Dagblaðið Vísir - DV - 28.09.2012, Page 18
18 Fréttir 28.–30. september 2012 Helgarblað
í samræmi við það sem er eðlilegt
og maður ætlaði. Ég var fyrir löngu,
á meðan ég var enn barn, farinn að
hugsa um rómantíska hluti sem hægt
væri að framkvæma með konunni
sinni. Vandamálið er bara að ég fylgdi
ekki planinu eftir.“
Söfnunaráráttan
Einu sinni sagði Sigmundur Davíð að
eiginkonan héldi því fram að hann
ætti engin áhugamál önnur en þau
sem snúa að vinnunni. Sem stjórn-
málamaður yrði hann hins vegar að
reyna að koma sér upp fleiri áhuga-
málum. „Ljósmyndun er smá tilraun
í þá áttina. Það er að vísu ekki alveg
nýtt áhugamál en ég hætti að sinna
því þegar ég fór í stjórnmálin. Áður
voru þetta aðallega myndir tengd-
ar skipulagsmálum en núna myndar
maður aðallega barnið. Mér finnst ég
aldrei hafa tekið nógu margar mynd-
ir af henni.“
Þar að auki segist hann vera mikill
safnari. „Konunni minni finnst þessi
söfnunarárátta fullmikið af því góða
en ég hef tilhneigingu til að hirða
hluti og geyma allt sem mér finnst
sögulegt og sérstakt. Það er því ým-
islegt sem hefur hrúgast upp og fleir-
um en Önnu Sigurlaugu hefur fund-
ist nóg um. Ég var að vinna á RÚV
þegar flutt var af Laugaveginum upp
í Efstaleiti og eins og oft í flutningum
rann æði á menn að henda og jafnvel
því sem mér þótti söguleg verðmæti.
Ég tók mig til og reyndi að bjarga
þessum minjum og hrúgaði í eina 50
kassa. Sumir þeirra eru í geymslu en
aðrir eru faldir í húsi Ríkisútvarps-
ins þar sem ég mun vísa á þá þegar
menn hafa komið sér upp aðstöðu til
að geyma þetta.“
Ástríðan fyrir skipulagsmálum
Þau hjónin deila hins vegar áhuga
sínum á skipulagsmálum og göml-
um húsum. Áður en Sigmundur
Davíð hóf feril sinn sem stjórnmála-
maður gerði hann tilraun til þess að
hafa áhrif á skipulagsmál í borginni,
tók sæti í Skipulagsráði Reykjavíkur-
borgar og talaði fyrir þeim menn-
ingar- og umhverfisverðmætum sem
felast í varðveislu og endurnýjun
eldri húsa og borgarhverfa.
Það var árið 2008 sem hann kom
inn í Skipulagsráð og þótt sætinu
hefði verið úthlutað af Framsóknar-
flokknum kom hann inn sem óháður
sérfræðingur en ekki flokksmaður og
sagði: „Ég hef aldrei tekið þátt í póli-
tík en þar sem ég hef tjáð mig talsvert
um skipulagsmál fannst mér ekki
annað hægt en að þiggja þetta tæki-
færi til að taka þátt í að móta stefn-
una í þessum málaflokki.“
Það var líka árið 2008 sem Anna
Sigurlaug bauðst til að endurbyggja
Laugaveg 4 og 6 í upprunalegri mynd
á eigin kostnað, svo framarlega sem
húsin yrðu áfram í miðbænum, til
dæmis í Hljómskálagarðinum. Sendi
hún borgarfulltrúum bréf um málið
þar sem hún rakti forsendurnar fyr-
ir þessari ákvörðun sinni og hafði þá
þegar látið teikna húsin fyrir sig í því
sem næst upprunalegri mynd ásamt
tengihúsum sem yrði lögð að gömlu
húsunum. Ljóst væri að kostnaður-
inn við endurgerð yrði talsvert meiri
en hugsanlegt söluverð, einkum ef
húsin yrðu flutt í burtu. Sagðist hún
fela Landsbankanum að senda borg-
aryfirvöldum staðfestingu á að hún
hefði fjárhagslega burði til að taka
að sér verkefnið. „Ég vænti þess þar
af leiðandi ekki að borgin sjái sér
hag í að kaupa þau að viðgerð lok-
inni þótt á kostnaðarverði væru. Það
er hins vegar sjálfsagt að semja um
slíkt fyrirkomulag óski borgin þess.
Aðalatriðið er að þessi sögulegu hús,
tvö af örfáum húsum sem eftir eru
af Reykjavíkurþorpinu, verði ekki
eyðilögð.“
Formaðurinn og hundurinn
Sunnudagurinn 18. janúar mark-
aði tímamót í lífi Sigmundar Davíðs.
