UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 18
18
Fjölhæfari en auðkennislyklar
Fyrir rúmu ári fór að bera á innbrotum í netbanka hér á Íslandi. Í framhaldi af því hófu bankar og sparisjóðir
í samstarfi við Auðkenni að skoða öryggislausnir til að auka öryggi í netbönkum. Fyrsta lausnin felst
í auðkennislykli með aðgangsnúmeri sem breytist í hvert sinn sem notandi skráir sig inn á netbanka.
Samhliða hafa bankar og sparisjóðir unnið að uppbyggingu á dreifilyklaskipulagi með rafrænum skilríkjum
sem er fjölhæf lausn og tryggir öryggi til framtíðar.
Á síðustu vikum hafa einstaklingar fengið auðkennislykla í hendurnar og
ættu allir notendur netbanka að vera farnir að nota lyklana innan skamms.
Auðkennislykillinn er lítið tæki sem birtir nýtt sjö stafa númer á skjá í hvert
skipti sem þrýst er á hnapp sem er á tækinu. Þetta númer er framkallað
með ákveðnu algrími, teljara og dulmálslykli sem er einstakt fyrir sérhvern
auðkennislykil. Í auðkennislyklinum eru engar upplýsingar um notandann
sjálfan heldur er lykillinn tengdur notandanum á netþjóni sem er staðsettur
hjá Reiknistofu bankanna. Í hvert skipti sem notandi auðkennir sig inn í
netbankann sinn er auðkennisnúmerið sem notandi slær inn á vefsíðu
netbankans sent til Reiknistofu bankanna og það sannreynt. Ef númerið
er rétt fær notandi að halda áfram, annars ekki. Þessi lausn byggist á
því að teljarinn sem er í tækinu sé í takt við teljarann á netþjóninum sem
sannreynir númer notandans.
Auðkenning með vottuðum skilríkjum
Rafræn skilríki byggjast á dreifilyklaskipulagi. Í dreifilyklaskipulagi eru tveir
lyklar; einkalykill sem er aðeins aðgengilegur eiganda sínum og dreifilykill
sem er opinber og gerður aðgengilegur þeim sem þurfa á honum að
halda. Lyklaparið er notað til auðkenningar, sannvottunar og undirritunar.
Einnig er hægt að nota lyklapar í dreifilyklaskipulagi til dulritunar gagna.
Rafræn skilríki eru rafrænt form sem inniheldur meðal annars upplýsingar
um einstakling ásamt dreifilykli. Ein af öruggari leiðunum til varðveislu
rafrænna skilríkja er að vista þau á snjallkortum þar sem þau eru læst
í örgjörva. Þessar upplýsingar og tenging þeirra við einstakling og
lyklaparið hafa verið sannvottaðar af vottunarþjónustu sem fólk treystir.
Vottunarþjónustan hefur þá skrifað undir skilríkið með rafræna einkalykli
sínum. Allir geta sannreynt að undirritun skilríkjanna sé rétt og gild og að
viðkomandi skilríki sé í gildi. Rafræn skilríki geta innihaldið margs konar
nytsamlegar upplýsingar, svo sem kennitölu handhafa þess, netfang
o.fl. Með rafrænum skilríkjum má einnig votta tengsl milli fyrirtækja,
einstaklinga og búnaðar. Ákveðinni vottunarstefnu þarf að fylgja við
útgáfu á skilríkjum. Þessi vottunarstefna er öllum aðgengileg sem vilja
vita hvernig vottunin fer fram og staðfesta þannig það traust sem fylgir
skilríkjunum.
Traustið má rekja til útgefanda
Það er því mikill munur á auðkennislykli og rafrænum skilríkjum.
Auðkennislykil er ekki hægt að nota til auðkenningar nema innan þess
kerfis sem hann er í, t.d. í netbönkum. Það er ekki hægt að fara með
auðkennislykil í annað kerfi til þess að auðkenna sig. Auðkennislyklarnir
eru því notaðir í lokuðu umhverfi sem tiltekinn hópur ákveður að treysta.
Engar persónulegar upplýsingar er hægt að vinna úr lyklinum. Rafræn
skilríki er hægt að nota í hvaða kerfi sem er svo fremi að sömu stöðlum í
útfærslu sé fylgt. Með rafrænum skilríkjum er hægt að rekja traustið sem
borið er til skilríkisins í hvaða kerfi sem er. Það er hægt að rekja traustið
til útgefanda og þar með taka ákvörðun um hvort treysta eigi skilríkinu
eða ekki. Rafræn skilríki tryggja einnig heilleika gagna sem eru rafrænt
undirrituð og gera mögulegt að dulrita gögn. Auðkennislykla er ekki
hægt að nota til þess að viðhalda heilleika gagna né til þess að dulrita.
