Dagblaðið Vísir - DV - 22.07.2009, Blaðsíða 10

Dagblaðið Vísir - DV - 22.07.2009, Blaðsíða 10
10 miðvikudagur 22. júlí 2009 fréttir Inflúensan A(H1N1) eða svínaflensa hefur greinst í 15 Íslendingum. 140 þúsund manns hafa smitast á heims- vísu sem er mun minna en þegar hefðbundin inflúensa geisar. Flensan hefur enn ekki náð mikilli útbreiðslu en Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að í versta falli gætu 25 prósent þjóðarinnar sýkst. DV hefur tekið saman helstu einkenni, smitleiðir og aðrar upplýsingar um hina nýju inflúensu. Hreinlæti á borð við hand- þvott er lykilatriði til að forðast smit. Inflúensan A(H1N1), í daglegu tali kölluð svínaflensa, hefur orðið 781 manneskju að bana í heiminum öll- um. Samkvæmt nýjustu tölum Sótt- varnastofnunar Evrópusambands- ins hafa 139.566 staðfest tilfelli verið greind á heimsvísu. Af þessum tölum má sjá að tvö hundruð af hverjum hundrað þúsund láta lífið. Þegar þetta er skrifað hafa 15 greinst með svínaflensu á Íslandi. Fyrsti Íslendingurinn greindist með flensuna 23. maí, eftir að hafa verið á ferðalagi í útlöndum. 800 gætu látist Haraldur Briem sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku að miðað við allra svörtustu spá gætu 25 prósent lands- manna smitast af flensunni á tólf vikna tímabili og dánartíðni gæti orð- ið eitt prósent. Miðað við það gætu liðlega 80 þúsund Íslendingar smit- ast og 800 gætu þá látið lífið. Ítrekað skal að þetta er miðað við allra verstu hugsanlegu útkomu. Áhættumatið er miðað við spænsku veikina sem varð hátt í 500 Íslendingum að bana árin 1918 og 1919, auk 50 milljóna manna á heimsvísu. „Ef við gerum ekkert eins og var gert árið 1918 vitum við hverjar af- leiðingarnar yrðu. En við ætlum nú að gera heilmikið þannig að ef við fengjum eitthvað jafnsvakalegt og spænsku veikina erum við að tala um að við munum lækka sýkingar- tíðnina úr 50 prósentum í 25 prósent og lækka dánartíðnina meðal sjúk- dómstilfella úr þremur prósentum niður í eitt prósent,“ sagði Haraldur í samtali við DV. Mikilvægt er að taka fram að árleg inflúensa veldur alvarlegum veikind- um hjá um þremur til fimm milljón- um einstaklinga og dregur 250 til 500 þúsund manns til dauða árlega. Þvoið hendurnar Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr hættunni á smiti. Samkvæmt upp- lýsingum á vef Landlæknisembætt- isins benda rannsóknir til þess að miklu máli skipti að þvo sér reglulega um hendurnar. Það getur dregið úr sýkingum manna á milli. Hendurn- ar skulu þvegnar með vatni og sápu auk þess sem þær skulu þerraðar á eftir. Þá má bera handspritt á hend- urnar en það dregur einnig úr líkum á smiti. Mikilvægt er, þegar inflúensur ganga, að hnerra eða hósta í einnota pappírsþurrku og hreinsa hendur strax á eftir í stað þess að hnerra út í loftið. Þá er mikilvægt að halda sig í að minnsta kosti metra fjarlægð frá þeim sem eru með einkenni in- flúensu, ef unnt er. Ráðlagt er einn- ig að halda kyrru fyrir heima á með- an veikindi standa yfir og í allt að sjö daga eftir að veikindi hefjast. Þannig er hægt að draga úr líkum á að smita vinnufélaga og samferðamenn. Sömu smitleiðir Þótt hin svokallaða svínaflensa sé ný gerð af inflúensuveiru er talið að smitleiðir hennar séu þær sömu og eldri gerða af inflúensuveirum. Hún smitast með dropum og úða sem berast frá sýktum einstaklingum með hósta og hnerra, samkvæmt upp- lýsingum af vef Landslæknisemb- ættisins. „Veirurnar berast út í loftið og falla síðan niður í umhverfi hins sýkta og geta borist þaðan á hendur annars