Það var spenna í loftinu á flokksþingi
Framsóknarmanna, fimm tókust á
um formannssætið og þegar úrslitin
lágu fyrir var Höskuldur Þórhallsson
kynntur sem nýr formaður Fram-
sóknarflokksins. En Adam var ekki
lengi í paradís og Höskuldur ekki
lengi í sigurvímu. Hann var hylltur af
salnum og var í þann mund að stíga
í pontu þegar hlé var gert á fundin-
um, formaður kjörstjórnar hafði víxl-
að úrslitunum og hinn raunverulegi
sigurvegari kosninganna var nýliðinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Í fréttum um málið sagðist Sig-
mundur Davíð hafa orðið mjög
ánægður þegar Höskuldur var
kynntur sem sigurvegari kosning-
anna. „Það var eiginlega léttara að
heyra fyrri niðurstöðuna en þá síðari
þegar það helltist yfir mann ábyrgð-
in.“
Tæpur mánuður var síðan hann
gekk í flokkinn og nú var hann orðinn
formaður. „Líklega þarf maður að
fara að finna sér eitthvað nýtt til að
geta kúplað sig frá pólitíkinni. Nú
stendur til að við eignumst hund á
heimilinu. Það er þannig tilkomið að
ég lofaði konunni því að við myndum
fá hund ef ég yrði formaður Fram-
sóknarflokksins enda taldi ég litlar
líkur á því að ég þyrfti að standa við
það en það verður ekki hjá því komist
núna,“ sagði Sigmundur Davíð þegar
úrslitin lágu fyrir.
„Ótrúlegt en satt“
Áður en Sigmundur Davíð var kjör-
inn formaður hafði hann aldrei
gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn,
reyndar hafði hann lengi verið harð-
ákveðinn í að skipta sér ekki af póli-
tík þótt hann væri mikill áhugamað-
ur og hafi lýst því yfir fimm ára gamall
að hann ætlaði sér að verða forsætis-
ráðherra. Hins vegar varð mikil upp-
stokkun í forystu flokksins á þessum
tíma, enda vilji til að styrkja tengslin
við hugmyndafræði grasrótarinnar
eftir efnahagshrunið á Íslandi.
„Mér hefur fundist mjög ríkjandi í
flokksfélögunum vilji til þess að taka
á móti þeim sem vilja láta gott af sér
leiða. Jafnvel að því marki að þeir sem
koma nýir inn í flokkinn séu teknir
fram yfir þá sem hafa starfað innan
flokksins. Ég myndi segja að ég væri
kannski besta dæmið um þetta. Eins
og ég segi þá geng ég í flokk tveim-
ur vikum fyrir flokksþing. Ég ferðast
um landið og hitti flokksmenn í tvær
vikur. Á flokksþinginu ræddu menn
málin og ótrúlegt en satt þá treystu
menn þessum manni sem hafði á
engan hátt tekið þátt í stjórnmálum
áður, fyrir þessu hlutverki,“ sagði Sig-
mundur Davíð í nýlegu viðtali við DV.
Á þessum tíma gaf hann út að
hann gegndi ekki launaðri stjórn-
arsetu og væri í launalausu leyfi frá
skipulagsráði Reykjavíkur. Hann
hefði verið að vinna að ritun kennslu-
bókar og gerð heimildarmynd-
ar um skipulagshagfræði en vegna
stjórnmálaþátttöku sinnar væri óvíst
hvenær því verkefni lyki og hvort
hann fengi greitt fyrir það. Hann
sagðist ekki hafa fengið fjárhagslegan
stuðning fyrir framboðið og að félag
sem hann ætti helmingshlut í, Menn-
ing ehf., væri ekki starfandi. Hann
hefði sem sagt engar tekjur.
Umdeild ummæli
Eftir að hann fór í pólitík vilja allir tala
við hann þegar hann fer út á meðal
fólks, segja vinir hans.
Á ferli sínum sem stjórnmála-
maður hefur Sigmundur Davíð vak-
ið athygli fyrir eitt og annað. Fyrst
og fremst fyrir að verja vinstri ríkis-
stjórnina falli og gera með því mögu-
legt að mynda starfshæfa ríkisstjórn
áður en boðað var til kosninga árið
2009.
Fljótlega eftir þingkosningarnar
steig hann fram og sagðist geta redd-
að Íslendingum risaláni frá Noregi.
Seinna kom á daginn að það var einn
þingmaður á norska Stórþinginu sem
vildi skoða lánveitingar til Íslendinga
en ekki norsk stjórnvöld. Jens Stol-
tenberg, þáverandi forsætisráðherra
Noregs, sagði hreinlega nei við lán-
inu sem átti að hljóða upp á 2.200
milljarða króna.
