Húnavaka - 01.05.1967, Blaðsíða 146
144
HÚNAVAKA
til sín. Þegar hann kemur að stiganum fær hann nýtt umhugsunar-
efni. Þar standa þá einhver skötuhjú undir stiganum, og — sem ég
er lifandi heldurðu að sláninn reki ekki að henni rembingskoss.
Jóni verður á að bölva, liann getur ekki annað. En í því sér stúlkan
hann. „Ó, almáttugur, karlinn sá okkur.“ Og svo tekur hún til fót-
anna og sláninn á eftir. Ekki bætir þetta skapið í Jóni. Ekki nema
það þó. Kyssast svona fyrir allra augum og kóróna svo allt saman
með því að kalla hann, Jón á Bæ ,,karlinn“. Nei, aldrei framar skyldi
haldinn dansleikur hér á Bæ, meðan hann réði nokkru. Svo staul-
ast hann púandi og formælandi upp stigann til herbergis síns.
3. janúar 1948.
ELÍSABET ÁRNADÓTTIR, Miðgili:
Björgun
Sigrún í Hlíð sat við gluggann og rýndi út í myrkrið. Henni var
órótt innan brjósts, því að Sveinn maður hennar hafði róið um
morguninn og var ekki kominn að — og nú var hann að hvessa.
Útlitið hafði ekki verið sem bezt um morguninn og eiginlega hafði
hann verið hættur við að róa. En svo hafði þeim hjónunum orðið
eitthvað lítils háttar sundurorða, sem hafði þó aukizt orð af orði,
þar til hann loks hafði gengið þegjandi út, tekið olíufötin og haldið
til sjávar. Hún hafði hálfvegis átt von á að honum snerist hugur,
því að loftvogin féll og veðurskeytin sögðu „vaxandi suðvestan"
þegar liði á daginn. Það hafði nú ekki orðið. Hann kallaði saman
hásetana og svo höfðu þeir lagt af stað. Sveinn án þess að segja nokk-
urt hlýlegt orð við hana, en því var hann þó ekki vanur. Hún vissi
raunar að það var hennar sök að þau stældu í morgun, en því hafði
hún eiginlega ekki veitt athygli fyrr en hann var farinn og of seint
var að sættast við hann.
Veðurhljóðið fór vaxandi. Sigrún hlustaði með angist á brim-
hljóðið, sem barst að eyrum hennar gegnum stormþytinn. Áður en
hún vissi af var hún farin að biðja: „Ó, Guð, sendu hann aftur til
mín, svo að ég geti sætzt við hann.“