Dagblaðið Vísir - DV - 09.04.2010, Page 22

Dagblaðið Vísir - DV - 09.04.2010, Page 22
22 FÖSTUDAGUR 9. apríl 2010 FRÉTTIR Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, rær nú að því öllum árum að kveða niður orðróm um vandamál í ranni hans og forsetafrúarinnar Cörlu Bruni. Það kostulega í málinu er að í þann mund sem orðrómurinn hafði nánast hljóðnað tóku forsetinn og ráðgjafar hans þá ákvörðun að benda fingrum í allar áttir. Ráðgjafar Sarkozys ýjuðu að al- þjóðlegu samsæri sem miðaði að því að koma franska ríkinu á hné, þeir skelltu skuldinni einnig á Rachidu Dati, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem var í eina tíð í sérstöku uppáhaldi hjá forsetanum en hefur nú verið sett út af sakramentinu. Einnig hefur erki- keppinautur Sarkozys, Dominique de Villepin, fyrrverandi forsætisráðherra, verið nefndur til sögunnar, og þess hefur nú verið krafist að öryggislög- reglan líti nánar á málið. Forsaga málsins Fyrir þá sem misstu af fyrstu þáttun- um þá er forsagan í stuttu máli sú að í janúar komst sú saga á kreik á sam- skiptasíðunni Twitter og fleiri netsíð- um að Carla Bruni og Nicolas Sarkozy ættu hvort um sig í ástarsambönd- um við þekkta einstaklinga. Einn- ig var sagt að þau byggju ekki saman en héldu til hjá þeim sem þau stæðu í sambandi við. Í fyrri mánuði ákvað ungur mað- ur að teygja lopann á bloggsíðu sem tengist frönsku dagblaði og eins og við var að búast hentu bresk slúðurblöð, og önnur, boltann á lofti og fjölluðu um orðróminn. Nú berast þær fregnir að Sark ozy hafi þá verið verulega sár yfir orð- rómnum, svo sár að hann blés til gagnsóknar. Það sem Sarkozy senni- lega gerði sér ekki grein fyrir og eng- um datt í huga að upplýsa hann um, var að hann varð fórnarlamb tveggja öflugra miðla, netsins og slúðurblaða, sem ekki láta sannleikann eyðileggja góða sögu um völd, glans og gjálífi, ekki síst ef um er að ræða útlendinga sem sennilega höfða ekki mál. Ekki í hefndarhug Á miðvikudagskvöld reyndi Carla Bruni að eyða fullyrðingum um að hún og ektamaður hennar væru hel- tekin af samsæriskenningum vegna orðróms um ótryggð þeirra beggja í hjónabandinu. „Gagnvart mér og eiginmanni mínum hefur þessi orðrómur enga þýðingu. Það er satt að við vorum fórnarlömb gróusagna og það var ekki ánægjulegt, en þessar sögusagnir hafa enga þýðingu fyrir okkur,“ sagði Carla. Carla sagði ennfremur að þau bæru engan hefndarhug í garð þeirra sem ábyrgð bæru á orðrómnum og að þau hefðu ekki fyrirskipað leyniþjónust- unni að rannsaka upptök hans. Sú fullyrðing gengur þvert á fullyrðingar starfsfólks forsetaembættisins í fyrri viku og staðfestingar frönsku leyni- þjónustunnar, DCRI, á miðvikudag- inn á því að leyniþjónustan hefði feng- ið skipun um að komast að uppruna sögusagnanna. Sögusagnir um ástar- ævintýri forsetahjónanna utan hjóna- bands fengu byr undir báða vængi fyrr á árinu og samkvæmt þeim áttu bæði Carla Bruni og Nicolas Sark ozy að eiga í sambandi við þekkta samstarfsaðila. Sem fyrr segir hefur Sarkozy senni- lega skotið sjálfan sig í fótinn með gagnárásinni nú því franskir fjöl- miðlar höfðu að mestu leyti hundsað sögusagnirnar. Veldur áhyggjum meðal bandamanna Sem fyrr segir hefur Rachida Dati ver- ið bendluð við að hafa komið kviksög- unum af stað en hún hefur staðfastlega neitað þeim ásökunum. „Orðrómur, rógburður og slúður um einkalíf eru algjörlega ótæk og hneykslanleg. [...] Það er bara hneyksli að ég hafi verið bendluð við þetta beint,“ sagði Dati í útvarpsviðtali. Undanfarna daga hefur Rachida Dati verið sökuð af ráðgjöfum forset- ans um að eiga sinn þátt í samsæri um að ata Nicolas Sarkozy auri. Vin- ur forsetans og aðstoðarmaður, Pierre Charon, mun hafa fullyrt að starfsfólk forsetaembættisins hafi undir hönd- um sannanir fyrir aðild Rachidu, og hefur hún hótað meiðyrðamálsókn. Á miðvikudaginn blandaði starfs- mannastjóri forsetaembættisins Claude Guéant sér í umræðuna um þátttöku Rachidu Dati og sagði að „forseti lýðveldisins vildi ekki berja Rachidu Dati augum framar“. Nú er svo komið að sumir banda- menn Sarkozys hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin sé að gera úlfalda úr mýflugu og sagði talsmaður