Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Qupperneq 70
þrjú ár. Á þeim tíma fetaði hann leið sem liggur frá Boccaccio til Flauberts
og tókst að taka inn og kreista safann úr evrópskum prósa í þágu menningar
sem hafði ekki enn komist í kynni við hann.
Bakgrunnur Papadíamandis, áhugamál og hæfileikar gerðu það að verk-
um að hann var einkar vel í stakk búinn til að lyfta þessu grettistaki. Hann
var kominn af trúræknu og frómu fólki sem iðkaði sína grísk-orþódoxu trú
—faðir hans var prestur—og unni bókmenntum mjög þannig að andrúms-
loftið á æskuheimili hans var blanda af kviðum Hómers og kristnum sálm-
um. Hann var bláfátækur, kunni illa þeim tíðaranda sem krafðist þess að
menn stunduðu framapot og leitaði því fljótt skjóls í starfi þýðandans sem
veitti honum aðgang að bókmenntaperlum mannkynsins. Hann var mikill
háðfugl að eðlisfari og nýttist sá hæfileiki honum síðar við að viða fjölbreyti-
legum aðföngum að sér og skrifa upp úr þeim margvíslegar sögur sem varpa
ljósi á manneskju sem eftir aldalanga kyrrstöðu er skyndilega varpað út í
framandi, ógnarstóra veröld. Papadíamandis var einangraður órafjarri
menningu Evrópu, langt frá hinum miklu sögulegu draumórum samtíma
síns, hann skipti tíma sínum milli kráar og kirkju, en tókst engu að síður að
koma grískum bókmenntum aftur inn á heimskortið.
2. Smásaga frá 1900: Kátt í hverfinu
— Er hann dáinn?... er það satt?
— Hann var að gefa upp öndina.
— Og tók hann sakramentið?
— Á að jarða hann með prestum?
— Hann lifði ekki nema eitthvað fimmtán tíma.
Frá glugga að garðshliði, af verönd uppá flatþak, af jarðhæð uppá efri hæð
flögruðu snemma dags þessar vængjuðu samræður milli grannkvennanna.
Og mikil hnýsni hvarflaði léttilega um loftið.
— Aumingja móðirin! hún grætur og ber sér á brjóst.
— Faðirinn, greyið, hann er fjarstaddur.
— Og senda þau honum ekki sketi um að koma?
— Það er sagt þau hafi sent honum sketi.
— Hvar er hann?
— I Lívadíu, var mér sagt, eða í Lídóríkí.
— í Salóna, ekki í Lívadíu!
— Á Santóríní, ekki í Salóna!
— Aumingja móðirin, það mæðir allt á henni.
— Og var ekkert að sýta æsku sína?... Átján ára piltur, hugsaðu þér bara!
60
TMM 1996:1