Fréttatíminn - 13.06.2014, Page 34
Þarfaþing á hvert heimili
Í
Í mínu ungdæmi var til sérkennileg rík-
isstofnun sem hét Sölunefnd varnarliðs-
eigna. Hún var með forstjóra og eflaust
slatta af starfsmönnum en stofnun þessi
tók við góssi af Vellinum, sem svo var kall-
aður með stóru Vaffi. Varnarliðinu á Kefla-
víkurflugvelli fylgdi ómælt magn tækja af
öllum stærðum og gerðum, vinnuvélar,
heimilistæki og bílar, auk margs annars.
Þegar ameríska herliðið hafi nýtt þessar
græjur voru þær seldar Íslendingum, lík-
lega allar nema flugflotinn. Það var aldrei
hægt að kaupa notaða herþotu í Sölunefnd-
inni.
Þetta var svolítið spennandi staður fyrir
græjuóða – eða þá sem vildu ná sér í tæki
á góðu verði, eins konar markaðstorg þar
sem hægt var að gramsa að vild. Betra var
að vísu að hafa það í huga að raftækin voru
gerð fyrir 110 volta spennu, að bandarísk-
um sið, en ekki 220 volta eins og tíðkast
hér á landi. Varnarsvæðið var eyland, út-
lent svæði þótt á Miðnesheiði væri. Því
þurfti spennubreyti við raftækin ef þau
áttu að gagnast í innstungum landsmanna.
Fyrir flesta voru bílarnir samt það fýsi-
legasta sem rak á fjörur Sölunefndarinnar,
ekki síst á þeim tíma þegar þeir voru mun-
aður – og jafnvel leyfisskyldir á haftatíma.
Pabbi átti stundum amerísk dollaragrín
þegar ég var strákur, bíla sem líklega
hafa komist í hendur Íslendinga í gegnum
Sölunefnd varnarliðseigna. Amerískir bílar
voru málið, kraftmiklir kaggar sem báru af
rússneskum bílum sem fengust í skiptum
fyrir fisk eða vélarvana alþýðuvögnum sem
ættaðir voru frá Tékkóslóvakíu og seldust
bara vegna þess að þeir voru ódýrir. Boð-
ið var í amerísku bílana í Sölunefndinni
og þeir óku á brott sem best áttu boðin –
jafnvel í blæjubílum sem voru ekkert sér-
staklega gerðir fyrir íslenska veðráttu – en
flottir engu að síður. Eflaust hafa verktakar
þess tíma einnig náð sér í tól fyrir slikk,
hvort heldur voru gröfur, vörubílar eða
annað.
Blómatími Sölunefndarinnar var liðinn
þegar ég komst til vits og ára – enda hef
ég aldrei átt tryllitæki. Vafalaust hefur
það verið freistandi að kíkja á bílauppboð
nefndarinnar á fyrstu hjúskaparárum okk-
ar hjóna en til þess kom þó ekki. Því réð
einkum að við höfðum lítið fé handa á milli
og svo hitt, kæmu bílakaup til greina, þá lét
minn betri helmingur skynsemina ráða.
Bensínhákur með langt húdd og þungt átta
strokka hljóð var ekki inni í myndinni. Við
það sætti ég mig og það var ekki mikil fórn
því í raun hef ég aldrei verið sérstaklega
græjusjúkur – og auk þess algerlega hæfi-
leikalaus þegar kemur að viðgerðum. Enn
er ég þó þeirrar skoðunar að útlitslega hafi
bílar náð ákveðnum hátindi þar sem voru
þeir amerísku framleiddir á sjötta og sjö-
unda áratug liðinnar aldar, þungir Bjúkkar,
Lettar, Kræslerar og Kádilljákar, hlaðnir
krómi og mjúkum línum fram að hinum
sportlega Ford Mustang sem leit fyrst
dagsins ljós fyrir fimmtíu árum. Stöku
sinnum fóru hönnuðirnir fram úr sjálfum
sér, til dæmis þegar bílarnir urðu vængjað-
ir – en almennt var þetta blómatími banda-
rískra bíla, áður en japanskir sparibaukar
og nytsemdarvagnar tóku yfir markaðinn
í kjölfar hækkandi orkuverðs og aukinnar
umhverfisvitundar.
