Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.02.2015, Blaðsíða 4
Máttu ekki undanskilja kostnað
Áfrýjunarnefnd neytendamálastaðfesti í gær að smálána-fyrirtækin Hraðpeningar,
Múla og 1909, sem öll eru í eigu
Neytendalána ehf., hafi brotið lög
um neytendalán með því að halda
kostnaði sem þau rukka fyrir láns-
hæfismat utan við uppgefna árlega
hlutfallstölu kostnaðar, sem skylt
er að veita lántaka upplýsingar um
þegar lán er tekið.
Áður hafði áfrýjunarnefndin
staðfest ákvörðun Neytendastofu
gagnvart Smálánum og Kredia um
að þau hefðu brotið lögin með
sama hætti.
Brot fyrirtækjanna snúa að því
hvernig þau birta heildarlántöku-
kostnað. Samkvæmt lögunum um
neytendalán má árleg hlutfallstala
kostnaðar ekki vera hærri en 50%.
„Árlegri hlutfallstölu kostnaðar
skal lýst sem árlegu hlutfalli af
heildarfjárhæð sem neytandi greið-
ir,“ segir í lögunum. Smálánafyr-
irtækin rukka lántaka fyrir að
gera lánshæfismat og hjá þeim
kostar lánshæfismatið 5.500 krónur
sé lánið afgreitt strax. Kostnaður
vegna matsins er hins vegar ekki
tekinn með í útreikning þeirra á
árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem
samkvæmt lögunum á að end-
urspegla heildarkostnað við lántök-
una.
Forsaga málanna er sú að í júní
2014 tók Neytendastofa tvær
ákvarðanir og beitti í fyrsta sinn
stjórnvaldssektum vegna brota á
lögum um neytendalán.
Gefa upp 55% kostnað
þegar reyndin er 3.214%
Önnur ákvörðunin sneri að Smá-
lánum ehf. og Kredia ehf., sem eru
í eigu sama aðila, og í henni segir
að fyrirtækin hafi brotið gegn 26.
grein laga nr. 33 um neytendalán
„með því að innheimta kostnað af
lánum sem nemur 3.214,0% árlegr-
ar hlutfallstölu kostnaðar“.
Smálán og Kredia skutu málinu
til áfrýjunarnefndar neytendamála
sem í staðfesti ákvörðun Neyt-
endastofu í nóvember 2014. Fyr-
irtækin hafa ekki breytt viðskipta-
háttum sínum og því var tilkynnt í
vikunni að Neytendastofa hygðist
beita þau dagsektum. Fyrirtækin
geta áfrýjað þeirri ákvörðun á ný
til áfrýjunarnefndar neytendamála
innan tveggja vikna.
Hin ákvörðunin sem Neyt-
endastofa tók í júní í fyrra sneri
að Neytendalánum ehf. sem veitir
smálán undir merkjum Hraðpen-
inga ehf., Múla ehf. og 1909 ehf.
Taldi Neytendastofa þau hafa brot-
ið gegn 26. grein laga nr. 33 um
neytendalán „með því að innheimta
kostnað af lánum sem nemur
2.036,6% árlegrar hlutfallstölu
kostnaðar“.
Ákvörðuninni var einnig skotið
til áfrýjunarnefndar neytendamála
sem skilaði sinni niðurstöðu í vik-
unni um að hún staðfesti þá
ákvörðun Neytendastofu einnig.
Öllum fimm fyrirtækjunum var
gert að greiða 250.000 krónur í
stjórnvaldssektir, en með dagsekt-
arákvörðuninni þurfa Smálán og
Kredia nú að greiða sömu upphæð
dag hvern þar til þau breyta sínum
háttum. Líklegt verður að teljast
að hin fyrirtækin verði einnig beitt
dagsektum fari þau ekki eftir fyrri
ákvörðunum um breytta hætti.
Gögn um viðskiptahætti smá-
lánafyrirtækja liggja ekki á lausu.
Líkt og komið hefur fram í um-
fjöllun Morgunblaðsins um
smálánafyrirtækin eru þau ekki
starfsleyfisskyld og ekkert op-
inbert eftirlit er með starfsemi
þeirra.
