Húnavaka - 01.05.1967, Page 21
HÚNAVAKA
19
Jafnvel á þessari öld, ánafnaði Bogi Th. Melsteð handritasafn sitt
konunglega bókasafninu í Höfn, og var þó heima á íslandi komið
myndarlegt safnhús, en gefandinn varð þar heldur aldrei bókavörð-
ur. Þess má geta að bóka- og handritasöfn merkra íslendinga, voru
stundum á síðustu öld seld til annarra landa.
Það verður Alþingi ávallt til verðugs lofs, að það keypti 1877,
safn handrita og prentaðra bóka Jón Sigurðssonar lorseta. Hverjum
þeim, sem komið hafa í Arnasafn í Höfn, mun eigi hafa fundizt
mikið til um húsakost þar, á nútíma vísu. En hitt meir, að sjá hinar
löngu hillur fullar af þessum fjársjóðum. Mörg bókin mun þar fag-
urlega gjörð, en sumar bera vott um misjafna meðferð á liðnum
öldum.
Enginn þarf að efast um að Arni Magnússon, hefði helzt kosið
að þetta safn hans færi til íslands, því að hann var þjóð sinni vel-
viljaður, og gerði sér eigi mannamun um hagi hennar. Öllum er
kunnugt um liðsinni hans við Jón Hreggviðsson, er var á þvælingi,
á milli dómstólanna, heima og erlendis.
Segir sagan að, er Árni Magnússon fylgdi þessum skjólstæðingi
sínum til skips á íslandsfari, en Jón hafði þá fengið lausn allra sinna
mála með dómi hæstaréttar. Þá hafi Árni kveðið:
„Líta munu upp í ár
Islands vinir mætir,
er Hreggviðssonur hæru grár,
höfuð til íslands færir.“
Það sama hefur skeð nú, hæstiréttur hefur leyst handritin úr viðj-
um danskra safnmanna. Svo að Jæssir tveir skjólstæðingar Árna
Magnússonar, Jón Hreggviðsson og íslenzk handrit, sitja við sama
borð um frelsi sitt til að koma heim til íslandsbyggða. ()g vísa Árna
Magnússonar er í fullu gildi, því að nú er gott upplit á íslending-
um, vinum hans.