Dagblaðið Vísir - DV - 09.04.2010, Page 31

Dagblaðið Vísir - DV - 09.04.2010, Page 31
VIÐTAL 9. apríl 2010 FÖSTUDAGUR 31 Neyslan er bara toppurinn á ísjakan-um. Fólk einblínir alltof mikið á hana og það er líka skiljanlegt. En það er bara sýnilegi parturinn af vandamál- unum. Undir niðri er heill heimur af vandamál- um, áfengi og dóp eru bara skyndilausn á þeim,“ segir Erna Gunnþórsdóttir 25 ára fyrirsæta og móðir en hún var áberandi á síðum tímarita fyr- ir nokkrum árum. Erna sat meðal annars fyr- ir í Bleiku og bláu og var ein fyrsta svokallaða bombufyrirsætan hér á landi sem náði miklum vinsældum á netinu. Erna var ung á þessum árum og leiddist út í mikla ógæfu. Hún segir brotna sjálfsmynd sök- um eineltis sem hún varð fyrir sem barn hafa haft mikil áhrif á líf sitt sem var komið í mikl- ar ógöngur. Erna ákvað hins vegar að taka sig á og er reynslunni ríkari í dag. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig og hún horfði meðal annars á bestu vinkonu sína gjalda fyrir óregluna með lífi sínu. Það hafði djúpstæð áhrif á Ernu sem hefur svo sannarlega snúið við blaðinu. Hún fór að einbeita sér að námi og útskrifaðist með verð- launum og viðurkenningum úr Fjölbrautaskól- anum í Breiðholti. Erna er tveggja barna móð- ir í dag og fjölskyldan er henni allt. Hún stefnir á nám í hjúkrunafræði þegar fæðingarorlofinu lýkur og hefur loksins fundið jafnvægi í lífi sínu. ÓLST UPP HJÁ ÖMMU OG AFA „Ég ólst upp í Fossvoginum hjá ömmu minni og afa,“ segir Erna um uppvöxt sinn, en móðir hennar er hin landsþekkta söngkona Elínborg Haraldsdóttir betur þekkt sem Ellý í Q4U. „Að- stæður voru þannig hjá henni þá að þær buðu ekki upp á að hún gæti verið með mig.“ Erna segir að þrátt fyrir þetta óhefðbundna samband við móður sína þá hafi þær ávallt ver- ið vinkonur. „Við höfum alltaf verið það en eins og í öllum vinasamböndum þá getur þetta ver- ið upp og ofan,“ segir hún og brosir. „Mamma er frábær og það er margt sem ég get lært af henni. Hún hefur núna verið edrú í tuttugu ár og er bara ótrúlega flott kona.“ Erna telur þó að fjölskyldumynstur hennar hafi ekki haft slæm áhrif á sig sem barn. „Maður vissi alveg að þetta væri eitthvað öðruvísi en hjá flestum en ég þekkti heldur ekkert annað. En ég tel hvorki foreldrum mínum né uppeldinu um að kenna hvaða leiðir ég fór í lífinu síðar meir. Það er auðvelt að kenna fólki, aðstæðum og og öllu öðru um þegar illa fer hjá manni en ég geri það nú ekki.“ EINELTI Í FOSSVOGINUM En hvernig var að alast upp í Fossvoginum? „Það hefur eflaust verið fínt fyrir alla aðra en mig. Ég var lögð í einelti í barnaskóla sem er ekki upp- byggilegt fyrir unga manneskju.“ Erna segir þá reynslu hafa haft mikil mótunaráhrif á sig sem barn. „Það sem gerist þegar börn eru lögð í ein- elti er að þau læra að hafna sjálfum sér. Þú ert að mótast það mikið á þessum árum að ef þú heyr- ir sífellt að þú sért ekki nóg góð þá ferðu að trúa því. Eins og í mínu tilfelli fékk að heyra að ég ég væri bara feit og ljót og ég fór bara að taka því sem einhverjum sannleika um mig. Það eru alls kyns hlutir sem móta persónu en ég tel þetta bara vera eitt það versta sem hægt er að lenda í.“ Erna telur að fólk hafi á þessum tíma verið mun minna meðvitað um einelti og afleiðingar þess. Hjálpin hafi því verið lítil sem engin. „Svona mál voru yfirleitt bara þögguð niður eða þeim ýtt út af borðinu því þau voru óþægileg. Það er allt annað uppi á teningnum núna sýnist mér. Það virðist hafa verið einhver eineltisvakning síðustu árin sem er mjög jákvætt. Þá kannski vita þeir sem verða fyrir eineltinu að það sé rangt og ekki þeim að kenna.