UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 16

UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 16
16 Spurning um siðferði og meiri tekjumöguleika Netið er upplýsingaveita, þjónustustöð, verslun allt í senn. 80-90% vefsíðna eru ekki að fullu aðgengilegar öllum notendum, þ.m.t. fötluðum notendum. Oft gleymist að fyrir utan að vera siðferðilega rangt að halda úti óaðgengilegri vefsíðu tapast miklar tekjur. Þetta ætti að hafa í huga þegar þær raddir heyrast að kostnaðarsamt sé að breyta vefsíðum í aðgengilega átt. Það liggja margar ástæður fyrir því að menn ættu að huga að aðgengi vefsíðna. Fyrir utan siðferðilega hlið málsins eru aðrar ekki eins augljósar ástæður sem vert er að skoða. Algengustu rökin fyrir því að vefsíður verði að vera aðgengilegar eru að það sé það eina rétta í stöðunni sem það auðvitað er. Staðreyndin er nefnilega sú að óaðgengileg vefsíða hreinlega missir beinar auglýsingatekjur, henni vegnar verr í leitarvélum, hún missir dýrmæta viðskiptavini (sem jafnvel fara til samkeppnisaðilans sem hlúir betur að aðgengismálum) og í sumum löndum er nauðsynlegt að greiða skaðabætur síðar ef hart fer í hart og vefsíðan er dæmd ónothæf eða ólögleg. Í nokkrum löndum (t.d. Bretlandi og Bandaríkjunum) eru óaðgengilegar vefsíður ólöglegar en sú er ekki raunin hér á landi. Ef vefsíða er opin öllum og hefur til sölu vörur eða þjónustu á Netinu eða um er að ræða opinbera vefsíðu með upplýsingum sem allir eiga að hafa aðgang að er gott að hafa eftirfarandi spurningar í huga: • Eru allar myndir lýsandi á vefsíðunni (ALT-textar í boði)? Gæti blindur einstaklingur skoðað hverja einustu vöru eða þjónustu og fræðst um hana eða eru mikilvægar upplýsingar einungis á myndrænu formi sem blindir notendur hafa ekki aðgang að? • Er bæklingur á vefsíðunni sem einungis er á PDF-sniði? Er búið að tryggja að blindur einstaklingur hafi aðgang að efninu annars staðar á vefsíðunni? Skjálesarar blindra notenda lesa í fæstum tilfellum PDF-skjöl. Undantekningar á því eru PDF-skjöl sem eru sniðin með texta eingöngu. • Er mikið um skrun á vefsíðunni, eru síðurnar langar? Gæti hreyfihamlaður einstaklingur skoðað mynd af vöru eða mikilvægar upplýsingar eins og netfang ef það er staðsett neðst á síðunni? • Eru auglýsingar með tali á vefsíðunni? Er öruggt að heyrnarlaus einstaklingur skilji af samhengi auglýsingar eða margmiðlunarefnis hvað er verið að auglýsa eða fjalla um? Er textalýsing í boði? • Flökta myndirnar hratt á vefsíðunni? Er verið að stofna lífi flogaveiks einstaklings í hættu? • Er lýsing á vörum eða þjónustu með smáu eða ljósu letri? Er öruggt að sjónskertur einstaklingur sjái lýsinguna? • Er allt letur skáletrað, í hástöfum, of þétt? Er víst að lesblindur einstaklingur geti auðveldlega lesið textann? • Eru mörg flókin orð eða sérfræðiheiti á vefnum, mikið um skammstafanir? Er hætta á því að málfar vefsíðunnar fæli notendur frá? Er öruggt að einstaklingur með skerta greind viti um hvað er verið að ræða? Þetta eru bara örfá dæmi um þær hindranir sem verða á vegi fatlaðra notenda á Netinu. Gallinn er sá að margir eigendur vefsvæða sjá ekki ástæðu til að laga vefsíður sínar að þörfum allra notenda. Oft heyrast setningar eins og „Hvaaaa, það skoðar enginn fatlaður minn vef...