Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Blaðsíða 82
Tímarit Máls og menningar
I rauninni má segja að þau séu fulltrúar andstæðra tilhneiginga sem svo
mjög einkenna manninn og mannlífið á öllum tímum. Annars vegar er
þörfin til þess að skapa sér fastan stað í tilverunni, t. d. fjölskyldu, hins
vegar er ævintýraþráin, þörfin fyrir að reyna stöðugt eitthvað nýtt.
Steinunn kveður upp þann dóm yfir Alfi að hann hafi í raun og veru
aldrei lifað. Hann hafi dvalið í draumum sínum og allar hans tilfinningar þar
af leiðandi verið.ímyndaðar. Sannleikur þessara orða birtist okkur m. a. í
því að Alfur hefur ekkert elst í útliti milli burtfarar og heimkomu þó gera
megi ráð fyrir að tugir ára hafi liðið.
Munurinn á lífi Alfs og Steinunnar er í stuttu máli sá að hann hefur lagt í
rústir en hún byggt úr rústum. Og þegar Alfi er orðið þetta ljóst verður lífið
honum óbærilegt. Hann ber í sér mein sín og þeim er ekki hægt að eyða.
Hann getur ekki lifað en þorir ekki heldur að deyja.
IV
Lokakaflinn, sem felur í sér endurlausn Alfs, rambar hvað mest á mörkum
draums og veruleika. Leið Alfs liggur í ríki gleymskugyðjunnar Heljar og
þar kveður hann upp harðan dóm yfir lífi sínu:
Ég hef leitað að einhverju til þess að leita að. Ég hef leitað að friði, fundið
baráttu, elskað baráttuna, af því að hún sló bjarma á vonina um frið. Ég hef
fórnað augnablikunum fyrir eitthvað, sem ég aldrei fann, og hefði heldur ekki
verið nema augnablik, ef ég hefði fundið það. Ég hef leitað að sjálfum mér og
týnt sjálfum mér. (151)
Jafnóðum fjarlægist hann sjálfan sig. Sál hans hefur sundrast við það að
reyna alla þá möguleika sem lífið og frelsi þess býður upp á. Kjarni málsins
er sá að raunverulegt líf er ekki fólgið í því að þamba sig fullan af lífsreynslu.
Slíkt hefur enga þýðingu þegar hinn innri maður þróast ekki með. Alfur
hefur leitað langt yfir skammt að tilgangi lífsins. Menn verða að leita hans í
sjálfum sér.
Eina von Álfs um endurlausn er fólgin í því að hann sé sviptur minninu —
látinn gleyma fortíðinni. Aðeins þannig getur hann vænst þess að finna
hamingju og frið. Þessa endurlausn lætur Hel honum í té og er hún í senn
umbun og refsing, því við það verður hann framandi sjálfum sér, glatar
sjálfsmynd sinni og byrjar upp á nýtt eins og barn.
Afturhvarf Álfs til hins einfalda sveitalífs var þannig einungis blekking.
Slíkt er ekki valkostur nútímamannsins sem komist hefur í kynni við
taktslátt tímans. Hæfileikinn til einfalds og heiðarlegs lífernis er glataður.
72