Neitað um lán nema
greiða flýtigjald
Samkvæmt upplýsingum blaða-
manns eru dæmi um að smálána-
fyrirtæki búi beinlínis til hvata fyr-
ir lántakendur til að greiða hið
svokallaða flýtigjald sem þau segja
að fari til greiðslu á lánshæfismati.
Þetta gera fyrirtækin með því að
neita fólki um lán nema það greiði
flýtigjald, sem aftur hækkar kostn-
að lánsins frá hinum löglegu 50%
upp í áðurnefndar prósentutölur
sem hlaupa á þúsundum.
Lántaki sem átt hefur viðskipti
við smálánafyrirtæki fékk neitun
um lán þegar hann valdi mögu-
leikann að bíða í átta daga eftir að
fá lánið afgreitt, ástæðan sögð sú
að lánshæfismat hans væri ekki
nógu gott. Neitunin barst viku eftir
að sótt var um, en þann sama dag
sótti hann aftur um lán, en þá með
flýtigjaldi, og sú umsókn var sam-
þykkt og smálánið afgreitt án
vandkvæða. Með öðrum orðum þá
var umsækjandi ekki metinn hæfur
til að fá lán án flýtigjalds en þegar
hann lýsti sig reiðubúinn til að
greiða gjaldið var lánshæfi hans
skyndilega talið betra.
Mat á lánshæfi einstaklinga
breytist ekki frá degi til dags eða
frá viku til viku. Áður hefur komið
fram í umfjöllun um þessi mál að
dæmi er um lántaka sem tók 13
smálán á fimm dögum og í hvert
skipti var gert nýtt lánshæfismat,
jafnvel þótt lánin væru tekin hjá
sama fyrirtæki. Samkvæmt upplýs-
ingum frá Creditinfo hefur það
ekkert upp á sig að kanna lánshæfi
einstaklings oft með stuttu millibili.
Lánshæfismat er spá um líkindi
á alvarlegum vanskilum á næstu 12
mánuðum. Ítrekaðar uppflettingar
á t.d. 30-60 daga tímabili hafa því
mjög takmarkað gildi.
40-60-falt dýrara að taka
smálán en gefið er upp
Með nýjustu niðurstöðu Áfrýj-
unarnefndar neytendamála hefur
verið staðfest að smálánafyrirtækin
gefa upp kostnaðartölur til lántaka
sem eiga ekki við rök að styðjast.
Raunkostnaður lánanna er 40-60-
falt hærri en tölur þeirra um heild-
arkostnað, mældar sem árleg hlut-
fallstala kostnaðar, segja til um.
Neytendur sem hafa átt viðskipti
við smálánafyrirtæki og telja sig
hlunnfarna geta farið með mál sín
til úrskurðarnefndar um viðskipti
við fjármálafyrirtæki sem vistuð er
hjá Fjámálaeftirlitinu. Upplýsingar
um nefndina og hvaða gögn þurfa
að fylgja málum sem henni eru
send má finna á www.fme.is með
því að smella á eftirlitsstarfsemi og
því næst úrskurðarnefndir.
Nú þegar hafa tvö mál borist
nefndinni vegna smálánafyrirtækja.
Morgunblaðið/Golli
ÁFRÝJUNARNEFND NEYTENDAMÁLA HEFUR NÚ STAÐFEST AÐ ÖLL SMÁLÁNAFYRIRTÆKI HAFI BROTIÐ LÖG MEÐ ÞVÍ AÐ TAKA GJALD SEM
ÞAU INNHEIMTA VEGNA LÁNSHÆFISMATS ÚT FYRIR SVIGA ÞEGAR LÁNTAKI FÆR UPPLÝSINGAR UM HEILDARKOSTNAÐ VIÐ LÁN.
