Tímarit Máls og menningar - 01.07.1971, Page 83
gjör hans við skáldið og verk þess og ein-
kennist af virðingu og þökk, eins og flest
eða allt, sem hann hefur látið frá sér fara
um íslenzkar bókmenntir og menningu. í
upphafi bókarinnar drepur hann á nokkrar
bókmenntafræðilegar kenningar um tilefni
Passíusálmanna og ýmis mismunandi senni-
leg ummæli um Hallgrím, hina ytri lífsbar-
áttu hans og áhrif hennar á sálmana. Allt
þetta tekur höfundur til athugunar, en
bráðlega tekur þó hin „ytri“ atburðarás að
víkja fyrir hinni „innri“, sem Sigurði finnst
réttilega mikilvægara og frjórra rannsókn-
arefni. Með haldgóðum rökum andæfir
liann þeirri útbreiddu hugmynd, að Hall-
grímur hafi ort Passíusálmana sér til fró-
unar í sjúkdómskvölum sínum og dauða-
stríði, þvert á móti hyggur hann, að bætt
og aukin velmegun (er Hallgrímur fluttist
að Saurbæ) hafi átt meginþátt í að herða
og dýpka sálarstríð skáldsins, hina innri
baráttu, sem knúði hann til þess stórfeng-
lega uppgjörs við trú sína og lífsskoðun,
sem í Passíusálmunum birtist, og um þá
baráttu fjallar meginhluti bókarinnar. At-
liugun Sigurðar er gerð „innan frá“, hann
reynir augljóslega að upplifa eða nánast
endurlifa tilfinningar skáldsins sjálfs í ljósi
allra þeirra aðstæðna og staðreynda, sem
völ er á. Sálarstríð Hallgríms Péturssonar,
baráttu hans og sigur, er h'kast sem Sig-
urður Nordal þekki af eigin raun, og þenn-
an skilning sinn, þessa reynslu, túlkar hann
á látlausan hátt, og áreynslulaust greinir
hann og fléttar saman í eina heild sögulega,
sálræna og trúræna þætti í tjáningu skálds-
ins. Hin trúarsögulegu og guðfræðilegu at-
riði eru þó hinn rauði þráður túlkunarinnar
og höfuðprýði, og er sjaldgæft að sjá fjall-
að um þau mál af slíkri skynsemi á okkar
tungu. Sigurður gerir ákaflega skilmerki-
lega grein fyrir mismun hinnar kaþólsku og
lútersku kenningar og mikilvægi þeirrar síð-
arnefndu fyrir Hallgrím og skáldskap hans.
Umsagnir um bcekur
Hin „harða“ kenning Lúters lagði nýjan
þunga á hinar erfiðu en óhjákvæmilegu
þverstæður kristindómsins. Lögmál og náð,
erfðasynd og friðþæging, reiði guðs og
mildi, þessi andstæðu temu sækja á skáld-
ið og berjast um völdin í huga þess, og
því má þar auðveldlega benda á mótsagnir
og „rökleysur". En Sigurður Nordal bendir
á, að til sé rökvísi, og að til sé reynsla,
sem rúmi slíkar andstæður og sameini, og
hann spyr, hvort Hallgrímur Pétursson hafi
ekki „á beztu stundum sínum komizt hænu-
feti nær því en hinir rökvísu kerfasmiðir
að óra fyrir leyndardómum þessarar óræðu
tilveru og þverstæðum mannlegs hlutskipt-
is“.
Ofdirfska væri og óvinnandi vegur að
endursegja að gagni hugsanir og skoðanir
Sigurðar Nordals í svo örstuttri grein, svo
hnitmiðaðar og gagnorðar sem þær birtast
í bókinni sjálfri. „Óskiljanleg" guðfræði-
hugtök verða sjálfsagðir hlutir í munni
Sigurðar Nordals og á það sinn þátt í
gildi og erindi bókarinnar. Mál trúarinnar,
sem okkur finnst stundum svo undarlegt og
fjarlægt, birtist hér sem lifandi veruleiki,
sem við getum skynjað hið innra með okk-
ur sjálfum. í eftirmála bókarinnar lætur
Sigurður í Ijós von um, að þessi „hugleið-
ingabrot“ sín verði öðrum eggjun til sjálf-
stæðs lestrar og athugunar. Ég er fyrir mitt
leyti handviss um, að honum verður að
þeirri ósk sinni. Sigurður er nú orðinn ald-
inn að árum, en hugsun hans síung og vax-
andi. Það er tilhlökkunarefni að eiga von
á fleiri verkum frá hans hendi á næstunni,
eins og fyrirheit er gefið um á kápusíðu
þessarar bókar.
Magnús Skúlason.
73