Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Page 57
Þrjú andlit á glugga
Borðhaldið var vandræðalegt fyrst í stað. Eg sagði ekki orð og
strákarnir voru niðurlútir. Smám saman slaknaði þó á spennunni og
þeir reyndu að vera fyndnir. Eg var jafnvel farin að brosa. En það
hefur þó tæplega verið nema út í annað, því að í hvert skipti sem mér
flaug í hug það sem þeir kannski hefðu séð, kreppti ég hnefana og
herpti saman varirnar.
Þegar við vorum komnar undir sæng, sagði Maja:
— Strákarnir voru að tala um að það yrði ljótt ef þú skrifaðir
mömmu þinni og pabba um þetta með gardínuna. Eg held að þeir
sjái eftir þessu. En vatnsslagurinn var nú skemmtilegur, fannst þér
það ekki?
Jú, ég játti því, en bauð svo góða nótt og sneri mér til veggjar.
Nei, strákarnir gætu verið alveg rólegir. Eg segði pabba og
mömmu aldrei frá þessu, ég gæti það ekki. Eg skammaðist mín, en
vissi þó ekki almennilega hvers vegna. Það var líka svo sárt að geta
ekki trúað neinum fyrir áhyggjum sínum. Eg varð að berjast alein
við þetta vandamál mitt. Maja skildi þetta ekki einu sinni. En hvað
hún átti gott, svo gat hún líka sofið.
Eg lá lengi vakandi og gat ekki sofnað. Bænalestur kom ekki að
neinu haldi. Oljúfar hugsanir ásóttu mig ákaflega og erfitt reyndist
að bægja þeim frá. Mér kæmi ekki á óvart þótt ég hafi verið byrjuð á
Faðirvorinu í tíunda sinn, þegar svefninn kom loks og frelsaði mig
frá þessum dapurlegu hugsunum.
í mars 1981.
303