Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Blaðsíða 64
Tímarit Máls og menningar
taldir neikvæðir þættir, en ef við athugum hvað það þýðir þá
sjáum við, að þarna liggur í raun neisti til að breyta.
Verkalýðsbörnin „refsa“ sér ekki sjálf í sama mæli ef þau fara út
fyrir viðteknar reglur samfélagsins vegna þess að þær eru þeim
engan veginn eðlislægar, og þegar hópurinn er orðinn sterkur
og getur staðið gegn þeim boðum og bönnum, sem koma utan
frá — frá þeim, sem hafa annarra hagsmuna að gæta — þá er von
um réttlátara samfélag.
Af hverju voru ritgerðirnar ekki gefnar út?
Asgeir Góð spurning. Reyndar er það ekki alveg rétt, að þær hafi ekki
verið gefnar út því þær voru fjölritaðar í litlu upplagi, sem er að
mestu þrotið núna. Við höfum hins vegar reynt að koma efni
þeirra til skila til þeirra sem fjalla um málefni unglinga, eins og
við töluðum um áðan. En við höfðum vissulega hug á því á sín-
um tíma að koma niðurstöðunum betur til skila en við höfum
gert. Því almenningur hefur ekki haft mörg tækifæri til að
kynna sér þær. Fyrir því eru ýmsar ástæður.
Jónas Hópurinn dreifðist of fljótt. Hluti fór til Islands og reyndi að
nota sínar ritgerðir — aðrir urðu eftir í Danmörku.
Asgeir Ungir menn sem hafa verið við nám í útlöndum svo árum
skiptir verða að fara að vinna fyrir sér þegar þeir koma loksins
heim. Og maður gerir ekki annað en að vinna eftir að heim
kemur.
Hugo Svo fær maður áhuga á starfi sínu, ný verkefni fara að standa
manni nær en þau gömlu — og þetta fer sem fer.
Jónas Við fjölrituðum ritgerðirnar í 100 eintökum eða fleiri og dreifð-
um þeim til ýmissa aðila. Þær hafa væntanlega verið notaðar. En
það vantar pésa, kennslubók, útdrætti í aðgengilegu formi,
útvarpsþætti, sjónvarpsþætti. Þrjár ritgerðanna voru teknar
fyrir í Þjóðviljanum (7. jan., 3. júní og 10. sept.1978), annars
hafa blöðin ekki sinnt þeim.
Asgeir En Ragnhildur Helgadóttir vakti mikla athygli á þessari könnun
á Alþingi. Það er rétt að þakka henni fyrir það. Það var 1979 og
margir komu til okkar þá og leituðu eftir upplýsingum um nið-
urstöður okkar.
Jónas I rauninni er svona rannsókn tvennt — annars vegar rannsóknin
sjálf og úrvinnslan, hins vegar miðlunin og áhrifin sem
310