Enda hefur Sigmundur Davíð ver-
ið gagnrýndur fyrir ýmis ummæli
sem þykja villandi eða eru röng. Eins
og það þegar hann sagði að ríkis-
stjórnin hefði unnið þjóðinni meira
tjón eftir hrun en það tjón sem varð
við hrunið sjálft. Reyndar færði
hann engin rök fyrir þessari full-
yrðingu en þegar hagtölur og aðrar
vísbendingar um stöðu þjóðarbús-
ins voru skoðaðar kom í ljós að hún
átti ekki við nein rök að styðjast.
DV tók því saman lista yfir um-
mæli Sigmundar Davíðs sem þóttu
villandi og staðsetti þau á lygamæli.
Þar var hann til að mynda sagður
hafa logið því til að kanadísk stjórn-
völd vildu hefja myntsamstarf við
Íslendinga, en í ljós kom að ekkert
slíkt samkomulag hafði verið rætt,
nema í samtali Sigmundar Dav-
íðs við ónafngreindan blaðamann.
Og því að búferlaflutningarnir eftir
hrun væru sambærilegir fólksflutn-
ingunum til Vesturheims. Þessum
ummælum var hafnað í skýrslu sem
var unnin af prófessor við Háskóla
Íslands sem sagði slíkan samanburð
fjarri sanni.
Gamall og góður vinur hans og
samherji segir þó að helsti kostur og
galli Sigmundar Davíðs sé að hann
kynni sér málin alltaf vel og vandlega
áður en hann myndar sér afstöðu en
það geti tekið tíma. Hins vegar hafi
hann ekki alltaf notið sammælis,
honum séu gerðar upp skoðanir og
hans sterka réttlætiskennd hafi ekki
alltaf komist til skila. Hann hafi ver-
ið dæmdur fyrirfram, kannski vegna
auðæfa sinna og stöðu, og kannski
vegna þess að flokkurinn hafi átt
undir högg að sækja á síðustu árum.
Baráttan við holdið
En það er fátt sem hefur vakið eins
mikla athygli og megrunarkúrinn
sem Sigmundur Davíð kallaði ís-
lenska kúrinn. Sigmundur Dav-
íð fitnaði nefnilega þegar hann tók
sæti á Alþingi og fór að borða í mötu-
neytinu þar og honum fannst leiðin-
legt að feitasti leikarinn léki hann
alltaf í Skaupinu. „Ég veit alveg að ég
er í smá holdum en hann er greini-
lega í einhverri afneitun,“ sagði leik-
arinn og hló.
Sigmundur Davíð sló líka á létta
strengi og sagði Össur Skarphéðins-
son hafa varað sig við mötuneytinu.
„Þar væri hreint út sagt alltof góð-
ur og lystugur matur og hann hefði
brennt sig illa á því. Ég hefði átt að
taka varnaðarorðum hans,“ sagði
Sigmundur Davíð og bætti því við
hann hefði verið fljótur að bæta á sig
í þessu góða fæði „... og ekki var ég
sérlega grannur fyrir,“ sagði hann.
Íslenski kúrinn gekk út á að borða
aðeins íslenskar afurðir en hann
sagði meltingarlækni hafa ráðlagt
sér þetta því íslenskur matur væri sá
hollasti í heimi.
Árangurinn lét ekki á sér standa,
Sigmundur Davíð varð „... hressari
og orkumeiri en áður,“ og léttist um
fleiri kíló. Hann leyfði þjóðinni að
fylgjast með gangi mála. „Kominn
undir 100 kíló í fyrsta skipti frá því ég
var 12 ára … nei, það er líklega ekki
alveg það langt síðan en alla vega
lengra en ég man og í millitíðinni
hafa verið ófáar tilraunir sem skiluðu
ekki sama árangri og íslenski kúrinn,“
sagði Sigmundur um megrunina en
hann byrjar daginn yfirleitt á skyri
eða léttri AB-mjólk með bláberjum
og krækiberjum úr frystinum.
Í eina skiptið sem vitað er með
vissu að Sigmundur hafi svindlað á
„íslenska kúrnum“ er þegar hann var
staddur í Finnlandi en þá fékk hann
matareitrun.
Átökin
Nú takast þeir aftur á, þeir Sigmund-
ur Davíð og Höskuldur, en báðir
sækjast eftir fyrsta sæti í Norðaust-
urkjördæmi. Höskuldur var fyrstur,
Sigmundur Davíð kom á eftir og
Höskuldur varð sár og sagðist ekk-
ert hafa vitað af fyrirætlunum Sig-
mundar Davíðs. Sigmundur Davíð
sagði það rangt, Höskuldur hefði víst
vitað hvað stæði til og undir það tók
framkvæmdastjóri flokksins. Hösk-
uldur svaraði því þá og sagðist hafa
verið langfyrstur, hann hefði tilkynnt
um stefnu sína um miðjan septem-
ber á bæjarmálafundi Framsóknar á
Akureyri. Það staðfesti bæjarfulltrúi
flokksins þar.