NEYTENDASTOFA HEFUR LAGT DAGSEKTIR Á SMÁLÁNAFYRIRTÆKIN SMÁLÁN OG KREDIA OG LÍKUR ERU Á AÐ EINNIG VERÐI LAGÐAR DAGSEKTIR Á
HRAÐPENINGA, 1909 OG MÚLA, TIL VIÐBÓTAR VIÐ FYRRI STJÓRNVALDSSEKTIR, FARI ÞAU EKKI AÐ TILMÆLUM UM BREYTTA VIÐSKIPTAHÆTTI.
Fyrirbærið lánshæfismat gengur
út á að meta hversu hagfellt er
að veita einstaklingi lán. Lánshæf-
ismat er skýrt út með eftirfar-
andi hætti í lögum um neytenda-
lán:
„Mat lánveitanda á lánshæfi
lántaka byggt á upplýsingum sem
eru til þess fallnar að veita áreið-
anlegar vísbendingar um líkindi
þess hvort lántaki geti efnt láns-
samning. Lánshæfismat skal byggt
á viðskiptasögu aðila á milli og/
eða upplýsingum úr gagna-
grunnum um fjárhagsmálefni og
lánstraust. Lánshæfismat felur
ekki í sér greiðslumat nema slíkt
sé áskilið sérstaklega.“
Sé engin viðskiptasaga til milli
lántaka og lánveitanda má sá síð-
arnefndi, að fengnu samþykki
lántaka, „byggja mat sitt eingöngu
á upplýsingum úr gagnagrunni
þriðja aðila um fjárhagsmálefni
og lánstraust“, eins og stendur í
reglugerð um lánshæfis- og
greiðslumat.
Fyrirtækið Creditinfo er eina
fyrirtækið hér á landi sem býður
þessa þjónustu. Samkvæmt
verðskrá kostar lánshæfismat
einstaklinga, sem hver og einn
getur pantað fyrir sjálfan sig,
590-790 krónur. Raunar er mat-
ið ókeypis út febrúar fyrir áhuga-
sama um eigið lánshæfi.
Hraðpeningar, Múla og 1909
nota sænskt fyrirtæki sem heitir
CreditCheck til að framkvæma
sitt lánshæfismat. Það fyrirtæki
kaupir aftur sínar upplýsingar af
Creditinfo, líkt og kemur fram á
vefsíðu sænska fyrirtækisins.
Smálán og Kredia kaupa matið
hjá Creditinfo eftir því sem kem-
ur fram í lánaskilmálum fyrirtækj-
anna.
Engin rök fyrir bið
eftir lánshæfismati
Smálánafyrirtækin rukka 5.500
krónur fyrir að gera lánshæfis-
mat og kalla það „flýtigjald“.
Greiði lántakendur ekki gjaldið
geta þeir þurft að bíða í allt að
átta daga eftir að fá svar um
hvort smálán fæst. En líkt og
hver og einn getur nú sannreynt
með því að sækja eigið lánshæf-
ismat á vef Creditinfo tekur ekki
mikið meira en átta sekúndur að
fá í hendur lánshæfismat fyrir
einstakling. Mat á lánshæfi er sett
fram sem A-E-flokkar. Áhættu-
minnst er að lána þeim sem eru í
flokki A1. Í A-flokk raðast lán-
takar sem talið er að 0-0,49%
líkur séu á að lendi á vanskila-
skrá. Mest áhætta er fólgin í því
að lána þeim sem hafna í flokki
E3, en taldar eru 22,59-100% lík-
ur á að lántakar í E-flokki lendi á
vanskilaskrá.
Lántakendur í E-flokki fá ekki
lán hjá Hraðpeningum, Múla og
1909. Hjá Smálánum og Kredia
er engum neitað um lán sem á
annað borð er ekki á vanskila-
skrá. Þar skiptir flokkun sam-
kvæmt lánshæfismati ekki máli,
aðeins hvort viðkomandi er nú
þegar á vanskilaskrá eða ekki.
HVAÐ ER LÁNSHÆFISMAT?
* Árleg hlutfallstala kostnaðar er heildarlántökukostnaður,lýst sem árlegum hundraðshluta láns. Óheimilt er aðveita lán ef þessi tala er hærri en 50%.ÞjóðmálEYRÚN MAGNÚSDÓTTIR
eyrun@mbl.is
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1.2. 2015