UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 6
6
Þjónustustig opinberra aðila:
1. Upplýsingar um þjónustu eru á vef stofnunar.
. Samskipti eru í eina átt. Eyðublöð eru á vefnum og hægt
er að prenta þau út.
3. Gagnvirk samskipti eru fyrir hendi. Þetta þýðir að eyðu-
blöð eru á vefnum og hægt er að fylla þau út og skila inn
á Netinu.
4. Rafræn málsmeðferð. Erindið er afgreitt algerlega á
Netinu. Hvergi er þörf á pappírsgögnum né að viðskipta-
vinurinn mæti á staðinn.
Einfaldara Ísland
Gátlisti vegna nýrra lagafrumvarpa, einföldun gildandi laga og reglna og bætt þjónusta hins opinbera á
Netinu eru meðal verkefna til að ná markmiðum um einföldun stjórnsýslunnar á Íslandi.
Íslensk stjórnsýsla er mörgum góðum kostum
búin, t.d. er viðmót persónulegra en gengur og
gerist hjá öðrum þjóðum og sveigjanleiki oft
meiri. Hins vegar vill það brenna við að lög og
reglur séu óþarflega flóknar og stundum getur
verið tafsamt að fá úrlausn sinna mála. Má
nefna sem dæmi nýlega athugun umboðsmanns
Alþingis sem sýndi að nokkur misbrestur er á
að stjórnvöld svari erindum innan eðlilegra
tímamarka og dæmi eru um að mál dagi uppi.
Ríkisstjórnin ákvað haustið 2005 að efna til
gæðaátaks undir kjörorðinu Einfaldara Ísland.
Markmiðið er að einfalda og bæta opinbert
regluverk og stjórnsýslu. Með þessu er fyrirhugað
að bæta starfsskilyrði fyrirtækja og auka
þannig samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
En að sama skapi er ljóst að bætt vinnubrögð
í stjórnsýslunni munu koma öllum almenningi til
góða. Beinn og óbeinn kostnaður hins opinbera,
atvinnulífs og almennings af flóknum reglum og
tafsamri stjórnsýslu er ómældur. Það er því til
mikils að vinna.
Auðvitað mætti segja að stjórnsýslan ætti í raun
alltaf að hafa þessi markmið að leiðarljósi og því skjóti skökku við að
efna til tímabundins átaks. En í amstri dagsins vill gjarnan gleymast að
hugsa um notandann og þá sem þurfa að fara eftir reglum þeim sem hið
opinbera setur. Þá vill það brenna við að byrðar séu lagðar á fyrirtæki,
til dæmis um upplýsingagjöf til yfirvalda, án þess að mat sé lagt á þann
kostnað sem af hlýst og hvort hann sé forsvaranlegur. Þess vegna er hollt
að setja gæðastarf af þessu tagi í forgang og leita leiða til að ná úrbótum
með einföldum en árangursríkum hætti.
Við svo umfangsmikið verkefni er mikilvægt að ganga skipulega til verks
og setja sér raunhæf markmið. Byrjað er á tiltölulega einföldum og
ódýrum aðgerðum sem geta skilað sér margfaldlega í bættri stjórnsýslu
og notendavænni löggjöf.
Gátlisti vegna lagafrumvarpa
Á skal að ósi stemma, segir hið fornkveðna. Stefnt er að
því að bæta vinnubrögð af hálfu ráðuneyta við undirbúning
lagasetningar. Þar er einkum horft til þess að í auknum
mæli sé lagt mat á áhrif fyrirhugaðrar lagasetningar og
dregnir fram kostir og gallar þeirrar leiðar sem lögð er til.
Ennfremur sé með skipulagðari hætti efnt til samráðs við
hagsmunaaðila og almenning áður en frumvörp eru lögð
fram á Alþingi af hálfu ríkisstjórnar. Með þessum hætti
verða mál betur undirbúin þegar að því kemur að fjalla um
þau á Alþingi. Verkefnið er nú farið vel af stað. Frá og með
síðustu áramótum gildir að þeir sem semja stjórnarfrumvörp
verða að láta fylgja útfylltan gátlista sem stuðlar að því að
gætt sé að ofangreindum lykilatriðum.
