Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Page 46
Tímarit Máls og menningar
horft framhjá því sem mestu skiptir til skilnings á tæknihyggju nútímans, að
hún er hugsunarháttur sem grefur um sig ekki aðeins í starfsemi sem tekur
til ytri þátta veruleikans, heldur miklu fremur á hinu andlega sviði, í
mannlegum fræðum og listum, í almennri menntun, skólahaldi og umræðu,
ekki síður en á sviði hinnar margvíslegu tæknifræði. Tæknihyggjan er ekki
sjálf tæknilegt fyrirbæri; hún er allt annað en tækni; hún er fræðilegt eða
andlegt fyrirbæri sem tekur til allra þátta í starfsemi, samskiptum og
hugsunum manna. Fyrir atbeina hennar verður líkamleg erfiðisvinna smám
saman að fræðilegu úrvinnsluefni sem síðan er framkvæmt með vélum. Og
með hliðstæðum hætti verður fræðileg íhugun að verkefni sem tölvur leysa.
Þannig verður líkama manns jafnt sem sál hans ofaukið í heiminum. Það er
því engin furða að fólk taki að spyrja sig til hvers í ósköpunum það sé
yfirleitt til.
Það er þetta sem er að gerast í samtíma okkar. Segja má að tæknihyggjan
sé ekkert annað en ósamkvæm orðræða um veröldina í heild, orðræða sem
náð hefur fram að ganga í veröldinni og verða hlutskipti okkar. Ef þetta er
rétt, þá er aðeins ein hugsanleg leið til þess að bregðast við því hlutskipti.
Reyna að móta heilstæða orðræðu um veruleikann sem flettir ofan af
óheilindum, falsi og blekkingum þeirrar ósamkvæmu orðræðu sem gegnsýrt
hefur menninguna. Og til slíkrar viðleitni er mikið og gott veganesti að
finna í verkum Sigurðar Nordal.
36
i