UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 28

UTBlaðið - 03.03.2007, Blaðsíða 28
8 Fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi Seltjarnarnesbær hefur gerst aðili að alþjóðasamtökunum INEC en bæjarfélaginu var boðin aðild eftir að stjórn þeirra hafði kynnt sér ljósleiðaraáform þess og þau verkefni sem í bígerð eru og snúa að rafrænni þjónustu. INEC eru fjölþjóðleg samtök forystumanna í þróun háhraðatenginga og rafrænnar þjónustu. Í nóvember skrifaði Jónmundur fyrir hönd bæjarins undir yfirlýsingu samtakanna þar sem áhersla er lögð á opin gagnaflutningsnet sem ávallt geti svarað kröfum samtímans hvað varðar gæði og hraða gagnaflutninga. Í yfirlýsingunni er einnig hnykkt á mikilvægi þess að rekstur slíks nets sé aðskilinn frá þeirri þjónustu sem á því er veitt til að tryggja samkeppni og jafnræði auk þess sem „breiðbandstenging“ er skilgreind sem 100 MB/sek. að lágmarki. Nánari upplýsingar: www.seltjarnarnes.is http://www.i-nec.com/ Fyrsta bæjarfélag Evrópu með 100% ljósleiðaratengingu Framkvæmdir við lagningu ljósleiðara á Seltjarnarnesi hafa nú staðið yfir í um tvö ár en þessa dagana er verið að leggja lokahönd á verkið. Seltjarnarnesbær samdi í árslok 004 við Orkuveitu Reykjavíkur um framkvæmdina en í henni felst ljósleiðaratenging allra heimila og húsa í bæjarfélaginu. Seltjarnarnesbær hefur þannig náð þeirri merkilegu stöðu að vera fyrsta bæjarfélag Evrópu sem nær 100% ljósleiðaratengingu heimila. Jónmundur Guðmarson, bæjar- stjóri, segir að með ákvörðun sinni stefni bæjarstjórn á að verða í fararbroddi bæjarfélaga að þessu leyti. „Í ljósleiðaralögn felast mikil tækifæri og hagsmunir fyrir bæjarbúa,“ segir Jónmundur. „Markmiðið með lagningu ljósleiðaranets í öll hús á Seltjarnarnesi er að auka lífsgæði í sveitarfélaginu, viðhalda verðmæti fasteigna eða hreinlega auka það. Með þessari framkvæmd er áhersla lögð á að byggja gagnaflutningsnet til framtíðar þar sem bæjarbúar geta á hagkvæman hátt notið þess sem best gerist í afþreyingu og öryggi án þess að þurfa að leggja í slíka fjárfestingu sjálfir.“ Opið net skilyrði Jónmundur segir að með ljósleiðaranum sé verið að leggja gagnabraut sem allir geti nýtt sér. „Íbúar fá lögnina inn til sín með endabúnaði án endurgjalds og geta síðan valið hvort þeir vilja nýta þjónustuna eða ekki. Ég tel að það sé grundvallaratriði ef opinberir aðilar eru á annað borð að koma að málum af þessu tagi, að það sé skýr aðgreining á milli dreifikerfisins og efnisins og tryggt sé að notendur hafi frelsi til að velja á milli ólíkra þjónustuveitenda. Þetta er eins og með vegakerfið. Það er okkar að stuðla að því að vegakerfið verði til en annarra að sjá um umferðina, nema hvað snertir okkar eigin þjónustu, t.d. aðgang borgara að þjónustu bæjarfélagsins. Skilyrðið um opið net var lykillinn að þátttöku okkar í verkefninu og gerð var krafa um eitt opið net sem annaði öllum gagnaflutningum.“ Fjölmörg sóknartækifæri felast í ljósleiðara og opnu neti Ljósleiðaranetið á Seltjarnarnesi mun gegna fjölþættu hlutverki og bæjarfélagið mun verða einn af þjónustuveitendum. „Rafræn stjórnsýsla okkar mun flytjast á ljósleiðarann þegar þar að kemur. Þá er stefnt að því að hún verði aðgengileg bæjarbúum hvort sem er í gegnum tölvu eða sjónvarp en við teljum að þannig getum við breikkað þann hóp sem nýtir sér rafræna þjónustu. Með því að gera hefðbundna vefþjónustu aðgengilega í sjónvarpi vonumst við til að ná til þeirra kynslóða sem ekki eru vanar tölvunotkun,“ segir bæjarstjóri. Jónmundur segir að sökum sérstöðu sinnar hafi Seltjarnarnes ekki yfir miklu óbyggðu landi að ráða og þar hafi ekki þrifist stór fyrirtæki sem þurfi mikið landrými undir starfsemi sína. Með ljósleiðaranetinu opnist hins vegar möguleikar fyrir smærri þekkingarfyrirtæki sem séu ekki plássfrek. „Okkur fannst það því bæði klókt og eftirsóknarvert að vera í fararbroddi þeirra sveitarfélaga sem vilja ljósleiðaravæðast og byggja upp framtíðarkerfi sem mun anna ört vaxandi eftirspurn eftir bandvídd um ókomin ár,“ segir Jónmundur. Seltjarnarnesbær: Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, til hægri, og Christer Mattson hjá INEC undirrita inngöngu bæjarins í samtökin. Okkur fannst það því bæði klókt og eftirsóknarvert að vera í fararbroddi þeirra sveitarfélaga sem vilja ljósleiðara- væðast og byggja upp framtíðarkerfi.

x

UTBlaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: UTBlaðið
https://timarit.is/publication/1121

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.