Einföldun laga og reglna
Gert er ráð fyrir að farið verði skipulega yfir gildandi
lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd og sett raunhæf
markmið um úrbætur. Hvert ráðuneyti á að setja sér
einföldunaráætlun fyrir 1. sept. 2007. Ráðuneytin hafa að
sjálfsögðu svigrúm til að ákveða hvað sett verður á oddinn
í slíkri áætlun. Þess má geta að samgönguráðuneytið
hefur unnið ákveðið brautryðjendastarf í þessum
efnum með átaki gegn skriffinnsku sem nú stendur yfir.
Einföldunarstarfið getur til dæmis falist í því að yfirfara
og uppfæra gamla lagabálka, fella úr gildi úrelt ákvæði,
t.d. reglugerðir sem ekki hafa lengur þýðingu, og eyða
ósamræmi í lögum sem gilda um hliðstæð efni, allt út frá
þeim sjónarhóli að löggjöfin verði aðgengilegri, einfaldari
og notendavænni.
Bætt þjónusta á Netinu
Litið er til rafrænnar stjórnsýslu til að spara viðskiptavinum sporin. Með
rafrænni stjórnsýslu er átt við að upplýsingatæknin sé nýtt til að bæta
aðgengi að stjórnsýslunni og þjónustu hennar, til að lækka kostnað við að
sækja og veita þjónustuna og til að auka gæði hennar. Ljóst er að þarna
eru mörg sóknarfæri. Vissulega getur stofnkostnaður verið nokkur en slík
verkefni ættu í flestum tilvikum að borga sig upp innan fárra ára.
Sérstaklega má nefna Netið í þessu sambandi en þar bjóðast möguleikar
sem eru vel fallnir til að stytta og einfalda afgreiðsluferli erinda til hagræðis
fyrir notendur. Nú þegar eru nánast allar opinberar stofnanir með vefi og
hægt er að nálgast upplýsingar um þjónustu þeirra. Vefurinn Ísland.is mun
bæta um betur og auðvelda notendum að finna upplýsingar og þjónustu
án þess að þeir þurfi að vita hvaða stofnun eða ráðuneyti er ábyrg. Auk
þessa eru margar stofnanir með ýmiss konar umsóknareyðublöð, vel
á annað þúsund, á vefjum sínum. En betur má ef duga skal. Nú eru á
markaði ýmsar tiltölulega aðgengilegar lausnir sem gera stofnunum kleift
að bjóða upp á skil eyðublaða á Netinu. Með tilkomu rafrænna skilríkja
verða einnig yfirunnar hindranir varðandi auðkenningu notendanna og
undirskrift eyðublaðanna þar sem það á við.
Forsætisráðuneytið hefur sérstaklega hvatt til verkefna sem snúa að bættri
þjónustu við notendur, almenning og fyrirtæki, og rafræn skil á eyðublöðum
eru mikilvægur liður í því. Ýmsar stofnanir hafa þegar stigið þessi skref og
gott betur og má sérstaklega nefna þjónustuvef ríkisskattstjóra í þessu
sambandi. Myndin lýsir þeim skrefum sem opinberir aðilar geta tekið til
að bæta þjónustu við notendur. Þar er til mikils að vinna, bæði fyrir hið
opinbera og almenning og fyrirtækin í landinu og ljóst er að umtalsverður
ávinningur í formi minni skriffinnsku og hagræðingar í stjórnsýslunni er
handan við hornið í þessum efnum.
Höfundar:
Halla Björg Baldursdóttir, verkefnisstjóri í rafrænni stjórnsýslu, forsætisráðuneyti.
Páll Þórhallsson, lögfræðingur, forsætisráðuneyti.
Halla Björg Baldursdóttir.
Páll Þórhallsson.