“ En það var einmitt verst við eineltið að mati Ernu. Að trúa því sjálf að eineltið væri henni að kenna. „Ég hélt bara að það væri eitthvað að mér.“ ÖÐLAÐIST SAMÞYKKI Þegar Erna komst svo á unglingsaldurinn fóru hlutirnir að breytast. „Ég breyttist, varð kona og þetta bara hætti í kjölfarið. Svo gerist það að ég verð „vinsæl“ eða hvað sem maður á að kalla það. En mér leið áfram jafnilla og ég fór að taka sárs- auka minn út á öðrum. Ég breyttist úr því að vera algjör veggjalús í að vera bara léttklikkaður ung- lingur. Ég fór frá því að vera eins og ég hélt, ljót og leiðinleg, í að heyra það að ég væri sæt og falleg. Það var rosalegur viðsnúningur.“ Þrátt fyrir það trúði Erna því ekki sjálf að hún væri sæt eða falleg. Hún sótti samt í athyglina til að reyna að bæta brostna sjálfsmynd. „Mað- ur gerði það svona að vissu leyti til þess að fróa sjálfsmyndinni eins og fólk er alltaf að reyna en ég ætlaði samt aldrei að verða fyrirsæta á þess- um tíma.“ Þrátt fyrir að Erna hafi verið „léttklikkaður unglingur“, eins og hún orðar það, þá var hún til friðs alveg þangað til hún var 18 ára gömul. „Hjá mér var þetta bara stigvaxandi og braust svo út í þessu þegar ég var orðin 18 ára,“ en það var þá sem að Erna fór að leiðast út í ógæfu og neyslu. „Það sem gerist þegar maður sekkur ofan í þennan heim er að maður fer að lifa í svo miklu myrkri. Maður fer að ala með sér mjög óaðlað- andi persónuleika sem fylgir þessum sjúkdómi. Þessi gríma verður svo varanlegt andlit manns eftir einhvern tíma. Þegar ég hugsa til baka um þennan tíma þá hugsa ég voðalega lítið um dóp- ið sem slíkt eða neysluaðferðirnar heldur aðal- lega um hvernig ég var orðin. Hversu mikið ég var búin að hafna sjálfri mér og hvað ég var týnd. Það er oft talað um það að vandamálið byrji þegar fíkniefnin eru tekin frá fólki, fíkniefnin eru bara lausn á einhverju öðru. Ég var fín þá en þeg- ar þau hurfu hófst hin raunverulega barátta. Það er ekkert mál að hætta í neyslu í einhvern tíma en það er meira mál að halda því þannig.“ ERNA G Það var á þessum árum sem Erna ákvað svo að gerast fyrirsæta. Það er óhætt að segja að hún hafi vakið mikla athygli í því fagi en Erna var óhrædd við að sitja fyrir nakin. Hún gekk undir nafninu Erna G og var svo sannarlega umtöluð. Hún var ein fyrsta bombufyrirsætan sem herj- aði á netið hér heima og var það allt með ráðum gert. Viðbrögðin létu ekki standa á sér, bæði já- kvæð og neikvæð. „Þetta var bara hugdetta sem ég fékk allt í einu.“ Erna segir hugmyndina ekki síst hafa komið til vegna þess að einhver hafði sagt að hún gæti aldrei orðið fyrirsæta því hún væri of smávaxin. „Ég hefði ekki viðurkennt það þá en ég geri það núna að ég vildi bara athygli. Ég vildi hana núna og ég vildi hana strax. Mér var í raun sama hvernig ég fékk hana.“ Erna fékk þá hugmynd að herja á netið með myndir sínar en lítið hafði verið gert af því á Ís- landi fram að þeim tíma. „Ég lét taka af mér myndir og setja þær á nokkrar síður og síðan varð bara einhver sprengja. Ég vissi að alltaf að þetta myndi vekja athygli en mig óraði ekki fyrir að hún yrði svona mikil.