UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 10
10
Leiðarvísir um opinbera þjónustu
Ísland.is er upplýsinga- og þjónustuveita með heildstæðum upplýsingum um þá þjónustu sem í boði er á
vegum ríkis og sveitarfélaga. Þar verður notendum vísað á upplýsingar og þjónustu sem til staðar eru og
á nánast öll eyðublöð sem eru á vefjum ríkisstofnana í þeim efnisflokkum sem vefurinn nær til.
Verkefnið Ísland.is er metnaðarfullt langtímaverkefni sem verður í stöðugri
þróun á næstu árum og mun nýta sér nýjustu tækni og aðferðir á hverjum
tíma. Þróunin mun að hluta til haldast í hendur við þróun vefja ríkis og
sveitarfélaga því Ísland.is beinir notendum sínum á þá opinberu vefi sem
veita upplýsingar og þjónustu. Stuðlað verður að því að gagnvirk þjónusta á
Ísland.is aukist hratt á næstu misserum, en með gagnvirkri þjónustu er átt
við að almenningur og fyrirtæki geti sinnt erindum sínum við opinbera aðila
frá heimilistölvunni eða hvar sem hentar og á hvaða tíma sólarhringsins
sem er. Mikið hagræði er af slíkri þjónustu því hún sparar almenningi,
vinnuveitendum og þjónustuveitendum bæði tíma og fé. Gagnvirk eyðublöð
eru lykilatriði í þessari þróun en í heild má þegar finna á annað þúsund
eyðublöð á vefjum ríkis og sveitarfélaga. Stærstur hluti
þeirra er nær eingöngu til útprentunar en væntingar eru
um að í náinni framtíð verði hægt að fylla þessi eyðublöð
út á vefnum og skila þeim inn rafrænt. Á Ísland.is er einmitt
vísað á eyðublöð sem finna má á opinberum vefjum.
Hvað finnur þú á Ísland.is?
Á Ísland.is eru nokkuð umfangsmiklar upplýsingar fyrir
almenning sem hugmyndin er að mæti þörf á ákveðnu
tímaskeiði í lífinu eða við tilteknar aðstæður sem flestir
standa frammi fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni. Þörfin
fyrir upplýsingar eða þjónustu gæti skapast við væntanlega
fjölgun í fjölskyldunni, þegar nám er skipulagt, þegar haldið
er í ferðalag eða við andlát nákomins ættingja. Reynt verður
eftir fremsta megni að hafa texta vefsins aðgengilegan og
framsetningu efnis skýra og hnitmiðaða. Segja má að Ísland.is sé eins
konar leiðarvísir að opinberri þjónustu. Það er því ekki lengur þörf á að vita
hvert á að snúa sér til að leita að upplýsingum.
Grunnupplýsingar um öll sveitarfélög og stofnanir á vegum ríkisins eru
á Ísland.is og er hægt að nálgast þær eftir landshlutum eða stafrófsröð.
Eyðublöð er hægt að nálgast eftir stafrófsröð, leit eða eftir efnisflokkum.
Lögð er áhersla á að þjóna sem flestum hópum og má í því samhengi
nefna upplýsingar fyrir innflytjendur sem verða á nokkrum tungumálum.
Þá er gert ráð fyrir að boðið verði upp á orðskýringar á 1.000 orðum sem
munu gagnast innflytjendum og reyndar öllum notendum vefsins.
Við hönnun vefsins var lögð mikil áhersla á að gera vefinn aðgengilegan
fyrir sem flesta, þar með talið blinda og sjónskerta. Á vegum stjórnarráðsins
hefur verið unnið ötullega að aðgengismálum fyrir vefi ráðuneytanna og
verður í einu og öllu tekið mið af þeim reglum og viðmiðum sem þar hafa
mótast. Á Ísland.is er einnig boðið upp á nýja vefþjónustu, Stillingar.is, en
hún er fyrir þá notendur sem eiga erfitt með lestur af ýmsum orsökum.
Hægt er til dæmis að breyta lit á letri eða breikka bilið á milli stafa.
Efnisflokkar
Efninu er skipt upp eftir efnisflokkum og því ætti að vera auðvelt að finna
það sem leitað er að. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur vill fá
upplýsingar um búferlaflutninga getur hann farið inn á Ísland.is og fengið
leiðbeiningar um það helsta sem hann þarf að gera við þær aðstæður. Þar
eru einnig tenglar á þá vefi sem hafa með þessi mál að gera. Hægt er að
leita eftir atriðisorðum, efnisflokkum eða með frjálsri leit með Emblu, hinni
öflugu íslensku leitarvél. Það er ljóst að við opnun þjónustuveitunnar verða
efnisflokkarnir ekki tæmandi. Ísland.is verður lifandi vefur þar sem stöðug
þróunarvinna og viðbætur verða á efni vefsins.
Á Ísland.is eru 12 efnisflokkar:
• Atvinnulíf • Búseta/heimili • Efri árin
• Ferðalög og samgöngur • Fjármál • Fjölskyldan
• Heilsa • Innflytjendur • Mannlíf
• Menntun • Neytendamál • Öryrkjar/fatlaðir
Samantekt
Eins og fram hefur komið er verkefnið Ísland.is umfangsmikið lang-
tímaverkefni sem á sér langan aðdraganda. Með því er stigið stórt skref
til að mæta þörfum almennings og fyrirtækja fyrir aðgengi að opinberri
þjónustu. Benda má áhugasömum á eftirfarandi erlendar upplýsinga-/
þjónustuveitur:
• www.direct.gov.uk • www.suomi.fi • www.norge.no • www.borger.dk
• www.firstgov.gov • www.sverige.se
Þjónustuveitan Ísland.is opnuð 7. mars:
Fjóla Agnarsdóttir.
Höfundur: Fjóla Agnarsdóttir, verkefnisstjóri Ísland.is, forsætisráðuneyti.