UTBlaðið - 03.03.2007, Page 20

UTBlaðið - 03.03.2007, Page 20
0 Til hagsbóta fyrir stjórnendur og starfsmenn Á síðustu árum hefur ríkið tekið í notkun nýtt fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og ríkisstofnanir. Er nú svo komið að allir A-hluta aðilar nýta mannauðshluta kerfisins. Kerfið er mjög öflugt og býr yfir mörgum sérhæfðum skjámyndum og skýrslum sem ætlaðar eru þeim sem annast starfsmannahald hjá ráðuneytum og ríkisstofnunum. Kerfið byggist að verulegu leyti á rafrænni afgreiðslu og samþykktarferlum bæði fyrir launaafgreiðslumenn og aðra starfsmenn. Hver starfsmaður getur haft sitt svæði í kerfinu þar sem hann getur nálgast upplýsingar sem um hann eru skráðar þar, skoðað eigin launaseðla, skoðað og breytt tímaskráningu, sett fram óskir um orlof á tilteknum tíma, skoðað eigin stöðu á ýmsum réttindum, t.d. orlofi, helgidagafríi, frítökurétti og sé hann vaktavinnumaður óskað eftir tilteknum vöktum o.s.frv. Gerð vaktaáætlunar Fyrir yfirmenn er sjálfsafgreiðsla þar sem þeir geta unnið við ýmislegt, svo sem farið yfir og samþykkt viðverutíma starfsmanna, óskir um orlof, skipulagt vaktir o.s.frv. Mikilvægur þáttur í nýju kerfi eru möguleikar á hagnýtingu þess við gerð vaktaáætlana. Mögulegt er að gefa starfsmönnum kost á að setja fram óskir um vaktir fram í tímann. Við gerð vaktaáætlunarinnar setur stofnunin fram mannaflaþörfina á hverri vakt þar sem kemur skýrt fram hverrar sérfræðikunnáttu er krafist hverju sinni. Að teknu tilliti til fram kominna óska starfsmanna nýtir kerfið bestunaraðferðir til að setja fram tillögu að vaktaáætlun. Að því búnu yfirfer „vaktasmiðurinn“ áætlunina og lýkur gerð hennar. Þegar samþykkt áætlun liggur fyrir geta starfsmenn nálgast hana í sjálfsafgreiðslu kerfisins þar sem þeir fá upplýsingar um eigin vaktir á viðkomandi tímabili. Rafrænir launaseðlar spara 25 milljónir Rafræn stjórnsýsla og möguleikar sem hún býður upp á verður sífellt fyrirferðarmeiri í opinberri umræðu. Með nýjum fjárhagskerfum ríkisins opnast ýmsir möguleikar til að hagnýta slíka ferla sem skila jákvæðum áhrifum bæði með tilliti til sparnaðar og umhverfissjónarmiða. Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á meðferð ýmissa upplýsinga og nú þegar nýtir meirihluti þjóðarinnar sér þjónustu heimabanka og Netið til upplýsingaöflunar og til að versla. Frá og með útborgun launa 1. febrúar sl. var ákveðið að senda út rafræna launaseðla fyrir starfsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana. Með því fá starfsmenn aðgang að launaseðlum sínum í heimabanka og geta prentað þá út ef þurfa þykir. Þá geta margir starfsmenn skoðað launaseðla sína og prentað þá út í sjálfsafgreiðsluhluta mannauðskerfisins. Áætlaður sparnaður ríkisins og um leið skattborgaranna af þessu breytta fyrirkomulagi er gróft áætlaður um 25 milljónir króna á ári miðað við að enginn fái sendan launaseðil í pósti. Nýtt mannauðskerfi hjá ríkinu: Tímapantanir á Vefnum Nú er í undirbúningi að fólk í Voga- og Heimahverfi geti pantað tíma í heilsugæslunni gegnum Netið. Þessi möguleiki verður að veruleika innan skamms og verður fyrirmynd fyrir aðrar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Hjá heilsugæslustöðinni í Glæsibæ, sem þjónar íbúum Voga- og Heimahverfis í Reykjavík, er í undirbúningi að bjóða viðskiptavinunum upp á nýja tegund rafrænna samskipta. Það er gert í því augnamiði að bæta aðgengi að þjónustunni og nýta kosti vefsins í heilbrigðisþjónustu. Bæði verður hægt að panta tíma á Netinu og breyta eða afpanta bókaða tíma. Þeir tímar sem hægt verður að bóka gegnum Netið eru viðtal eða símtal hjá lækni, mæðravernd, ungbarnavernd eða heilsuvernd aldraðra. Hver einstaklingur getur einnig bókað fyrir maka og börn að 18 ára aldri. Einungis verður hægt að bóka einn tíma í einu. Þá verður einnig hægt að óska eftir endurnýjun lyfja eða vottorða og einnig að leggja fram fyrirspurnir fyrir starfsfólk stöðvarinnar sem mun senda svör til baka í tölvupósti. Tilraun sem verður fyrirmynd fyrir aðrar stöðvar Verkefnið er hugsað sem tilraun til að byrja með og verður ætlað þeim sem eru skráðir á heilsugæslustöðina. Þeir sem vilja nota rafrænu þjónustuna þurfa að sækja um aðgangsorð á stöðinni og kvitta fyrir móttöku þess með persónuskilríkjum. Lykilorðið opnar svo aðgang að rafrænni gátt á vef stöðvarinnar. Þegar verkefnið um rafrænt Ísland verður að veruleika og almenningur getur fengið rafræn skilríki mun sá möguleiki væntanlega verða nýttur og rafræn skilríki þá leysa lykilorð af hólmi. Fólk mun að sjálfsögðu geta valið um hvort það vill nota rafrænu þjónustuna eða hafa gamla lagið eða jafnvel hvort tveggja. Heilsugæslustöðin í Glæsibæ er tilraunastöð fyrir rafræna þróun í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og mun því ríða á vaðið með þessa þjónustu. Vonast er til að reynslan verði góð og þá verður hægt að bjóða upp á samskonar þjónustu á öðrum stöðvum. Reiknað er með að þetta sé upphafið að auknum rafrænum samskiptum milli almennings og heilsugæslunnar öllum til hagsbóta. Heilsugæslan vill leggja sitt af mörkum til þess að svo megi verða í framtíðinni og væntir mikils af þessu fyrsta skrefi. Höfundur: Valgerður Gunnarsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisupplýsinga, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tilraunaverkefni hjá heilsugæslustöðinni í Glæsibæ: Valgerður Gunnarsdóttir. Höfundar: Lára G. Hansdóttir og Stefán Kjærnested.

x

UTBlaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: UTBlaðið
https://timarit.is/publication/1121

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.