“ Erna heldur því þó ekki fram að hún hafi ver- ið að finna upp hjólið í neinu sem tengist þess- um bransa. „Þvert á móti en þetta hratt af stað bylgju af þessum villingafyrirsætum sem voru mjög áberandi á þessu tímabili, svona villtar bombufyrirsætur. Þetta hljómar voðalega einfalt þegar maður segir þetta en ég hafði mikið fyrir þessu. Þótt það sé ekki erfiðasta starf í heimi að vera fyrirsæta þá eru ekki allir sem myndast vel og það þarf líka visst til að geta haldið svona ferli við. Ég hafði fullt í þetta á sínum tíma.“ ALDREI HLUSTAÐ Á R&B Erna sér ekki eftir fyrirsætuferli sínum í dag þótt hún hafi gert það á tímabili. „Ég var bara að gera þetta á svo röngum forsendum. Ég var að reyna að laga eitthvað innra með mér en það gerðist ekki. Þetta var ekki rétta leiðin. Þegar þú situr fyrir áttu einmitt að vera með sterka sjálfsmynd en alls ekki að sitja fyrir til að reyna bæta hana. Ég hélt alltaf að um leið og ég væri búin í þessu blaði eða þessari myndatöku þá myndi allt verða í lagi. Út af því að ég var ekki með vissa hluti í lagi, út af því að ég var ekki með sjálfsímyndina í lagi þá bauð ég sjálfri mér upp á hluti sem ég hefði ekki átt að gera. Ég fór svolítið yfir strikið gagn- vart sjálfri mér.“ Erna er stundum gáttuð þegar hún les gömul viðtöl við sig í dag. „Ég veit ekki alveg hver ég var á þessum tíma. Ég var til dæmis að lesa gamalt viðtal í Bleiku og bláu og þar er spurt hvaða tón- list komi mér til og svarið er „R&B“. Ég hef aldrei á ævi minni hlustað á R&B. Ég bjó bara til ein- hvern karakter sem mér fannst henta.“ SANNLEIKURINN ÖSKRAR Á ÞIG Árið 2005 varð svo vendipunktur í lífi henn- ar. „Ég tók þá ákvörðun að breyta lífi mínu og það sem gerðist í kjölfarið var að ég afneitaði þessu, myndatökunum og þessu fyrirsætudóti öllu saman. Ég varð mjög reið út í þetta og reið út í sjálfa mig. Ég vildi bara ekki vita af þessu. En ég er það ekki í dag. Þegar maður gerir eitt- hvað sem manni líkar svo ekki við er reyndar frekar óheppilegt að gera það svona fyrir fram- an alla,“ segir hún og hlær. „Þá geturðu annað- hvort látið reynsluna móta þig og öðlast rökrétta sýn á sjálfa þig eða látið reiðina taka völdin. Ég veit ekki hvort ég myndi kalla þetta mistök en ég myndi pottþétt gera þetta öðruvísi í dag og jafn- vel ekki neitt. Fólk segist oft vilja geta tekið hlut- ina til baka en ég er ekki svo viss um að það sé rétt að hugsa svoleiðis því þá væri ég ekki sú sem ég er í dag og ég er bara mjög sátt við sjálfa mig.“ Þrátt fyrir að Erna hafi ákveðið að breyta lífi sínu 2005 þá hefur það gengið allt annað en átakalaust fyrir sig. „Þegar ég var 21 árs göm- ul leit ég yfir líf mitt og áttaði mig á því að þeir draumar og þær væntingar sem ég hafði til lífs- ins höfðu farið út um gluggann. Ég hafði ekkert skilið eftir mig nema sviðna jörð alls staðar þar sem ég hafði komið og sært fólk. Þetta var bara augnablik þegar þú getur ekki lifað í lyginni leng- ur. Sannleikurinn stendur bara fyrir framan þig og öskrar á þig.“ EKKERT JAFNVÆGI Erna gerði strax drastískar breytingar á lífi sínu og var staðráðin í að snúa við blaðinu. „Engin viðtöl, engar myndir og ef ég sá flass í kílómeters fjarlægð þá stökk ég bara inn í runna. Ég þurfti kannski bara að vera svona dramatísk til að slíta mig frá þessu. Ég var bara algjörlega týnd. Ég var í skóla á þessum tíma og ég fór út úr tíma og keyrði bara fram og aftur Reykjanesbrautina. Ég var svo týnd.“ Eftir að Erna varð edrú urðu mikil straum- hvörf í lífi hennar, eins og hún orðar það. „Ég hellti mér af fullum krafti í skólann og útskrifað- ist faktískt séð af þremur brautum og með fjór- ar viðurkenningar.