ríkis- stjórnarinnar Luc Chatel, sem einnig er menntamálaráðherra, að ummæli Pierres Charon hafi verið ótímabær. Yves Censi, þingmaður Sarkozys, sagði að önnur áhyggjuefni hvíldu á Frökkum. „Stjórnmálaleiðtogar gerðu betur í því að vekja máls á einhverju öðru en því sem er algjör vitleysa,“ sagði Yves. Er í vígahug Hvað sem áhyggjum Lucs Chatel og Yves Censi líður er ljóst að Pi erre Charon er í vígahug og hefur farið mikinn undanfarna daga. „Við lýsum yfir stríði á hendur þessum svívirði- legu sögusögnum. Við munum ganga eins langt og við getum til að tryggja að svona eigi sér ekki stað aftur. Við viljum að þeir sem reyndu að breiða út ótta finni sjálfir til ótta,“ sagði Char- on, en að hans mati leikur grunur á að upprunann megi að einhverju leyti rekja út fyrir landsteina Frakklands því bæði þýskir og breskir fjölmiðlar fjölluðu um meint hjúskaparbrot for- setahjónanna. Að sögn Charons er ætlunin að grafa undan Sarkozy nú þegar líður að því að hann taki við for- mennsku í G20-hópnum á næsta ári. Lögfræðingur Sarkozys, Thierry Herzog, er álíka ómyrkur í máli og Charon og segir að einstaklingar eða skipulögð leynisamtök vinni að því að „veikja stöðu“ forsetahjónanna. Þáttur Cörlu Bruni Eins og komið hefur fram voru um- mæli Cörlu Bruni í útvarpsviðtali í hrópandi mótsögn við bæði fullyrð- ingar frá starfsmannaskrifstofu forset- ans og frönsku leyniþjónustunni. Hún bætti um betur í viðtali við frönsku útvarpsstöðina Europe1 þegar hún vísaði á bug þeim fullyrðingum ráð- gjafa forsetans að forsetinn væri jafn- vel fórnarlamb samsæris um að veikja stöðu hans í embætti. Þvert á það sem einkennt hefur undanfarna daga sagði Carla að það „væri ekkert samsæri, engar hefnd- araðgerðir“ í gangi, og að þetta snerti þau hjónin ekki. „Við höfum snúið okkur að öðrum málum,“ sagði Carla. Einnig bar hún blak af Pierre Char- on og sagði hann hafa tjáð sig um málið sem vinur hjónanna og að hann hafi gleymt sér. „Hann tók þetta nærri sér – í meira mæli en við gerðum. [...] Hann vildi verja okkur og gekk helst til langt,“ sagði Carla í viðtalinu. Einnig lýsti Carla því yfir í viðtalinu á Europe að hún legði ekki trúnað á þær fullyrðingar að Rachida Dati ætti hlut að máli: „Ásakanirnar sem urðu að sögusögn eru sögusagnir. Því legg ég ekki trúnað á þær.“ Sápuópera Sarkozys Vinsældir Nicolas Sarkozy eru nú í sögulegu lágmarki og kveður svo rammt að að hann stendur jafnvel frammi fyrir mótþróa í eigin herbúð- um. Stjórnmálaskýrendur ýjuðu að því fyrir inngrip forsetafrúarinnar að Sarkozy hafi komist að þeirri nið- urstöðu að með því að kynda undir samsæriskenningum í tengslum við orðróm sem nánast var farið að slá í fengi hann stöðu fórnarlambs og tæk- ist jafnvel að þétta raðirnar. Samsæriskenningarnar hafa ekki eingöngu fengið háðulega útreið í erlendum fjölmiðlum heldur einn- ig bjargað deginum hjá stjórnarand- stöðunni, sem segir að málið hafi aðeins styrkt „Sarko-sápuóperu“- ímyndina sem hafi einkennt „revíu“- forsetatíð hans. François Hollande, fyrrverandi formaður Sósíalistaflokksins, sagði að nú ríkti sjaldgæfur andi sundrungar í frönskum stjórnmálum, það væri for- setans að binda endi á það. „Hvernig gátum við lagst svona lágt,“ sagði Holl- ende. Við lýsum yfir stríði á hendur þessum sví-virðilegu sögusögnum. Við munum ganga eins langt og við getum til að tryggja að svona eigi sér ekki stað aftur. Við viljum að þeir sem reyndu að breiða út ótta finni sjálfir til ótta. Nicolas Sarkozy hefur tekist að blása lífi í nánast kulnaðar glæður orðróms um hjú- skaparbrot hans og forsetafrúarinnar Cörlu Bruni. Ráðgjafar hans hafa blásið til gagn- sóknar gegn þeim sem ábyrgð bera á sögusögnunum sem fengu vængi fyrr á árinu. Til sögunnar eru nefndir fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakklands og óþekktir ein- staklingar sem hyggja á samsæri um að veikja stöðu Frakklandsforseta. Stjórnarand- staðan segir málið „sápuóperu“ Sarkozys. SARKOZY OG „SÁPUÓPERAN“ KOLBEINN ÞORSTEINSSON blaðamaður skrifar: kolbeinn@dv.is Rachida Dati Fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur fallið í ónáð hjá Frakklandsforseta. MYND AFP

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.