Svo fór Varnarliðið af landi brott og Sölu-
nefndinni var lokað. Miðnesheiðin varð
íslensk á nýjan leik, miðstöð menntunar
og fræðslu. Græjurnar, hvort heldur voru
bílar eða önnur tól, komu frá Evrópu og
Japan – og síðar Kóreu og Kína. Minna
sást af bandarískum innflutningi, helst
þá lúxusjeppar og stöku tryllitæki fyrir þá
sem skæðasta höfðu fengið bíladelluna.
Ég komst ekki lengra í tækjaáhuganum
en að eignast borvél og síðar rafknúnar
greinaklippur – fyrir utan farsíma. Aum-
ara getur það varla orðið. Nú er ég helst að
sverma fyrir keðjusög en hef ekki gert það
upp við mig hvort hún á að vera rafknúin
eða með bensínmótor. Svona sög þarf ég
til að grisja tré í sveitinni. Auðvitað væri
gaman að hafa aðgang að gráum Ferguson
traktor en ég treysti mér ekki til að halda
svo gamalli græju gangandi.
Önnur tól voru ekki ofarlega í huga mér
þar til um liðna helgi. Þá rakst ég á auglýs-
ingu frá Ríkiskaupum þar sem vakinn var
upp gamall draugur, nefnilega Sölunefnd
varnarliðseigna – eða gamalt góss frá
henni. Þar voru auglýst til sölu tæki sem
slá flest annað út og ættu að geta svalað
athafnaþörf græjumanna – og jafnvel að
vera til á heimilum sem víðast. Öll höfðu
þau verið í eigu Varnarliðsins, að því er
sagði í auglýsingunni, en þar mátti sjá snjó-
plóga, hjólaskóflur, flugbrautasópa, pall- og
vörubíla, gaffallyftara, sanddreifara, gólf-
hreinsivélar og ýmislegt fleira.
Þetta var ekkert annað en himnasend-
ing og sannaði enn og aftur að enginn veit
hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Blessað
varnarliðsgóssið slær allt annað út. Hver
getur ekki hugsað sér að eiga flugbrauta-
sóp eða sanddreifara, svo ekki sé minnst
á snjóplóg á okkar norðlæga landi. Vera
kann að það reynist mér erfitt að sannfæra
konuna um þörf okkar litla heimilis fyrir
þessi tæki, hafandi það í huga að hún hafði
hvorki áhuga á Bjúkka né Rambler þegar
Sölunefndin var og hét – sem voru talsvert
minni um sig en flugbrautasópari. Slíkt
þarfaþing kemst varla fyrir í bílskúrnum.
Verra var þó að fram kom í auglýsingunni
að sum apparötin væru ekki í brúkunar-
hæfu ástandi og að seljandi – íslenska ríkið
– bæri ekki ábyrgð á að unnt yrði að skrá
bifreiðar og tæki eftir sölu.
Það er þá helst að maður skelli sér á gólf-
hreinsivél. Sennilega verð ég að eiga vélina
sjálfur frekar en að gefa konunni hana í af-
mælisgjöf, það gæti misskilist, en notagildi
gólfhreinsivélar er ótvírætt – og hún hefur
þann kost að vera ekki skráningarskyld.
Jónas
Haraldsson
jonas@
frettatiminn.is
HELGARPISTILL
Te
ik
ni
ng
/H
ar
i
SAMKVÆMT BÓKSÖLU Í PENNANUM EYMUNDSSON UM LAND ALLT
METSÖLULISTI EYMUNDSSON
VIKAN 04.06.14 - 10.06.14
1 2
5 6
7 8
109
43 Iceland Small World - lítil Sigurgeir Sigurjónsson
Piparkökuhúsið
Carin Gerhardsen
Síðasta orðsending elskhugans
Jojo Moyes
Frosinn: Þrautir
Walt Disney
Amma biður að heilsa
Fredrik Backman
Gæfuspor - gildin í lífinu
Gunnar Hersveinn
Bragð af ást
Dorothy Koomson
Öngstræti
Louise Doughty
Stjörnurnar á HM
Illugi Jökulsson
Skrifað í stjörnurnar
John Green
34 viðhorf Helgin 13.-15. júní 2014