“ Þrátt fyrir þessa velgengni skorti Ernu ennþá jafnvægi. „Einu sinni sóttist ég mikið eftir neikvæðri athygli en þarna fór ég að sækjast eftir jákvæðri athygli í staðinn. Ég þurfti að vera besti nemandinn, best í þessu og best í hinu. Það sem ég klúðraði á þessum tíma var að ég lærði aldrei að þekkja sjálfa mig og lærði aldrei að elska sjálfa mig. Ég hélt bara áfram að berja sjálfa mig niður fyrir það sem ég hafði gert.“ FYRIRMYNDIN FÉLL FRÁ Á þessum tíma eignaðist Erna mjög nána vin- konu sem var í svipuðum sporum og hún. „Við höfðum reyndar þekkst lengi en við urðum of- boðslega nánar og hún varð fyrirmyndin mín í lífinu. Hún var svona stúlka sem hafði allt. Hún var bara svo glæsileg, falleg og vel gefin. Hún ætlaði að verða læknir og voru allir vegir færir en það dugði samt ekki til að bjarga henni. Ég horfði svo upp á hana deyja. Þetta tók hana á þremur mánuðum,“ en Erna vill ekki fara nán- ar út í það mál af virðingu við fjölskyldu stúlk- unnar. „Auðvitað átti þetta að verða mér víti til varnaðar að verða vitni að þessu en það varð það ekki og við tók mjög erfitt tímabil. Það er kannski lýsandi dæmi um hversu alvarlegur og stórhættulegur þessi sjúkdómur er.“ Erna hélt áfram að rífa sjálfa sig niður eftir dauða vinkonu sinnar og kenndi sjálfri sér um. „Viss gildi og við- mið sem ég hafði byggt líf mitt á fóru í vaskinn og mér fannst þetta vera enn eitt dæmið um að ég ætti ekki séns. Að ég væri bara ömurleg og ætti ekkert gott skilið.“ En Erna náði að rísa á fætur á ný og náði loks að vinna í sjálfri sér á þann hátt sem skil- aði henni andlegum bata eftir allt sem á undan var gengið. VISSI EKKI AF BARNINU Fyrir einu og hálfu ári eignaðist Erna svo sitt fyrsta barn. Henni hvað mest að óvörum. „Ég var komin fimm mánuði á leið þegar ég vissi að ég væri ólétt þannig að það var svona nett sjokk.“ Erna eignaðist svo sinn annan son fyr- ir sex mánuðum en hún segir móðurhlutverk- ið svo sannarlega hafa haft djúpstæð áhrif á sig. „Það er margsögð klisja en maður veit ekki hvað lífið er fyrr en börnin koma.“ Eftir að Erna hafði útskrifast úr FB ákvað hún að fara í verkfræði í Háskólanum í Reykja- vík. „Það var náttúrulega algjört rugl þar sem ég var með fimm vikna gamalt barn heima og auð- séð að það myndi ekki ganga til lengri tíma fyrir mig. Enda er það ekki eitthvað sem að ég hafði beint áhuga á. Mér fannst það bara líta vel út.“ Erna hefur síðan þá verið í því að sinna móður- hlutverkinu en hún stefnir á að fara í hjúkrunar- fræði, eins og fyrr sagði. Erna segist í dag loksins hafa fundið það jafn- vægi sem hún hafi lengi leitað að. „Og bara að sættast við sjálfa mig og það sem ég hef gert. Þeir hlutir skilgreina mig ekki en þeir eru partur af mér og ég verð bara að taka þá í sátt. Þeir eru hluti af þeirri manneskju sem ég er í dag og mér líður vel í dag.“ asgeir@dv.is Erna Gunnþórsdóttir var áberandi fyrirsæta fyrir nokkrum árum. Ögrandi myndir af henni í Bleiku og bláu og á netinu vöktu gífurlega athygli og komu af stað hrinu af svokölluðum „villingafyrirsætum“. Erna var í mikilli óreglu á þessum tíma en hefur nú snúið við blaðinu og er hamingjusöm tveggja barna móðir. Hún segist loksins hafa tekið sjálfa sig í sátt en mikið einelti í æsku hefur markað líf hennar alla tíð. Erna ræddi við Ásgeir Jónsson um jafnvægi, neikvæða og jákvæða athygli, vinamissi og móður sína, Ellý í Q4U. MYND KRISTINN MAGNÚSSON FÖRÐUN HELGA MAGNÚSDÓTTIR HÁR SIGURVEIG GRÉTARSDÓTTIR

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.