Frjáls verslun


Frjáls verslun - 01.10.2009, Page 98

Frjáls verslun - 01.10.2009, Page 98
98 F R J Á L S V E R S L U N • 1 0 . T B L . 2 0 0 9 Fólk Íris Hera Norðfjörð. „Ég held að ég sé fædd með þeim ósköpum að þurfa alltaf að búa til hollan og góðan mat.“ Íris Hera Norðfjörð veitingamaður á Kryddlegnum hjörtum Kryddlegin hjörtu er við Skúlagötu, með útsýni yfir Esjuna og fjallahring-inn í norðri. Veitingastaðurinn sér- hæfir sig í heilsusamlegum og næringarríkum súpum, heimabökuðum brauðum og fjöl- breyttum salatbar. Daglega eru fjórar gerðir af súpum í boði. Á Kryddlegnum hjörtum ræður ríkjum Íris Hera Norðfjörð: „Þetta er heilsustaður fyrir alla. Ég hef átt mér þann draum að opna slíkan stað eftir að ég tók mat- aræði mitt í gegn fyrir fimm árum. Þá fannst mér hvergi vera staður þar sem ég gæti farið út að borða með fólki sem hefði kannski ekki sama smekk fyrir mat og ég, vildi fá kjötrétti meðan ég var í allt öðru. Það var svo í fyrra rétt fyrir hrunið, nánar tiltekið 29. ágúst, sem ég opna staðinn í þessu líka fína húsnæði. Var varla búin að opna þegar kreppan skall á og satt best að segja fékk ég nánast áfall.“ Íris þurfti samt ekki lengi að vera með hnút í maganum því fljótt spurðist út að þarna væri veitingastaður með góðan og hollan mat sem hentaði öllum. „Fyrstu níu mánuðina var eingöngu um hádegisverð- arstað að ræða. Þegar ég svo stóð í undirbún- ingi fyrir næsta dag á kvöldin var alltaf að koma fólk og banka og spyrja hvort ekki væri opið og á endanum ákvað ég að opna einnig á kvöldin. Nú er staðan þannig að yfirleitt er alltaf fullt í hádeginu og smátt og smátt er staðurinn að vinna sér sess í bæjarlífinu á kvöldin. Þessi þróun hjá mér sýnir að þegar boðið er upp á heilsusamlegan mat sem fer vel í fólk, þá spyrst það út.“ Íris Hera hefur komið víða við í atvinnu- lífinu. „Mín menntun er skóli lífsins, ég var búin að eignast eldri dóttur mína 17 ára gömul þannig að það var ekki mikill tími til að mennta sig, en ég hef verið duglega að sækja námskeið hér heima og erlendis sem hafa nýst mér vel. Meðal annars starfaði ég við stjörnuspeki í tólf ár og gaf út heilsurækt- arblað, Heilsurækt og næring, um tíma ásamt fyrrverandi eiginmanni mínum. Ég hef aldrei lært neitt sérstaklega í matargerð en hef verið að elda síðan ég var átján ára gömul. Ég held að ég sé fædd með þeim ósköpum að þurfa alltaf að búa til hollan og góðan mat. Hvað varðar starf mitt hér, þá geri ég allt sem þarf að gera og er búin að vera hér nán- ast alla daga í rúmt ár í allt að 16 tíma á dag. Nú er ég að flytja í nágrenni staðarins og það auðveldar mér að hlaupa í vinnuna þegar allt fyllist og ég farin úr vinnunni.“ Íris Hera er í sambúð með Hafþóri Gest- syni nuddara sem kemur oft til aðstoðar á Kryddlegnum hjörtum þegar mikið er um að vera. Hún á tvær dætur, Dagbjörtu Norðfjörð og Brynju Norðfjörð. Íris Hera sameinar vinnu og áhugamál, en hún er einnig mikill tónlistarunnandi. „Ég keypti græjur upp á eina og hálfa milljón til að geta boðið tónlist- armönnum að spila hjá mér og draumurinn er að vera reglulega með blús- og djasskvöld. Við höfum tvisvar haft blúskvöld og trommu- kvöld þar sem allir voru velkomnir að koma með slagverk. Andleg málefni hafa einnig átt sterk ítök í mér og ég hef sótt mörg nám- skeiðin í þeim efnum. Þetta er búið að vera mikil og löng törn og hef ég ekkert farið í frí en stefni á að komast í smáfrí til útlanda í febrúar á næsta ári.“ Nafn: Íris Hera Norðfjörð. Fæðingarstaður: Reykjavík 16. júlí 1958, ólst upp í Mosfellsbæ. Foreldrar: Jón Norðfjörð og Svava Gunnarsdóttir. Maki: Hafþór Gestsson. Börn: Dagbjört, 33 ára og Brynja, 23 ára.

x

Frjáls verslun

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Frjáls verslun
https://timarit.is/publication/282

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.