Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.04.2003, Page 7

Læknablaðið - 15.04.2003, Page 7
RITSTJÓRNARGREINAR Langtímaáhrif kannabisneyslu Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á fíkniefninu kannabis og hafa flestar beinst að fíkninni sjálfri og taugaeitrunareinkennum hjá þeim sem nota kanna- bis. Að undanförnu hafa birst niðurstöður rannsókna sem sýna annars vegar að kannabisreykingar valdi eiturverkun á erfðaefnið og framkalli þannig krabba- mein og hins vegar að kannabisneysla tengist geð- röskunum. Neysla kannabis jókst mjög á síðustu tugum sein- ustu aldar meðal ungs fólks í iðnþróuðum löndum. Það sem ýtti undir þessa auknu neyslu var ekki síst það hversu auðvelt var að verða sér úti um þennan vímugjafa en einnig auknar hömlur gegn áfengis- neyslu og akstri bifreiða. Samfara þessu var það ef til vill hald manna að neysla kannabis væri hættulaus og gerði ekkert til eða að hún væri í það minnsta ekki eins skaðleg og reykingar og áfengisneysla. Fljótlega fór neysla kannabis að valda áhyggjum því talið var að hún gæti leitt til neyslu annarra og hættulegri vímuefna, einsog síðar var staðfest (1,2). Fíkn í kannabis hefur ekki verið eins áberandi og fíkn í önnur vímuefni og kann skýringin að vera sú að neyslan er oftast óregluleg og er mest meðal unglinga sem flestir hætta neyslu fyrir þrítugsaldur (3). Nokkur hluti kannabisneytenda leiðist þó út í reglulega neyslu sem getur varað árum saman. Fíknieinkenni og heilsufarsvandamál sem hrjá þá er misnota ópíum og örvandi efni eru miklu algengari og alvarlegri en þau sem sjást hjá þeim er neyta kannabis (4). Kanna- bisneysla veldur ekki eins oft árásarhneigð saman- borið við ýmsa aðra vímugjafa og vekur því neyslan oft ekki sömu athygli. Kannabisneysla skerðir þó hæfni manna til að stjórna hvers konar farartækjum og vara slík áhrif, eftir venjulegan skammt, lengur en 24 tíma vegna hægs útskilnaðar kannabisefna. Þetta gerir að erfitt er að sanna þátt kannabisneyslu í um- ferðarslysum (5). Sýnt hefur verið fram á í mörgum rannsóknum að slakur námsárangur unglinga tengist kannabisneyslu og framsýnar rannsóknir sýna að unglingum sem byrja snemma að nota kannabis geng- ur illa í skóla og þeir hætta fyrr skólagöngu en aðrir nemendur og að þetta er óháð öðrum áhættuþáttum (2, 6). í læknisfræðinni hefur fyrirbærinu „kannabis- geðveiki“ verið lýst, fyrst í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar, sem skyndilegu rugli með ímyndunum, ofskynjunum, tilfinningalegu ójafnvægi, gleymsku, átta- villu, óraunveruleikatilfinningu og ofsóknarkennd er kemur eftir inntöku kannabis í stórum skömmtum (7). Kannabis-geðveiki og einkenni geðveiki sem greinilega tengjast kannabisneyslu eru yfirleitt talin ganga til baka við afeitrun þegar neyslu er hætt, en geta komið fram að nýju við endurtekna neyslu. Á síðustu árum hafa komið fram æ fleiri vísbend- ingar um að kannabisneysla geti leitt til varanlegs heilsutjóns. Faraldsfræðilegar rannsóknir á sambandi kannabis og sjúkdóma hafa verið fáar hingað til en þar sem kannabis er reykt hafa athuganir beinst að öndunarfærum og sérstaklega krabbameinshættu. Tíu greinar hafa birst sem fjalla um krabbamein í höfði og hálsi sjúklinga sem reykt hafa kannabis og í nýlegri tilfellaviðmiðarannsókn kom í ljós að kanna- bisneysla jók hættuna á flöguþekjukrabbameini á höfuð- og hálssvæði (8). í þessari rannsókn sást töl- fræðilega marktækt skammtur/svörun-samband milli krabbameinshættunnar og magni kannabisreykinga á dag og fjölda ára sem reykt hafði verið (8). Við mat á hættunni á krabbameini var tekið tillit til og leiðrétt fyrir öðrum sennilegum áhættuþáttum, svo sem síga- rettureykingum, áfengisneyslu og fleiri atriðum. Spurningin um hvort neysla kannabis leiði til hrak- andi geðheilsu hefur lengi verið áleitin. Nýleg rann- sókn staðfesti fyrri rannsóknir um að langvarandi kannabisnotkun leiði til vitsmunaskerðingar en hún virðist mælast æ meiri því fleiri ár sem menn hafa ver- ið í neyslu kannabis og er hér um að ræða einn til tvo áratugi (9). Þessi vitsmunaskerðing er mæld með níu taugasálfræðilegum prófum og er ekki vegna bráðra eiturverkana. Breytingar á heilastarfsemi og vægar skerðingar sem lýst hefur verið í fyrri rannsóknum eru jafnvel taldar koma fram eftir styttri neyslu (9), en ekki að koma þurfi til langvarandi og mikil notkun einsog um var að ræða í nefndri rannsókn. Þessi skerðing og breytingar á heilastarfsemi eru það alvar- legar að þær geta hindrað menn í að ljúka háskóla- prófum, hindrað eða komið í veg fyrir starfsstöðu- hækkanir eða valdið samskiptaörðugleikum í einka- lífi og starfi og truflað daglegt líf. Tengsl kannabisnotkunar og geðveiki, einkum geðklofa, er löngu staðfest en það eru ekki til margar rannsóknir sem benda til þess að um orsakatengsl sé að ræða. Sýnt þykir að til þess að skýra sambandið þurfi framsýnar rannsóknir því að neysla kannabis er svo hegðunar- og félagslega bundin að erfitt er að henda sannar reiður á henni í aftursýnum rannsókn- um og spurningar hafa vaknað um hugsanleg áhrif neyslu annarra vímuefna. Fyrsta rannsóknin sem þótti benda til skýrra orsakatengsla skoðaði meira en fimmtíu þúsund karla sem kvaddir höfðu verið til her- þjónustu í Svíþjóð og sem fylgt var eftir í 15 ár (10). Rannsóknin sýndi að neysla kannabis á unglingsárum jók hættuna á geðklofa í skammtur/svörun-sambandi. Ný rannsókn með lengri fylgitíma á sama hópi stað- festi fyrri niðurstöður og tók af skarið um að neyslu annarra vímuefna var ekki um að kenna og ekki var heldur um að ræða að þeir sem síðar fengu geðklofa hafi þegar í upphafi haft einhver forstig sjúkdómsins (11). í vönduðum framsýnum rannsóknum frá Hol- landi og Nýja Sjálandi er tekið í sama streng (12,13). Vilhjálmur Rafnsson Höfundur er prófessor í heilbrigðisfræði við Háskóla íslands. Læknablaðið 2003/89 291

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.