UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 34
34
Stærsta upplýsingaveita á Íslandi
Landsaðgangur að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum er verkefni sem veitir hverjum sem tengist Netinu
á Íslandi aðgang að yfir 14.000 tímaritum í fullum texta, yfir 6.000 tímaritum í útdrætti, 1 gagnasöfnum,
yfir 00.000 myndum og 100.000 greinum af öðru tagi.
Vefur aðgangsins nefnist hvar.is. Þjónustan miðast við að notandi eigi sem
greiðasta leið að því efni sem þar er að finna og í flestum tilfellum þarf
ekki að leita lengra. Notendur finna upplýsingar um hvaða tímarit og hvaða
árgangar af þeim eru aðgengileg í tímaritalistum. Þegar notendur þurfa
að fá greinar sem ekki finnast þar geta þeir notað þjónustu bókasafna.
Tölur um notkun og leiðarval notenda sýna að upplýsingaleiðir eru greiðar
á hvar.is. Vefurinn hvar.is, gagna- og tímaritasöfnin eru öll hönnuð með
auðvelt aðgengi að augnamiði.
Einstakur aðgangur
Aðgangurinn er einstakur að því leyti að hann er jafnaðgengilegur um
allt land, í öllum tölvum sem tengjast Netinu gegnum íslenska netveitu. Í
öðrum löndum er ekki boðið upp á svona víðtækan aðgang. Þar er hann
bundinn við stofnanir; háskóla, heilbrigðisstofnanir, rannsóknastofnanir
eða bókasöfn. Hér á landi má komast í hann hvar sem er og hvenær sem
er. Hagræðið er meðal annars fólgið í því
að aðeins er greitt fyrir eina áskrift að
hverju tímariti sem þarna er að finna fyrir
allt landið. Það eru bókasöfnin í landinu,
stofnanir og nokkur fyrirtæki sem
greiða fyrir áskriftirnar, þannig að fyrir
notanda er þjónustan endurgjaldslaus.
Notandi getur því sparað sér ferðir og
fé og margar smáferðir hafa fallið niður við þennan aðgang. Þannig hefur
þessi leið verið umhverfisvæn. Ekki síst hefur hún sparað tíma vísindafólks
og þeirra sem starfa við rannsóknir.
Efni við allra hæfi
Landsaðgangur nýtist öllum. Flest gagnasöfnin og tímaritasöfnin eru á
ensku en þar er einnig mikið efni á íslensku. Árið 2006 voru sóttar yfir
700.000 greinar í fullri lengd í gagna- og tímaritasöfnin auk yfir 116.000
leita í Web of Science. Á þessu ári hafa
bæst við stór tímarita- og gagnasöfn frá
Ebsco og Sage. Notendur geta leitað beint
í gagna- og tímaritasöfnunum eða valið
svokallaða samsteypuleit, sem nefnist
„Leit að öllu“ á hvar.is, og leita þá í mörgum
gagnasöfnum samtímis. Fólk getur auk
þess flett upp einstökum tímaritum eftir
heiti þeirra eða fundið öll tímarit á ákveðnu
sviði. Allar nánari upplýsingar eru á vef
aðgangsins, http://hvar.is.
Landsaðgangur að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum, hvar.is:
Aðgangurinn er einstakur að því leyti
að hann er jafnaðgengilegur um allt
land, í öllum tölvum sem tengjast
Netinu gegnum íslenska netveitu.
Sveinn Ólafsson.
Höfundur: Sveinn Ólafsson, umsjónarmaður landsaðgangs að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum.
Ótal möguleikar til að miðla þekkingu
Impra nýsköpunarmiðstöð býður nýtt vefnámskeið sem er opið öllum á heimasíðu sinni, www.impra.is.
Með hjálp tækni sem nefnd er þekkingarstraumur (streaming) er hægt að miðla efni í gegnum Netið til
margra notenda samtímis hvar og hvenær sem er.
Ekkert niðurhal á sér stað í tölvu notenda sem gerir miðlunina skilvirkari og
hraðari. Þessi nýjung gerir kleift að nota myndbandsupptökur eða beinar
útsendingar og leiðbeina á þann hátt jafnt með mynd, hljóði, texta og skýringum
um tiltekið efni, hvort sem er í nokkrar mínútur þegar tekið er á afmörkuðu efni
eða í nokkrar klukkustundir þegar efnið er umfangsmeira.
Námskeið um rekstrarform fyrirtækja þar sem þessari tækni er beitt er hægt
að nálgast á heimasíðu Impru. Leiðbeinandinn er Jón Gíslason rekstrarráðgjafi.
Helstu efnistök eru markmið og tilgangur, stofnun fyrirtækja, form fyrirtækja,
lög og reglugerðir. Farið er í það hvernig fylla á út eyðublöð sem tengjast
stofnun og rekstri og vísað er í ítarefni og tengla á vefsíðu Impru eða annarra
sem bjóða fræðslu á þessu sviði. Námskeiðið er gjaldfrjálst á www.impra.is.
Aukin fjölbreytni
Þessi tækni býður upp á ótal möguleika til að miðla þekkingu. Á næstu
misserum hyggst Impra nýta sér þessa tækni til að bjóða upp á ýmiss konar
námskeið því tæknin er vel til þess fallin að kenna ýmis atriði á sviði rekstrar og
stjórnunar og hentar ekki síður til að kenna verklag á fjölmörgum sviðum tækni
og þjónustu. Til að mynda hentar hún vel við kennslu í hvers konar fagnámi, t.d.
um samsetningu hitaveituröra og viðhald véla svo fátt eitt sé nefnt.
Impra á nú í viðræðum um samstarf á þessu sviði við samtök, fyrirtæki
og stofnanir. Þessi nýjung eykur fjölbreytni í námskeiðahaldi sem gerir
fyrirtækjum og einstaklingum auðveldara að sækja sér þekkingu óháð tíma
og staðsetningu.
Höfundur: Hallfríður Benediktsdóttir, upplýsingafulltrúi Impru - nýsköpunarmiðstöðvar, Iðntæknistofnun.
Nýjung í námskeiðahaldi á heimasíðu Impru nýsköpunarmiðstöðvar:
Skjámynd af námskeiði Jóns V. Gíslasonar um rekstrarform fyrirtækja.