Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Síða 18
Tímarit Máls og menningar
Ég hringdi í Nonna og stamaði eitthvert óskiljanlegt rugl. Hitti
niðrí Austurstræti góðan vin minn og gaf tárunum lausan tauminn.
Þau urðu fegin þessu stundarfrelsi og ég stóð og fossaði.
Við löbbuðum til Gullu og Stínu og fengum okkur í kveðjupípu.
Ég gat lítið sagt vinum mínum, jú það átti að loka mig inni — AF-
HVERJU — AFHVERJU — AFHVERJU? Afþví ég er píslarvott-
ur negld uppá kross með kvalafulla þyrnikórónu á höfði og blóðið
baðar andlit mitt og líkama. Ég reyki hass, hef prófað sitt lítið af
hverju, drekk mikið, er bara 15 ára, er í slæmum félagsskap, er aldrei
heima, á gamla vini.
NEI það þýðir ekki að leggjast í bömmer. Ég ákvað að byggja mig
upp sem fyrirmyndarpíslarvott, taka erfiðleikunum, hverjir sem þeir
kynnu að verða, með stolti, vera sterk og bíta á jaxlinn. Við Gulla og
Stína fórum í búðaráp, ég keypti reykelsi, öskubakka og grænmeti,
ég ætlaði að einangra mig frá þessum fábjánum á unglingaheimilinu,
lifa útaf fyrir mig. Fór svo heim og náði í slatta af fötum og plötum.
Tók strætó í Kópavog, stónd, með töskur og plastpoka. Heim,
heim, heim, í nýja fangelsið mitt.
Orlaganornirnar hafa beitt valdi sínu
upp í strætó með heilann starfandi á fullri ferð
lok lok og læs og allt í stáli
heim í fangelsið mitt
grátleg einmanakenndin fyllist öryggishatri.
Til að byrja með átti ég að vera í einangrun á „Níunni“, en þangað
fara flestir krakkarnir fyrst og eru þar í viku. Þetta er lítið huggulegt
hús með plastgluggum og tvöfaldri hurð. Þaðan er farið yfir á „17“ en
þar búa „vistmennirnir“ eða krakkarnir.
Ég var ákveðin í að taka öllu með heimspekilegri ró, passa að
brotna ekki né láta heilaþvo mig — leika minn leik — leika falskan
leik — á svörtum reit. Um nóttina svaf ég í stóru hvítu ókunnugu
rúmi með sængurföt í sama stíl.
Hjá mér var einn vaktmaður eða starfsmaður og krakkar sem
bjuggu yfir á „17“ en höfðu brotið eitthvað af sér. „Nían“ var líka
notuð í refsingarskyni og sem geymsla fyrir krakka sem áttu að fara
í yfirheyrslu hjá lögreglunni eða höfðu verið hirtir blindfullir af
planinu.
264