Málið þykir allt hið vandræðaleg-
asta, flokksmenn komu flestir af fjöll-
um og í frétt DV kom fram að Sig-
mundur Davíð hefði ekki rætt sín
mál innan flokksins. Meira að segja
detox-drottningin sem nýlega gekk
til liðs við flokkinn, Jónína Bene-
diktsdóttir, steig fram og sagðist ósátt
við þá félaga. „Ég hefði gert þetta
öðruvísi,“ sagði hún. „Ég hefði gert
þetta þannig að fólk væri ekki að eiga
samskipti í gegnum fjölmiðla. Þetta
er mjög slæmt en vonandi bara lærir
fólk af þessu. Svona hagar maður sér
ekki. Kannski hef ég meiri reynslu af
fjölmiðlum en þessir strákar.“
Slök staða í Reykjavík
Vigdís Hauksdóttir steig einnig fram
og sagðist hvorki vera flokka- né kjör-
dæmaflakkari. Þar skaut hún föst-
um skotum á Sigmund Davíð sem
fór fram í Reykjavík árið 2009. Þá var
hann gagnrýndur fyrir þá ákvörðun
og sagðist finna fyrir þrýstingi frá
grasrót flokksins um að hann byði
sig fram á landsbyggðinni. Hann
varði ákvörðun sína með því að segja
að það æskilegast fyrir flokkinn að
hann byði sig fram í Reykjavík, „því
hér er mikið endurnýjunar- og upp-
byggingarferli í gangi,“ sagði hann.
Í gegnum tíðina hefur Framsókn
átt erfiðara uppdráttar í Reykjavík
en á landsbyggðinni. Af þeim sökum
hafa formenn flokksins gjarnan boð-
ið fram í Reykjavík í viðleitni sinni til
að styrkja flokkinn þar.
Það er þó ljóst að í því felst áhætta
eins og sjá má af örlögum Jóns Sig-
urðssonar, sem leiddi flokkinn árið
2007 og fór fram í Reykjavík. Hann
komst ekki á þing og sagði af sér for-
mennsku í kjölfarið. Árið 2009 tókst
Framsóknarflokknum hins vegar að
ná inn tveimur mönnum í Reykjavík
en Vigdís Hauksdóttir fór inn ásamt
Sigmundi Davíð.
Spekúlantar hafa sagt það veik-
leikamerki hjá Sigmundi Davíð að
rjúfa hefðina og flýja í öruggara kjör-
dæmi – og ómaklegt af formanni að
fara gegn eigin þingmanni.
Eins er ljóst að uppbyggingarstarf-
inu í Reykjavík er langt í frá lokið ef
marka má niðurstöður úr Capacent-
könnun á fylgi stjórnmálaflokka. Þar
kom fram að Framsókn gæti misst
þingmann í Reykjavík norður, þótt
flokkurinn haldi væntanlega sama
þingmannafjölda. En samkvæmt því
væri Sigmundur Davíð úti.
Þá er einnig vert að hafa í huga að
í sveitarstjórnarkosningunum árið
2010 átti flokkurinn erfitt uppdráttar
og náði ekki manni í borgarstjórn. n
Ástin Hjónin kynntust í áramótapartíi, smullu vel saman og hafa
verið saman síðan. Þau deila meðal annars áhuga sínum á skipulags-
málum en Anna Sigurlaug á stundum erfitt með söfnunaráráttu hans.
Nýja húsið Þegar von var á erfingja fluttu hjónin sig um set og komu
sér fyrir á æskuslóðum Sigmundar Davíðs í Breiðholtinu.
Á gleðistundu Átökunum um auðæfin er löngu lokið og sárin
hafa gróið um heilt. Hér sjást foreldrar Sigmundar Davíðs og Önnu
Sigurlaugar gleðjast með þeim á brúðkaupsdaginn.
Föðurhlutverkið breytti öllu Eftir að hann varð pabbi öðlaðist
Sigmundur Davíð nýja sýn á lífið og varð enn ákveðnari í því að láta
gott af sér leiða.
„Kominn undir 100
kíló í fyrsta skipti
frá því ég var 12 ára … nei,
það er líklega ekki alveg
það langt síðan en alla-
vega lengra en ég man
og í millitíðinni hafa verið
ófáar tilraunir sem skil-
uðu ekki sama árangri
og íslenski kúrinn.