Húnavaka - 01.05.1967, Blaðsíða 68
66
HÚNAVAKA
þau oft næstu daga og bauð þeim góðan daginn. Þau virtust verða
mjög fegin.
Þau sátu oft saman á kassa-skrifli bak við húsið. Hún með prjón-
ana sína, hann studdist fram á stafinn sinn. Hann var þá nærri blind-
ur og bar sárabindi um höfuðið. Síðar vissi ég, að hann hafði tekið
banamein sitt og var oft sárþjáður.
Dag nokkurn var drepið á dyr hjá mér. Er ég lauk upp, sá ég að
þar stóð gamla konan. Hún var hálf vandræðaleg, sagði að sig hefði
langað svo að lyfta sér upp, því að hún sæti stöðugt um kyrrt. Eg
bauð henni inn. Hún tók prjónana upp úr vasa sínum. Hún sagðist
verða að herða sig að prjóna fyrir fólk, sem væri alltaf að biðja sig
um vettlinga og leista.
Það eru svo dýr þessi meðul handa honum Jóni mínum, sagði
hún.
Ég horfði á hana og sá að lífið var ekki búið að buga hana enn.
Þarna var enginn vesalingur á ferð, þótt bættar flíkurnar væru ekki
glæsilegar á að líta.
Næstu vikurnar kom hún oft. Ég sá að iienni þótti gott að fá kaffi-
sopa. Hún talaði oft um hve gott ég ætti að geta bakað brauð.
Sú var tíðin að ég bakaði kökur, þegar ég var í Hólaseli. Ég er
orðin svo leið á þessu búðarbrauði, það er líka svo dýrt.
Hún talaði fátt um hagi sína, en smám saman rann upp fyrir mér
heildarmynd af lífi þeirra í gula húsinu.
Súðarherbergið var svo lítið, að varla komst fyrir borð og stóll,
auk rúmsins. Þarna urðu þau að lu'rast. Þau voru í skjóli fósturson-
ar síns. Þau höfðu tekið hann ungan og sjúkan og alið önn fyrir
honum. Nú var hann kominn í góð efni og heimtaði, að þau flyttu
úr litla kotinu og í bæinn. Þau höfðu ekkert getað selt. Jörðin fór í
eyði, allt var tapað.
Ellihrum og sjúk voru þau fegin að hætta búhokrinu. En það tók
ekki betra við. Þau urðu að lifa á ellistyrknum og því, sem hún gat
unnið sér inn með prjónunum. Þau máttu vera þarna í herbergis-
kytru og fengu að elda á „plötu“ þar inni. Húsið var fínt og fólkið
vildi ekki, að matarlyktina legði fram á ganginn. Vatnið mátti hún
taka á baðinu, en hún var svo skjálfhent, að oft skvettist á bónaða
gólfið.