UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 24

UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 24
4 Áætlað að taka nýjan sæstreng í notkun haustið 2008 Stefnt er að því að nýr sæstrengur sem auki öryggi tenginga Íslands við umheiminn verði kominn í gagnið eigi síðar en haustið 008. Hafinn er undirbúningur að fyrirkomulagi á eignarhaldi, fjármögnun og rekstri á vegum samgönguráðuneytisins. Í dag er Ísland tengt umheiminum með tveimur sæstrengjum. Eldri strengurinn, ljósleiðarastrengurinn Cantat-3, sem tekinn var í notkun árið 1994, liggur milli Kanada og Danmerkur, Englands og Þýskalands með greinum til Íslands og Færeyja. Cantat-3 hefur takmarkaða flutningsgetu og verður brátt fullnýttur. Farice-1, sem komst í gagnið árið 2004 er einnig ljósleiðarastrengur og liggur hann milli Íslands og Skotlands með tengingu við Færeyjar. Örugg samskipti lykilatriði Starfshópur sem samgönguráðherra skipaði í fyrrasumar til að huga að tilhögun varasambands fjarskipta við umheiminn og skila tillögum um nauðsynlegar fjárfestingar komst að þeirri niðurstöðu að til að tryggja öruggt netsamband og geta mætt örri þróun og útrás í netþjónustu yrði að leggja nýjan sæstreng. Örugg samskipti við umheiminn eru talin lykilatriði fyrir viðskipti við önnur lönd segir meðal annars í skýrslu starfshópsins. Einnig að tengingar þurfi að vera svo öruggar að hverfandi líkur séu á að þær rofni algerlega. Starfshópurinn benti einnig á að verulegir öryggis- og viðskiptahagsmunir væru bundnir við fjarskiptasambandið milli Íslands og annarra landa og röskun gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið. Þá hefur verið bent á að til að unnt sé að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegt land fyrir alþjóðlega fjármálastarfsemi sé fullkomið fjarskiptasamband yfir hafið skilyrði. Þetta eigi við um fleiri möguleika til útrásar, til dæmis rekstur netþjónabúa og skyldrar starfsemi fyrir erlenda aðila og möguleika á sviði heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin samþykkti skömmu fyrir síðustu áramót þá tillögu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að ráðist skuli í undirbúning að lagningu nýs sæstrengs. Er nú unnið að fyrstu skrefum sem felast í að ákveða eignarhald og fjármögnun. Verkefnastjóri hefur verið ráðinn til að setja fram nákvæma áætlun um fjárfestinguna og mögulegan rekstrargrundvöll. Auknir möguleikar með nýjum streng Ljóst er að rekstrargrundvöllur er naumast fyrir tveimur fullkomnum sæstrengjum milli Íslands og annarra landa þegar einn strengur getur annað nauðsynlegum gagnaflutningi eins og hann er í dag. Rekstraröryggið er hins vegar sífellt veigameiri þáttur í fjarskiptaþjónustu og því nauðsynlegt að tryggja það til hlítar eigi viðskiptavinir að geta treyst því að þjónustan gangi ótrufluð. Af þeim sökum er mikilvægt að leggja í framkvæmd sem þessa. Til að treysta rekstrargrundvöllinn frekar er einnig unnt að hefja markaðsstarf fyrir aukna þjónustu á þessu sviði og þarf að huga sérstaklega að þeim þætti í undirbúningnum. Í því getur áhugi fjarskiptafyrirtækjanna falist. Stefnt er að því að fyrirhugað leiðarval strengsins liggi fyrir í sumarbyrjun og að botnrannsóknir geti farið fram í sumar. Strengurinn sjálfur yrði síðan lagður næsta sumar og tekinn í notkun síðla árs 2008. Fjarskiptasamband Íslands við umheiminn: Aukið öryggi og bætt þjónusta Nú líður senn að innleiðingu rafrænna lyfseðla á Íslandi, en prófanir á slíku kerfi hafa staðið yfir síðan árið 001 sem tilraunaverkefni á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins (HTR). Læknar og apótek sem hafa tekið þátt í tilrauninni telja mikinn ávinning af þessu fyrirkomulagi. Fyrst og fremst er þó um að ræða aukið öryggi við lyfseðlaútgáfu og bætta þjónustu við viðskiptavinina. Í lok ársins 2005 tók þáverandi heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, ákvörðun um að rafrænir lyfseðlar skyldu teknir í notkun um allt land í samskiptum lækna og apóteka. Ástæða þess að innleiðingin er ekki hafin er fyrst og fremst sú að ákveðið var að útfæra almenna samskiptaleið sem nýttist ekki eingöngu fyrir lyfseðla, heldur fyrir samskipti með heilbrigðisupplýsingar almennt. Sú samskiptaleið er nú innan seilingar og boðar nýja tíma í samskiptum með heilbrigðisupplýsingar. Með því að tengja saman allar heilbrigðisstofnanir auk fjölda annarra aðila sem starfa á heilbrigðissviði opnast miklir möguleikar á rafrænum samskiptum milli þessara aðila sem geta aukið öryggi, bætt þjónustu og stuðlað að hagræðingu. Innleiðing rafrænna lyfseðla Fyrsti áfangi verkefnisins um rafræna lyfseðla nær yfir sendingar lyfseðla frá flestum heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins. Áætlað er að þessum áfanga ljúki á yfirstandandi ári. Í framhaldi af því verður opnað fyrir sendingar frá öðrum læknum. Heildarfjöldi lyfseðla árið 2004 var tæplega 1.900 þúsund og er markmið verkefnisins að um helmingur allra lyfseðla verði sendur með rafrænum hætti við lok ársins 2007. Fyrirkomulag Fyrir sjúkling sem fer til læknis og fær lyfseðil breytist fyrirkomulagið þannig að í stað þess að fá í hendur pappírslyfseðil er lyfseðillinn sendur í lyfseðlagátt. Sjúklingurinn getur þá farið í hvaða apótek sem er og beðið um að fá lyfseðilinn afgreiddan. Lyfseðlagáttin geymir lyfseðla allt þar til þeir eru sóttir allt að einu ári sem er gildistími venjulegs lyfseðils. Fjölnota lyfseðlar geymast í gáttinni og eru tilbúnir til næstu afgreiðslu á réttum tíma. Að lokinni notkun er lyfseðlunum eytt úr gáttinni. Fyrirkomulagið verður kynnt almenningi nánar þegar líður að innleiðingu. Ávinningurinn Sá ávinningur sem mestu skiptir er aukið öryggi og bætt þjónusta. Öryggi í meðhöndlun lyfseðla eykst með minni hættu á mistúlkun, faxsending lyfseðla mun heyra sögunni til og símalyfseðlum fækkar verulega. Fölsun verður einnig mun erfiðari eða nánast ómöguleg sem er mikið framfaraskref og í takt við almenna þróun þar sem t.d. bankaávísanir hafa nánast horfið á síðustu árum. Þjónusta batnar með því að flæði lyfseðla til apóteka verður jafnara og einnig að fjölnota lyfseðlar týnast ekki, heldur liggja í gáttinni og bíða næstu úttektar. Rafrænir lyfseðlar á Íslandi: Höfundur: Benedikt Benediktsson, verkefnisstjóri heilbrigðisnets í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Markmið verkefnisins er að um helmingur allra lyfseðla verði sendur með rafrænum hætti við lok ársins 007. Benedikt Benediktsson.

x

UTBlaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: UTBlaðið
https://timarit.is/publication/1121

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.