Tímarit Máls og menningar - 01.03.1996, Síða 108
hann hefur borið saman strengjahljóðfæri eftir samanburðarreglunni því
eldri, því betri, tekur hann til við að sannfæra lesendur TMM um að yngri
skáld geti ekki ort. í það minnsta ekki í augum þeirra er kunna að lesa. Því
til sönnunar nefnir hann tvö ungskáld sem hafi gloprað því út úr sér að Ijóð
séu þeim grafísk fyrirbæri, „mislangar ræmur niður síðurnar“. Nú er það svo
að á þessum síðustu og eflaust verstu þegar flestir, þ.á.m. Haukur, lesa frekar
ljóð en hlýða á þau, verða ljóð líkt og aðrir textar grafísk mynd á blaði. Það
eitt getur ekki talist sönnun þess að yngri skáldin geti ekki ort né heldur „að
flest yngri skálda ráði ekki við formið“. Eins og Haukur bendir réttilega á
hafa vond skáld ævinlega verið og verða sennilega um ókomna tíð fjölmenn-
ari góðskáldunum og þeim fyrrnefndu hefur æ verið og verður mishægt um
form, hvort sem það telst bundið eða nefhist því misvísandi og mótsagna-
kennda heiti „óbundið form“. En er þá ekki mest um vert að ryðja burt þeim
vondu og lítt formkunnandi skáldum? Má vera en þó er það úr þeim grýtta
jarðvegi sem spretta skrautblóm skáldskaparins. Þetta hygg ég að Hauki sé
mætavel ljóst enda er hann ekki að spúla út leirskáldum heldur flengja einn
þann „frambærilegasta af síðari mönnum“ að eigin sögn. ísak Harðarson og
hans ágæta bók Stokkseyri verður því að ósekju blóraböggull grundvallar-
vandlætingarinnar. Það er því ástæðulaust og gengur reyndar í berhögg við
allan málflutning ritdómarans Hauks Hannessonar, að hann skuli harma að
skáldskapur ísaks Harðarsonar og eflaust annarra af sömu kynslóð, nái ekki
að festa rætur í hugskoti sínu. Þess er engin von að í jarðvegi jafn þétttroðn-
um fordómum nái nokkuð að festa rætur enda þrifist þar varla nokkur rót
fyrir kjúkum góðskáldanna.
Steinn Steinarr skáld hélt allfræga ræðu á deilufundi um nýmæli í ljóða-
gerð árið 1952 og komst m.a. svo að orði:
„Hvert tímabil finnur listform við sitt hæfi, sem vex, þróast, hrörn-
ar og deyr að lokum, án þess að nokkur geti hindrað að svo fari. Á
öllum öðrum öldum er þetta listform ófært til sjálfstúlkunar og
ekki er ffemur hægt að endurtaka list hins liðna, en jarðarför, sama
hve vel hefur heppnast."
Það væri óskandi að Haukur Hannesson kæmi fram í fullum útfararskrúða
fremur en í sauðargæru ritdómarans næst þegar hann rífur upp hrís til
hirtingar ungmennum. Eflaust í dauðans alvöru, hann getur huggað sig við
að hún er í senn klassísk og hæfir skrúðanum.
98
TMM 1996:1