Í framtíðinni munu rafræn skilríki væntanlega leysa auðkennislyklana af
hólmi í innskráningu í netbanka þótt auðkennisnúmer verði vafalítið notuð
í sérstökum tilvikum.
Rafræn skilríki:
Höfundur: Sverrir Bergþór Sverrisson, Auðkenni hf.
Öruggar spjallrásir
Spjall á Netinu er vinsælt tómstundagaman hjá ungu fólki – en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum
undanfarið er það þó ekki alveg hættulaust. Dæmi eru um að fullorðnir villi á sér heimildir og geri þannig
tilraun til þess að komast í samband við börn, sbr. umfjöllun í sjónvarpsþættinum Kompás í janúar.
Meðal spjallforrita sem vinsæl eru meðal ungs fólks má nefna MSN,
Yahoo! og Skype. Öll leyfa þau myndbirtingu, vefmyndavél, samskipti með
aðstoð hljóðnema og skráaskipti, en krefjast ekki auðkenningar notenda.
Því er mikilvægt verkefni fyrir samfélagið að vera vakandi yfir netnotkun
ungs fólks, fræða það um kosti og galla Netsins og stuðla almennt að
auknu öryggi í samskiptum á Netinu.
Skilríki notuð – en nafnleysi líka
Ríki, bankar og sparisjóðir vinna nú að almennri útbreiðslu rafrænna
skilríkja meðal almennings í landinu. Skilríkin verður hægt að nota á
margvíslegan hátt og má þar
helst nefna auðkenningu. Eitt
erfiðasta vandamál rafrænna
samskipta felst í því að fólk
villir á sér heimildir og þykist
vera annað en það er. Stundum
getur reyndar verið mikilvægt
að eiga kost á að koma fram
nafnlaust eða hafa samskipti
undir dulnefni. Notkun rafrænna
skilríkja útilokar ekki þann
möguleika. Þannig má t.d.
hugsa sér að til að komast inn
á spjallrás þurfi að nota rafræn
skilríki til auðkenningar en eftir
það komi hver og einn fram
undir dulnefni, ekki ósvipað því
og þegar krakkar framvísa skilríkjum í bíó til þess að sýna fram á að þau
hafi náð tilsettum aldri.
Vegna fyrrgreindra vandamála er mikilvægt að skapa umhverfi þar sem
fólk getur haft samskipti hvert við annað á öruggan og traustan hátt. Á
öruggum spjallrásum þarf fólk að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum
sem innihalda m.a. kennitölu handhafa og aldur hans þar með. Markmiðið
með öruggum spjallrásum fyrir krakka (börn og unglinga) er að útbúa
umhverfi þar sem krakkar geta talað við krakka án þess að eiga það á
hættu að fullorðin manneskja reyni að blekkja þá.
Spjallrásir fyrir ákveðna aldurshópa
Rafræn skilríki tryggja einnig rekjanleika. Ef einhver hagar sér ósæmilega
er auðvelt að rekja slíkt til viðkomandi. Á spjallrásum geta krakkarnir
notað gælunöfn í stað eigin nafna en þar geta samt allir verið vissir um
að hver og einn er sannarlega auðkenndur og skráður inn á rásina undir
réttu nafni.
Þar sem rafræn skilríki sýna aldur viðkomandi er einnig hægt að útbúa
spjallrásir fyrir ákveðinn aldurshóp, t.d. rás sem einungis er ætluð 13-15
ára unglingum, eða tiltekna markhópa, svo sem stúlkur á aldrinum 14-16
ára.
Í Belgíu hafa stjórnvöld í samvinnu við ýmsa aðila sett upp öruggar
spjallrásir fyrir krakka (sjá www.saferchat.be). Krakkarnir auðkenna sig
með rafrænum skilríkjum á ýmsum spjallrásum sem eru ýmist ætlaðar fyrir
tiltekinn aldurshóp eða öðru kyninu. Þetta hefur gefist vel þar í landi og
aukið til muna öryggi samskipta krakka á Netinu. Öruggar spjallrásir leysa
ekki öll vandamál er snúa að samskiptum á Netinu en með þeim má skapa
umhverfi sem bæði börn og foreldrar geta treyst.
Rafræn skilríki hjálpa börnum og unglingum að spjalla á Netinu:
Höfundar: Haraldur A. Bjarnason, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu, og Guðberg K. Jónsson, verkefnastjóri SAFT.