einstaklings og valdið smiti ef viðkomandi snertir slímhúð í munni, nefi eða augum án þess að hafa þveg- ið sér um hendur eða sprittað hend- urnar eftir snertingu við mengað yf- irborð. Þeir sem smitast af veirunni eru taldir geta smitað aðra í allt að einn sólarhring áður en einkenni byrja og í allt að sjö daga eftir upphaf veikindanna,“ segir þar enn fremur. Sýkingarvarnir á heimilum Inflúensa smitast auðveldlega milli manna á heimilum. Hlífðar- búnaður kemur sjaldnast í veg fyr- ir það. Þess vegna er ekki mælt með því að heimilisfólk noti hlífðarbún- að ef veikur einstaklingur er á heim- ilinu. Hins vegar má draga úr líkum á smiti með því að þvo hendur reglu- lega með sápu og/eða spritti, tak- marka samneyti við hinn veika, til dæmis með því að halda sig í hæfi- legri fjarlægð eða vera ekki í sama herbergi. Þá getur hjálpað að hafa góða loftræstingu (opna glugga), sér- staklega í sameiginlegum rýmum eins og baðherbergi og eldhúsi. Það getur borgað sig að þrífa vel sameig- inleg rými og staði sem allir á heim- ilinu snerta; borðplötur, handföng, hurðarhúna og þess háttar. Forðast ber beina snertingu við líkamsvessa eins og slím úr öndunarvegi, hægðir, uppköst eða blóð. Þeir sem annast hinn veika ættu að takmarka samskipti sín við aðra eins og unnt er, á meðan veikindin standa yfir. Ekki er mælt með fyrir- byggjandi notkun veirulyfja. Grímur falskt öryggi Þær myndir, sem birst hafa í fjöl- miðlum frá útlöndum, í tengslum við svínaflensuna, sýna gjarnan að fólk ber klúta eða andlitsgrímur fyr- ir vit sín. Á vef Landlæknisembætt- isins segir að andlitsgrímur komi að notum í heilbrigðisþjónustunni, þar sem þekking á réttri notkun þeirra er fyrir hendi. Hins vegar hafi ekki verið sýnt fram á nokkurn árangur af notk- un þeirra meðal almennings. „Grím- urnar geta gefið falskt öryggi og jafn- vel hugsanlega aukið líkur á smiti ef þær eru notaðar of lengi og/eða komið er við þær með höndunum,“ segir á síðunni. Þar segir auk þess að erfitt geti verið að þola andlitsgrímur í lengri tíma við veikindi. Langtíma- notkun sé ekki ráðleg. Smitast ekki af svínakjöti Þótt A(H1N1) sé kölluð svínaflensa er ekki hægt að smitast af flensunni af svínakjöti eða afurðum af svínum. „Inflúensuveiran smitast ekki með því að borða rétt meðhöndlað svína- kjöt, sem er eldað á réttan hátt, né heldur með öðrum afurðum svína- kjöts. Ekki liggja fyrir nein vísindaleg gögn sem benda til þess að menn geti smitast af svínakjöti við neyslu þess eða svínaafurða,“ segir á vefnum. Þar segir einnig að dæmigerð svínainflúensa sé ekki sjúkdómur í mönnum heldur bráð veirusýking í öndunarfærum svína sem orsak- ist af öðrum inflúensuveirustofni en nýja inflúensan sem við glímum við nú. „Dánartíðnin er lág í svínum og þau ná sér oftast innan 7 til 10 daga. Sýkingar af völdum inflúensuveirna með uppruna í svínum koma einn- ig fyrir í villtum fuglum, hestum og mönnum, en smit á milli tegunda er talið sjaldséð.“ EinkEnni: n Hiti n Hálssærindi n Hósti n Hnerri n Beinverkir n Höfuðverkur n Uppköst/niðurgangur (38% tilfella) Hendurnar skulu þvegnar með vatni og sápu auk þess sem þær skulu þerraðar á eftir. BALDUR GUÐMUNDSSON blaðamaður skrifar baldur@dv.is Flensan berst með dropum eða úða Mikilvægt er að bera pappírsþurrkur fyrir vitin þegar hinn veiki þarf að hnerra eða hósta. Gagnlitlar grímur „Grímurnar geta gefið falskt öryggi og jafnvel hugsanlega aukið líkur á smiti ef þær eru notaðar of lengi.“ Svona forðaStu SvínaflEnSuna

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.