Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Síða 56
Tímarit Máls og menningar
Mér hafði ekki gefist neitt ráðrúm til að hugsa, en við þessi orð
Maju jókst gráturinn um allan helming. — Ef þeir hefðu nú séð, nei
þeir mega ekki. . . , góði guð láttu þá ekki hafa séð.
Halldór kom inn og vildi tala við mig, en ég skipaði honum að
fara og grúfði mig enn fastar ofan í koddann. Maja var búin að klæða
sig og fór fram með Halldóri og var ég ein í herberginu. Smám
saman sefaðist gráturinn en ég hafði þungan ekka og skalf eins og
hrísla. Ég skammaðist mín nú fyrir að hafa farið að grenja út af engu
eins og aumingi. En jafnframt kvaldist ég af tilhugsuninni um að
strákarnir hefðu séð mig allsbera og vissu þar með leyndarmál mitt.
Af og til fékk ég hljóðlátar gráthviður og mig langaði svo heim til
mömmu. Samt vissi ég að ég gæti ekki sagt mömmu frá þessu. Þetta
var allt eitthvað svo undarlegt. Mamma hafði sagt mér að allar konur
væru með brjóst og svona hár og auðvitað vissi ég það fyrir löngu.
En það var bara engin stelpa í mínum bekk búin að fá svona hár.
Kannski myndu þær stríða mér í leikfimi og sundi í vetur. Guð hvað
ég kveið fyrir.
Halldór kom nú aftur inn og lokaði á eftir sér. Hann settist á
rúmið hjá mér hálf vandræðalegur og sagði:
— Þetta hafa verið heldur mikil læti í okkur í dag Anna mín. Við
ætluðum ekki að gera ykkur neitt illt. Hættu nú að skæla, það
kemur oft fyrir þegar menn eru þreyttir og æstir að þeir fara að
gráta, sé þeim gert hverft við. Þetta eru alveg eðlileg viðbrögð, hafðu
engar áhyggjur. Hm. . . já þetta lagast allt. Komdu fram og fáðu þér
hressingu.
Ég svaraði engu en starði upp í loftið. I því var kallað framan úr
eldhúsi. Það var Alli.
— Það er til kakó handa þeim sem vilja.
— Komdu nú fram og fáðu þér kakósopa Anna mín. Það er gott
fyrir þig að fá eitthvað heitt eftir allt volkið, og þú sofnar betur á
eftir, sagði Halldór og stóð upp.
Ég svaraði ekki strax, en þá kallaði Maja og lét ég því tilleiðast,
treg þó. Ég var eldrauð og þrútin í framan og þorði ekki fyrir mitt
litla líf að líta upp. Ég hringaði mig saman á bekknum, sötraði heitt
kakóið og dýfði kringlu í. Ég skalf öll og nötraði, ekki þó af kulda,
heldur var þetta einhver innri skjálfti sem ég skildi ekki og réð
ekkert við.
302