Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Page 45
Ofsa klár. Alveg eins og þegar mamma var lítil, þá hélt hún að væri
pínulítið fólk inni í útvarpinu og Bíbí glápti bara á járnplötuna og hélt
að fólkið ætti að vera inni í götunum. Hún sá ekkert. Fattaði ekki að
loka öðru auganu og kíkja. Reyndu að loka öðru auganu og kíkja, sagði
ég. Annars sleppi ég þér. En hún sá ekkert. Og auðvitað sá hún ekkert.
Með bæði augun lokuð. Ég var að verða soldið þreytt á henni. Samt
reyndi ég að lyfta henni betur og halda fyrir annað augað á henni svo
að hún gæti kíkt. En þá hélt hún auðvitað að ég ætlaði ekki að leyfa
henni að sjá neitt. Hún var svo vitlaus og fattaði ekki að maður getur
ekkert séð ef maður er með bæði augun opin. Maður verður að loka
öðru auganu til að geta kíkt í gegnum lítið gat. Hún kunni það ekki.
Þetta var vonlaust. Og mér fannst ekkert þægilegt að standa þarna svo
ég lét hana niður. En þá byrjaði hún að væla. Ég vil sjá pabba, ég vil
sjá pabba. Þú getur ekkert séð hann. En þú sagðir að við færum að sjá
hann. Ég sagði það ekkert, ég sagði bara að við færum að sjá hvernig
pabbi er, afþví pabbi dó. En þú getur ekki kíkt nema þú kunnir að loka
öðru auganu. Þá geturðu séð. En það er ekki pabbi. Fólkið er bara eins
og hann er núna. Afþví hann dó. Það heita lík. Það er dáið fólk.
Stundum verður maður soldið þreyttur á henni. Ég sagði auðvitað
aldrei að við færum að sjá pabba. En það var vonlaust að tala við hana.
Ég vil ekki að pabbi dó, sagði hún. Þú getur ekkert sagt það, sagði ég,
þú getur ekkert ráðið því. Ég vil ekki heldur að hann sé dáinn, en ég
get ekkert ráðið því, ekki lét ég hann deyja. Jú, sagði hún þá. Ég hefði
getað lamið hana. Jæja, lét ég hann deyja? Já, og þú átt að láta mig sjá
hann, þú sagðist ætla að gera það. Ég gafst sko upp á því að tala við
hana. Ég sagði henni að við myndum bara labba heim. Þá varð hún
brjáluð, kastaði sér niður á stéttina og grenjaði og heimtaði að fá að
sjá pabba. Sama hvað ég gerði, hún neitaði að hlusta á mig. Hann er
ekkert hérna, sagði ég þá, ég hélt það bara. Hvað átti ég að gera? Það
var kona í hvítum slopp að horfa á okkur hjá bílastæðinu. Ekki gat ég
farið að láta Bíbí liggja þarna. Hún hefði aldrei ratað heim. Og kannski
máttum við ekki vera þarna svo ég sagði henni bara að ef hún hætti
að hugsa um þetta þá væri pabbi kannski heima. Ég vildi ekkert hafa
hana liggjandi þarna. Ef þú hættir að hugsa um það að hann sé dáinn,
þá er hann kannski ekkert dáinn. Og verður kannski heima þegar við
komum þangað. Eigum við að prófa það? sagði ég. Nei. Alltaf sama
frekjan. Nei. En hún fór samt að velta því fyrir sér. Að minnsta kosti
TMM 1996:1
35