Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 01.03.1961, Side 47

Tímarit Máls og menningar - 01.03.1961, Side 47
AÐ VINGSA HONDUNUM uppi í fjalli, og það var líka ónormalt. Allt ráp útúr þorpinu var ónormalt, nema menn væru að huga að skepnum eða tína ber. Samkomuhús, kirkja, kaupfélag. Þeir höfðu enzt til að hafa hann á milli tannanna í allt sumar fyrir það, að hann vingsaði höndunum. Það var mont, fannst þeim. Nú litu þeir á hann sem kújón fyrir það, að hann var hættur að vingsa höndunum. Hafði hann annars nokkurntíma vingsað höndunum, og ef hann hafði gert það, hvers vegna var hann þá hættur því? Hann var þúsundsinnum betri en þessi sveitamaður sem þeir höfðu tekið í staðinn fyrir hann. En hann var feginn. Kennsla átti ekki við hann. Hann hefði hvort sem er hætt eftir þennan vetur. Þeir gerðu honum bara greiða, þótt það væri óviljandi. Samkomuhús, kirkja, kaupfélag; gat maður haldið sönsum í svona umhverfi! Og ástæðan sem þeir fundu til að segja honum upp starfinu! Að hann væri óreglusamur; þetta eina fyllirí í sumar, þegar leiðindin ætluðu að drepa hann. Það þurfti ekki meira. Hann hafði sagt þeim þá, hvaða álit hann hafði á þeim, og nú litu þeir á hann einsog forfallinn drykkjumann eftir þetta eina fyllirí. Það hafði gert honum gott að segja þetta við þá, einkum þá þeirra sem þóttust heldrimenn. Það var einsog þeir vissu ekki, hvaðan á þá stóð veðrið, þeir bara göptu. Hann mundi það vel, þó hann hefði verið fullur. Það eina sem hann sá eftir var að hann skyldi asnast til að biðja þá afsökunar, þegar runnið var af honum. Það hafði heldur ekki haft neitt uppá sig. Næst skyldu þeir koma til hans og biðja hann afsökunar. Hann ætlaði í mál við þá. Hann skyldi vingsa framan í þá höndunum svo þeir myndu eftir því. Hann ætlaði að byrja á því í dag, strax uppúr hádeginu, eða seinnipartinn. Hann skyldi minnstakosti gera það áður en hann færi héðan alfarinn. Allur heimurinn skyldi fá að vita, hvað þeir voru vitlausir, svo vitlausir, að sjálf vitleysan var orðin normal, og svo óendanlega skoplegir, að þeir voru bara leiðinlegir. Samkomuhús, kirkja, kaupfélag. Hvers vegna var hann ekki farinn ? 37

x

Tímarit Máls og menningar

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.