Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Síða 42
Og þá hefði það líka getað verið einhver kona að kaupa afþví hún var
í kápu. Svo er ég í mesta sakleysi að renna upp úlpunni; kemur hún
þá ekki öskrandi alveg hvað ég sé að gera. Einsog mér hafi ekki
brugðið? Koma svona og öskra á mann! Hvað ertu að gera krakki?
Ekkert, sagði ég. Hvað gat ég gert? Ekki gat ég farið að hlaupa út og
skilja Bíbí eina eftir. Ertu ekkert að gera nei. Hún var brjáluð. Titraði
öll og réðst svo á Bíbí. Já! Reif í smekkinn hjá henni. Og þá hefur talan
auðvitað slitnað frá og skoppað eitthvað. Svoleiðis hlýtur það að hafa
verið, hún reif í smekkinn. Jæja, hvað er þetta þá? Hún öskraði alveg.
Og hélt á rúsínupakkanum. Fatlað! Halda á rúsínupakka og spyrja
hvað þetta sé. Þetta er rúsínupakki. Ég hefði átt að segja það. En ég
vissi ekkert hvað ég átti að segja. Þá tók ég effir því að það vantaði tölu
á buxurnar hjá Bíbí. Hún var bara rugluð greyið og tók ekkert eftir
því að talan var horfin. Samt lafði smekkurinn öðru megin. Þú ert
búin að eyðilegga buxurnar hennar. Ég sagði þetta ósköp rólega. Ég
var allavegana eJdci með neina frekju. Ég hvað? Kellingin þóttist ekkert
vita. Þú sleist tölu af buxunum hennar. Ertu sjónlaus. Ertu geðbiluð?
Afþví hún er það líka. Fór að toga í mig og hrista mig alla. Nei heyrðu
mig nú Fröken Fix, þetta skaltu fá að endurtaka. Ferlega ógeðsleg.
Hrækti á mig þegar hún sagði þetta. Það svona frussaðist útúr henni.
AJveg brjáluð útaf einum rúsínupakka og fara svo að kalla mig Fröken
Fix eitthvað. Ég veit ekkert hvað ég hefði getað gert. Kannski eitthvað
hræðilegt. En þá var gamli kallinn kominn líka og sagði hvað eiginlega
væri á seyði. Þá fór hún auðvitað að gera sig merkilega, sleppti mér og
þóttist voða merkileg með sig: Nú er það ekki bara að þau móðgist ef
maður grípur þau, nú á maður líka að hafa eyðilagt fötin þeirra. Og
það er líka satt, sagði ég þá. Þú sleist tölu af buxunum hennar.
Aumingja Bíbí — hún stóð bara og skildi ekki neitt. Gamli kallinn
skildi heldur ekki neitt. Og þó svo ég hefði slitið tölu af buxunum,
sagði kellingin. Þó svo væri. Þá áttu að borga hana. Þú sleist töluna af
og nú er hún týnd. Ég gat ekkert farið heim með Bíbí og talan týnd.
Mér fannst það. Afþví ef hún týndist í búðinni þá mundi mamma
kannski spyrja um hana. Og þessvegna öskraði ég á móti. Þá spurði
gamli kallinn hvort þetta væri tilfellið, að hún hefði slitið tölu af
barninu. Og þó svo væri, sagði kellingin. Hún gat auðvitað ekkert sagt.
Og þó svo væri. Nú þá hlýtur talan að vera hérna, sagði kallinn. Það
var rétt hjá honum. Talan hlaut að vera þarna. En hún vildi ekkert
32
TMM 1996:1