Læknablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 26
314 LÆKNAblaðið 2015/101
þessarar greinar er að rekja birtar og óbirtar niðurstöður sem
varpað geta skýrara ljósi á þessa áhættu.
Sýkingaráhætta
Aukin sýkingaráhætta af innfluttum matvælum er þegar meiri
líkur eru á smiti af neyslu innfluttra en innlendra matvæla. Það
þýðir jafnframt að menn eru í meiri áhættu af því að sýkjast af
umræddum sýklum þegar þeir ferðast til útlanda en þegar þeir
dvelja á Íslandi og neyta innlendra matvæla. Þetta getur verið
vegna þess að tilteknir sýklar finnist ekki á Íslandi, eða að tilteknir
sýklar finnist sjaldnar eða í minna magni í íslenskum dýrum og
matvælum, heldur en í erlendum.
Þeir sýklar sem geta sýkt bæði menn og dýr valda svokölluðum
súnum (zoonosis). Allir flokkar örvera (bakteríur, sveppir, veirur,
príon, ormar og frumdýr) geta sýkt bæði menn og dýr og af þeim
um það bil 1400 tegundum örvera sem geta sýkt menn, geta um 60%
sýkt bæði menn og dýr.4,5 Margir þessara sýkla eru mjög sjaldgæfir
og ekki líklegir til að berast til Íslands. Aðrir eru bæði algengir
og líklegir til að geta borist með ferskum matvælum til landsins.
Af þeim eru helstir bakteríurnar Campylobacter, Salmonella, Escher-
ichia coli og Staphylococcus aureus og hafa þeir því verið valdir til
nánari umfjöllunar í þessari grein. Vegna þeirrar ógnar sem stafar
af sívaxandi sýklalyfjaónæmi, fær það einnig sérstaka umfjöllun.
Rétt er þó að muna eftir lifrarbólguveiru A og Toxoplasma gondii
sem geta einnig borist með matvælum og eru tiltölulega sjaldgæf
hérlendis, svo og Trichinella spiralis sem ekki er landlæg á Íslandi.
Campylobacter spp.
Campylobacter, ein algengasta orsök niðurgangs af völdum baktería
í heiminum, finnst í eðlilegri örveruflóru (í þörmum) fjölmargra
dýra, svo sem nautgripa, kinda, svína, geita, hunda, katta, nagdýra
og fugla.6 Við slátrun dýra til manneldis er þess sérstaklega gætt
að þarmainnihald mengi ekki kjötið eða þann hluta sem ætlaður er
til neyslu. Við slátrun stórgripa er þetta lítið vandamál, en stórt við
slátrun kjúklinga þar sem nánast er útilokað að slátra alifuglum í
tæknivæddum sláturhúsum án saur/gormengunar afurðarinnar.
Salmonella hópsýkingar tengdar alifuglum urðu árið 1979 til
þess að bannað var að selja ferska kjúklinga á Íslandi. Tilraunir
til að útrýma Salmonella í kjúklingum hófust 1992. Tekin voru sýni
frá kjúklingahópum sem fóru til slátrunar, og ef þeir voru lausir
við Salmonellu mátti slátra þeim og selja til neytenda, en ef ekki
var þeim fargað. Á sama tíma var öll umhirða á búunum bætt og
eftirlit aukið. Árangurinn var slíkur að bændur fengu að nýju leyfi
til að selja ferska kjúklinga haustið 1995. Í kjölfarið jókst sala og
neysla ferskra kjúklinga mjög mikið.
Þegar fólk greinist með Salmonella eða Campylobacter sýkingu
á Íslandi afla læknar sýklafræðideildar Landspítalans upplýsinga
um líklegan uppruna smitsins ef um innlent smit er að ræða og
hvert sé líklegt upprunaland ef um erlent smit er að ræða. Árin
1998 og 1999 fjölgaði innlendum Campylobactersýkingum í mönn-
um margfalt (mynd 1) og varð nýgengi per 100.000 íbúa næstum
160, sem er með því hæsta sem þá var skráð í heiminum. Til að
rannsaka orsakir þess og leiðir til úrbóta varð til samhentur hópur
íslenskra vísindamanna, sem í samvinnu við þekkta sérfræðinga
á sviði Campylobactersýkinga í Bandaríkjunum, Kanada og inn-
lenda kjúklingaframleiðendur, tókst að lækka nýgengið niður í
það sem það var fyrir þennan faraldur (mynd 1).
Aðgerðirnar sem gripið var til voru margvíslegar (bætt aðstaða,
verkferlar og fræðsla fyrir starfsfólk í matvælaframleiðslu um
smitgátarvinnubrögð, lekaheldar neytendaumbúðir og frysting
á kjúklingum úr menguðum hópum, svo og fræðsla til almenn-
ings).7 Árið 2012 gaf Matvælastofnun út nýja áætlun sem fylgir
eftir helstu aðgerðunum. Í henni segir: „Afurðum sláturhóps
má dreifa óhitameðhöndluðum eða ófrystum þegar fyrir liggja
niðurstöður úr eldissýnum viðkomandi sláturhóps um að ekki
hafi greinst kampýlóbakter og að sýnið sé ekki eldra en 5 daga
gamalt. Ef kampýlóbakter greinist í sýni á eldistímanum eða
niðurstöður rannsókna úr eldissýni liggja ekki fyrir eða sýnið er
ógilt, þá skulu sláturafurðir viðkomandi alifuglahóps allar frystar
eða hitameðhöndlaðar.”8 Ástæður þessa eru að frystingin fækkar
Campylobacter tíu til þúsundfalt og byggir það meðal annars á ís-
lenskum rannsóknum.9
Ekki er vitað til þess að slíkar aðgerðir séu viðhafðar í öðrum
löndum þótt vitað sé um gagnsemi þeirra, þar sem þær auka á
kostnað við framleiðslu kjúklinganna. Ekki er hægt að tryggja að
kjúklingaafurðir séu Campylobacter-fríar og verður þess vegna að
ganga út frá því að ferskir kjúklingar geti verið mengaðir af Cam-
pylobacter, einkum erlendis þar sem ekki eru viðhafðar eins strang-
ar aðgerðir og á Íslandi. Erfitt er að bera saman nýgengi Campylo-
bacter- og Salmonellasýkinga á milli landa vegna ólíkra viðhorfa
og aðferða við greiningu og skráningu. Þannig benda opinberar
upplýsingar til þess að nýgengi Campylobacter- og Salmonella-
sýkinga sé mun lægra í Suður- og Austur-Evrópu heldur en í
Norður-Evrópu og á Norðurlöndunum, þótt raunveruleikinn sé
allt annar.10,11 Lönd Norður-Evrópu eru mögulega samanburðar-
hæf, en árið 2008 var nýgengi í Wales 119 tilfelli/100.000 íbúa og
árin frá 2005 var nýgengið það lægsta á Íslandi í samanburði við
Danmörk, Finnland, Noreg, Svíþjóð og Holland.12,13 Í töflu I má sjá
nýgengið á Íslandi fyrir árin 2010-2014,14 til samanburðar við nýbirt
nýgengi í nokkrum löndum Evrópu og í Evrópusambandinu árið
2013.15 Í rannsókn á vegum MATÍS og Matvælastofnunar á algengi
Campylobacter og Salmonella í ferskum kjúklingaafurðum á Íslandi,
Mynd 1. Nýgengi sýkinga af völdum Campylobacter á Íslandi eftir árum og uppruna
(innlendum, erlendum og óþekktum).
Y F i R l i T S G R E i n