðeins fimm dögum eftir formannskjörið. Í hestum frá barnæsku Lárus Ástmar starfar daglega sem kennari við grunnskólann í Stykk- ishólmi. Hann sest í formannssæti LH með umtalsverða reynslu í far- teskinu, bæði innan hestamennsku og félagsmála. Lárus hefur um ára- bil setið í bæjarstjórn Stykkishólms sem oddviti L-lista félagshyggju- fólks. Listinn hafði meirihluta í bænum kjörtímabilið 2010-2014. Síðustu mánuði fyrir sveitarstjórn- arkosningarnar í vor gegndi Lárus auk þess stöðu bæjarstjóra Stykkis- hólms. „Ég fæddist nú ekki inn í hesta- menninguna. Sem lítill polli var ég þó strax mjög áhugasamur um hesta. Suðaði í foreldrum mínum þar til ég fékk minn fyrsta hest. Þá var ég tíu eða ellefu ára. Tveimur árum síðar var ég farinn að ríða út á fullu. Áhuginn var mjög mikill. Ég dvaldi við hestamennsku í Þýska- landi, fór í Bændaskólann á Hól- um í Hjaltadal 1982-1984 til að læra meira um almennan búskap, hestamennsku og tamningar. Ég hef stundað hestamennsku alla tíð. Ferill minn í hestamennskunni nær yfir breitt svið þannig að ég þekki víða til af eigin reynslu. Ég hef starfað sem dómari, ræktandi, fjöl- skylda mín stundar hestamennsku, við ferðumst á hestum og ég keppi aðeins. Árið 1978 fór ég tólf ára á mitt fyrsta landsmót sem haldið var á Þingvöllum. Ég hef verið á þeim öllum síðan. Kannski má segja að ég komi úr öllum áttum nema því að selja búnað til hestamennskunn- ar,“ segir Lárus. Áframhaldandi deilur til tjóns Í hestamennskunni hefur hann heldur ekki farið varhluta af félags- málastörfum . „Ég hef verið í stjórn hestamannafélagsins Snæfellings og meðal annars formaður í fjögur ár. Nú er ég í varastjórn. Síðan hef ég starfað mikið í Gæðingadóm- arafélagi Íslands og verið formaður þar. Eins og staðan er nú þá er ég starfandi formaður fræðslunefndar Gæðingadómarafélagsins. Nú þeg- ar ég hef verið kjörinn formaður Landssambands hestamannafélaga mun ég draga mig út úr því.“ Formannsskiptin koma í kjölfar mikilla átaka innan LH meðal ann- ars vegna deilna um staðsetningu landsmóts sumarið 2016. Fyrir lágu ákvarðanir um að halda næsta landsmót 2016 í Skagafirði. Fyrri stjórn sleit þeirri ákvörðun og tók þá stefnu að halda mótið í Kópa- vogi. Þetta varð mjög umdeilt. Upp úr sauð svo eftir var tek- ið í október þegar fyrrverandi for- maður og gervöll stjórnin gekk frá borði og sagði af sér eftir ásakan- ir um óheilindi. Þess vegna varð að ganga til stjórnarkjörs á aukalands- þingi og Lárus orðinn formaður. Lárus gengur ekki gruflandi að því að hans bíði miklar áskoranir við að leysa erfiða hnúta. „Ég held að hestamenn átti sig á því að þessar deilur geti ekki annað en farið illa með okkur sem heild ef þær haldi svona áfram,“ segir hann. Telur að finna megi lausnir Aðspurður að því hvort hann líti svo á að hann hafi verið kjörinn formað- ur til að gegna hlutverki eins konar sáttasemjara svarar hann: „Vonandi gagnast mér að koma frá landssvæði sem hefur ekki sóst eftir því að fá að halda landsmót og þannig að mestu staðið utan við þessar deilur. Við megum ekki eyða of mikilli orku í að karpa um svona hluti. Þetta bitn- ar svo á öllu öðru félagsstarfi. Fólk missir fókusinn á það. Ég hef ver- ið að skoða þessi mál mjög vel síð- an ég var kjörinn formaður. Þau munu leysast ef menn hefja sig upp úr þessum förum sem þeir eru í sem eru að hugsa fyrst og fremst um sín svæði. Menn þurfa að vera reiðu- búnir að hliðra til og breyta með hagsmuni allrar greinarinnar sem heildar að leiðarljósi. Ef við náum þessu þá held ég að það verði ekkert mjög flókið að leysa úr þessu.