Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Page 77
3. Bréf til samlanda
Pólverji nokkur sagði einu sinni við mig að Mickiewicz (1798-1855) —
skáldjöfur Pólverja— væri mun merkara skáld en Púskín. Ég varð alveg
forviða, horfði á hann furðu lostinn, hann sá hvaða spurning brann á vörum
mér og flýtti sér því að bæta við: „Pólverjar eru þeir einu sem geta skilið hann
til fulls.“ Þú ert eflaust líka að velta fyrir þér hvaða mælikvarða þessi ágæti
Pólverji hafi notað til að bera saman skáldin tvö og setja samlanda sinn skör
ofar. Það er einfalt mál: hann þjáðist af heiftarlegri þjóðrembu.
Fyrir tvö hundruð árum fylgdist Goethe með því hvernig skipaskurðum
fjölgaði, byggðir voru nýir vegir og fleiri siglingaleiðir voru opnaðar og taldi
réttilega að fyrst og fremst rithöfundar nytu góðs af þessum stórbættu
samskipta- og samgöngubótum; það var að ég held ástæðan fyrir því að hann
bætti því við að tími þjóðlegra bókmennta væri liðinn og að skeið heims-
bókmenntanna væri runnið upp. En hann gat ekki séð fyrir þann sjúkdóm
sem herjar á samtíma okkar og gerir það að verkum að jafnvel ágætustu
rithöfundar eru reyrðir í bönd þjóðernisins, eru einungis taldir hafa gildi fyrir
innfædda, eru gerðir að þjóðgörðum.
Ég er auðvitað að hugsa um Papadíamandis, og upp í huga minn kemur
Pólverjinn minn með sinn Mickiewicz, því þetta ástand ríkir víða og það er
alvarlegra en svo að við tveir getum axlað það. En höldum okkur við það
sem að okkur snýr. Afreksmenn okkar í íþróttum mega keppa hvar sem er í
heiminum, ríka fólkið okkar má spóka sig í París og London, og hvers vegna,
hvers vegna í ósköpunum má hann Papadíamandis okkar þá ekki reka nefið
út fyrir landamæri Grikklands og vera á boðstólum í bókabúðum og á
bókasöfnum erlendis? Því miður er raunveruleikinn erlendis honum átak-
anlega andsnúinn: framámenn í nokkrum menningarklúbbum muna eftir
honum þegar þeir skipuleggja sínar hundleiðinlegu samkomur; nokkrir
prófessorar í nýgrískum fræðum sinna honum eitthvað —enda verða þeir
jú að sinna einhverjum rithöfundum; þá sjaldan verk hans eru þýdd er þeim
ævinlega fylgt úr hlaði frá mjög grísku sjónarhorni. Hingað til hef ég ekki
rekist á nokkurn einasta erlendan rithöfund, ekki nokkurn einasta góðan
lesanda heimsbókmennta sem hefur heyrt verka Papadíamandis getið.
Er Papadíamandis þá ekki mikill höfundur? Jú, en bókmenntagagnrýnin
okkar er smá í sér, skammsýn. Og svo þverstæðukennt sem það kann að
hljóma, þá er þessi smæð gagnrýninnar tengd aldeilis óendanlegri útþenslu
á öðru sviði: Papadíamandisfræðunum. Ýmiskonar skrif um Papadíamandis
sem nú eru orðin gríðarleg að umfangi — ein blaðsíða eftir Papadíamandis
á móti tuttugu blaðsíðum túlkenda hans — hún þenst út af sjálfri sér, tútnar
út, nærist á sjálfri sér, breytist smám saman í æxli sem dregur allan mátt úr
TMM 1996:1
67