“ En ef við snúum dæminu við ... getur verið að fatlaður notandi skoði ekki vefsíðuna einmitt af því að hún er óaðgengileg? Það eru fjölmörg dæmi þess að fatlaðir notendur hafi gefist upp á því að skoða tilteknar vefsíður því aðgengið er afleitt. Ég veit líka mörg dæmi þess að notendur hafi farið til keppinauta sem hafa sinnt þörfum þeirra betur. Eðlilega. Svona er samkeppnin í dag. Mjög oft gefast fatlaðir notendur upp á viðmóti fyrirtækja og stofnana sem sinna ekki beiðni um einfaldar lagfæringar. Það er öldungis óviðunandi. Mjög oft þarf ekki nema einn starfskraft í hálfan dag til að laga allar myndir vefjarins, gera þær lýsandi (setja á þær ALT-texta) og þá er hálfur sigur unninn. Mikilvægt skref í jákvæða átt hefur verið tekið. Auðvitað eru vefsíður misflóknar en fyrir fyrirtæki sem selur vöru eða þjónustu á Netinu er aldeilis óskiljanlegt að reyna ekki að ná til allra markhópa. Aðgengilegri vefur er notendavænni OG skilar meiri tekjum Að gera vefsíðu aðgengilega á Netinu snýst ekki bara um fatlaða notendur og þeirra þarfir. Í raun má segja að eigandi vefsíðu sem er aðgengileg sé eigingjarn eins og Kynn Bartlett bendir á í grein sinni, Selfish Reasons for Accessible Web Authoring http://www.icdri.org/Kynn/selfish_reasons_ for_accessible_w.htm. Hvers vegna? Jú, aðgengileg vefsíða er nefnilega mun líklegri til að skila meiri tekjum. Hún fer ofar í leitarvélunum, er notendavænni því aðgengilegri vefur er alltaf notendavænni vefur. Sumir spekingar (t.d. Jacob Nielsen) hafa gengið svo langt að fullyrða að notendavænn vefur skili allt að 100% meiri tekjum en sá ónotendavæni og 150% meiri umferð (http://www.useit. com/alertbox/20030107.html). Aðgengilegri vefur er einnig einfaldari vefur þar sem oft er búið að útskýra flókin orð, útskýra skammstafanir sem eru illskiljanlegar þeim sem eru ekki sérfræðingar, leiðarkerfið er einfaldara og auðveldara er að finna upplýsingar á honum. Síðast en ekki síst er aðgengilegri vefur fagmannlegri. Til að halda samkeppnisstöðu í dag þurfa forritarar, vefstjórar og aðstandendur vefstjóra að vera með þessi mál á hreinu. Þjónum öllum notendum Mikilvægasta atriðið er þó að aðgengilegri vefur þjónar öllum notendum, óháð aldri, getu, fötlun eða öðru. Það þýðir að hver einasti notandi hefur aðgang að efni, vörum og þjónustu vefjarins. Þetta er gríðarlega mikilvægt ekki síst þegar horft er til þess hversu öflugt íslenskt viðskiptalíf er erlendis. Við á litla Íslandi seljum vörur út um allan heim; sælgæti, snyrtivörur, tónlist, fatnað, bækur, hugbúnað, matvörur o.s.frv. Við gleymum því stundum að vefurinn okkar er opinn öllum hvort sem viðkomandi er búsettur í Kuala Lumpur eða í Færeyjum. Við skulum hafa í huga að það eru um 600 milljónir manna í heiminum með einhvers konar fötlun. Getur einhver þeirra ekki notað vefinn þinn? Aðgengismál á Netinu mikilvæg: Höfundur: Sigrún Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í aðgengismálum fatlaðra á Netinu. Sigrún Þorsteinsdóttir. Mikilvægasta atriðið er þó að aðgengilegri vefur þjónar öllum notendum, óháð aldri, getu, fötlun eða öðru.

x

UTBlaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: UTBlaðið
https://timarit.is/publication/1121

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.