“ Lárus bendir á að þegar liggi fyr- ir ákveðin atriði sem vinna megi út frá. „Landsþingssamþykkt er fyrir því að fara aftur í viðræður við fé- lagið Gullhyl sem sér um mótshald á Vindheimamelum í Skagafirði. Jafnframt á að efna til ráðstefnu um landsmótin sem er önnur umræða aðskilin frá hinu,“ segir hann. Megum ekki gleyma hefðinni og sögunni Lárus dregur þó enga dul á að deil- an sé flókin þar sem margir hags- munir og hefðir takast á. „Það þarf að taka tillit til ýmissa þátta. Menn verða líka að skilgreina hvað þeir vilja með landsmótin í framtíðinni. Að mínu mati eru kröfurnar orðn- ar miklar. Við þurfum að staldra við og hugsa á hverju við viljum byggja, hvert skuli stefna. Ég hugsa oft til þess að þýskir vinir mínir sem voru mjög snemma með íslenska hesta byrjuðu ekki síst með þá vegna þess að íslenski hestamaðurinn var svo skemmtilegur. Það var frelsi, söng- ur og einfaldlega gaman. Við höfum pínulítið gleymt og fjarlægst þetta. Erum farin að taka okkur of alvar- lega. Þetta snýst orðið of mikið um keppni.“ Hann segist þó hafa fullan skilning á að landsmótin og hestamennskan verði að taka mið af fjármálum og rekstri. „Það er jú búið að fjárfesta gríðarlega í þessari grein. Því er eðlilegt að fólk vilji sjá að þetta reki sig. Þó er engum hagur í því að gera þetta þannig að það verði svo óaðl- aðandi að það dragi stórlega úr að- sókn fólks á landsmótin. Við þurf- um að hafa léttara yfir þessu aftur. Forsendan til að svo megi verða er auðvitað að leysa þessar deilur sem nú eru uppi. Við verum auðvitað að taka tillit til allra faglegra þátta en jafnframt verðum við líka að vera meðvituð um hefðina og söguna. Við megum ekki missa sjónar af því að búa til skemmtileg mót sem eru aðlaðandi fyrir fólk til að koma á. Við þurfum að fá tíu til fimm- tán þúsund manns á landsmótin. Þá verður þetta fínt.“ Tækifæri felast í mis- munandi umhverfi Lárus segir að deilurnar um stað- setningu landsmótsins séu öðrum þræði ákveðin togstreita milli þess að halda mótin úti á landi eða í þétt- býli á höfuðborgarsvæðinu. Þarna er ekki bara á ferðinni hefðbundinn rígur milli landsbyggðar og þétt- býlis, heldur snúist þetta líka um eðli og inntak mótanna. „Vissulega verða þetta alltaf ólík mót á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Það felst í hlutarins eðli þar sem umhverfi þeirra er svo ólíkt. Þetta þarf þó ekki að vera neikvætt. Í þessu felast líka tækifæri. Ein teg- und af móti höfðar kannski frekar til eins hóps heldur en annars. Það er ekki langt síðan landsmótin voru á fjögurra ára fresti. Það var þannig alveg til ársins 2000. Nú er þau hins vegar annað hvert ár. Í heildina séð verða landsmótin að hafa ákveðinn grunn sem eru hestarnir. Við þurf- um þó líka að huga að skemmtana- gildinu. Mótin geta svo hvert um sig verið af ákveðinni gerð. Erlend- ir gestir geta ákveðið hvort þeir vilji frekar koma á svona mót eða hitt. Íslendingar geta gert hið sama. Það er þó ekki gott að búa til togstreitu. Meginmálið er að það verður að vera jákvætt andrúmsloft í kring- um landsmótin. Ef það er ekki þá missum við fullt af gestum frá okk- ur. Það mun einungis verða öllum til tjóns.“ mþh Meðal annars á að ráðstafa tíu milljónum króna vegna reksturs íbúasambýlis á Vesturgötu, sem fyrirhugað er að taka í notkun á næsta ári. Áætlað að 120 milljónir fari til ýmissa framkvæmda á næsta ári Lárus Ástmar Hannesson nýkjörinn formaður Landssambands hestamannafélaga: „Við verðum að skapa jákvætt andrúmsloft“ Þarna eru þeir félagarnir Lárus og Atlas frá Lýsuhóli. Þeir hafa meðal annars unnið A- flokk gæðinga hjá Snæfellingi í þrjú ár í röð. Ljósm. Kolbrún Grétarsdóttir. Lárus Ástmar Hannesson í Stykkishólmi, nýr formaður Landssambands hesta- mannafélaga. Hinn nýi formaður LH á góðri stundu í hestaferð.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.