Frjáls verslun - 01.02.2007, Blaðsíða 116
116 F R J Á L S V E R S L U N • 2 . T B L . 2 0 0 7
SUMARHÚS
Félag húsbílaeigenda:
Frábær félagsskapur
Félag húsbílaeigenda stendur
fyrir ýmsum uppákomum fyrir
utan ferðalög. Það eru haldnir
ferðafundir, skoðunardagar hjá
Aðalskoðun, árshátíð og jóla-
fundur sem endar með balli.
„Í félaginu eru nú um 800
bílnúmer,“ segir Ásgerður
Magnúsdóttir, formaður félags
húsbílaeigenda. „Það eru að
jafnaði tveir einstaklingar á bak við hvert númer en þó þekkist að
það sé aðeins einn. Því má segja að félagafjöldi sé í kringum 1500.
Þetta er alveg frábær félagsskapur þar sem fólk kynnist í gegnum
ferðalög en við förum yfirleitt nokkrar ferðir saman á hverju ári.
Nú verða t.d. farnar 7 ferðir og yfirleitt eru um 100-200 bílar
saman í hóp á áfangastöðum. Fyrsta ferðin á árinu er að jafnaði
mjög fjölmenn og eins hvítasunnuferðin og sú síðasta sem er farin
í endaðan september.“
Baráttumál félagsins eru nokkur og þar á meðal að greiða lægra
verð í Hvalfjarðargöngin en gert er nú. Einnig stendur félagið
fyrir því að félagar fái afslátt á tjaldstæðum og ýmissi annarri
þjónustu.
„Við höldum marga fundi, oftast heima hjá mér því að skrif-
stofa félagsins er hjá formanni ásamt öllum eigum félagsins.
Einnig gefum við út fréttabréf sem kemur út a.m.k. 10 sinnum
á ári og svo er haldin árshátíð sem oftast hefur verið á Örkinni.
Þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur og ætíð er beðið eftir
vorinu með óþreyju svo hægt sé að leggja af stað í ferðalag,“segir
Ásgerður að lokum.
Gönguferðir:
Í nágrenni
Miðhúsaskógar
og Úthlíðar
Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður er mikill göngugarpur og
þekkir margar skemmtilegar gönguleiðir í nágrenni sumarbústaða
svo sem í kringum sumarhúsabyggðirnar í Miðhúsaskógi og
Úthlíð.
„Fyrir norðan sumarhúsabyggðina er víðlent, óbyggt svæði
sem er kjörið til náttúruskoðunar upp á eigin spýtur og það er
auðvelt að ganga á Bjarnarfellið fyrir austan Úthlíð. Engir far-
artálmar eru á leiðinni og af tindinum blasir Suðurlandsund-
irlendið við og í austri gufustrókar frá Geysi.“
Konungsvegurinn liggur í gegnum Miðhúsaskóg en hann
var lagður frá Þingvöllum austur að Geysi í tilefni af komu
Danakonungs árið 1907. „Í sumar verða 100 ár liðin frá þessum
atburði og mun þess verða minnst með margvíslegum hætti,
meðal annars með skipulögðum gönguferðum um Konungsveg-
inn.“
Páll Ásgeir segir að ef menn vilji leggja í lengri gönguferðir frá
sumarbústöðunum á þessum slóðum, sem taka heilan dag, mætti
benda á Brúarárskörð þar sem Brúará sprettur fram úr klettum
undan Rótarsandi. ,,Auðvelt er að fylgja ánni gegnum skóginn
að austan alla leið inn í skörð og príla síðan upp fjallið austan
við ána og þá standa menn á brúnum mikils gljúfurs þar sem eru
uppsprettur fossa úr klettaveggjum sem safnast saman í hina tæru
og fallegu Brúará.“
Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður er mikill göngugarpur og þekkir
margar skemmtilegar gönguleiðir í nágrenni sumarbústaða, svo sem
í kringum sumarhúsabyggðirnar í Miðhúsaskógi og Úthlíð.
Ásgerður Magnúsdóttir, formaður félags húsbílaeigenda.